
Ævintýraleg stórsýning byggð á einni vinsælustu barnabók síðustu ára
Nú er bókin sem sló í gegn orðin að stórkostlegum fjölskyldusöngleik! Draumaþjófurinn er glænýtt íslenskt leikverk eftir bók Gunnars Helgasonar sem hrífur bæði börn og fullorðna. Æsispennandi þroskasaga, með litskrúðugum og skemmtilegum persónum, þar sem tekist er á við margt sem skiptir okkur svo miklu máli í dag!
Gunnar Helgason þarf ekki að kynna, en hann hefur á undanförnum árum sent frá sér hverja metsölubókina á fætur annarri fyrir börn og unnið til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókaverðlauna barnanna.

Heillar, gleður og vekur börn og fullorðna til umhugsunar
Í Draumaþjófnum hverfum við inn í litríkan, spennandi og stórhættulegan söguheim sem á engan sinn líka! Hetjan okkar hún Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís – eða bara Eyrdís – þarf að taka á öllu sínu og uppgötva hugrekkið innra með sér þegar líf hennar umbreytist á svipstundu.
Í Hafnarlandi er allt eins og það á að vera og rotturnar þekkja sinn sess í lífinu: Safnarar safna mat, Njósnarar njósna, Bardagarottur halda óvinum frá og Étarar éta og hafa það gott. Efst í virðingarstiganum gnæfir Skögultönn Foringi sem öllu ræður. En daginn sem dóttir hennar, hún Eyrdís okkar, gerir uppreisn tekur sagan óvænta stefnu. Rottuunginn litli neyðist til að flýja inn í Borgina þar sem hættur eru á hverju strái og framandi rottur leika lausum hala. Sjálfur Draumaþjófurinn er sendur til að bjarga henni – eða til að deyja!















