Yfirljósahönnuður Þjóðleikhússins
Björn Bergsteinn Guðmundsson hefur lýst fjölda sýninga hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Íslenska dansflokknum, Leikfélagi Akureyrar, Hafnarfjarðarleikhúsinu, Íslensku óperunni, Badisches Staatstheater og ýmsum leikhópum. Hann starfaði eitt leikár í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn. Hann hannaði lýsingu í mörgum sýningum þegar hann var fastráðinn í Þjóðleikhúsinu á árunum 1982-2005. Hann er nú yfirljósahönnuður Þjóðleikhússins. Meðal nýjustu verkefna hans eru Ellen B., Ex og Ekki málið, Draumaþjófurinn, Sem á himni, Framúrskarandi vinkona, Rómeó og Júlía, Nashyrningarnir og Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu og Ríkharður III og Níu líf í Borgarleikhúsinu. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga og margoft hlotið Grímuverðlaun fyrir lýsingu ársins, nú síðast fyrir Vertu úlfur.