Nashyrningarnir

Nashyrningarnir

Áhorfendur stóðu á öndinni á síðasta leikári
Verð
6.650 kr.
Lengd
2.30 eitt hlé

Seiðmagn nýrra hugmynda, hjarðhegðun og eilíf barátta mennskunnar við að lifa af

 

Hin ferska og fjöruga útfærsla Benedikts Erlingssonar og leikhópsins á þessu skemmtilega verki vakti gífurlega hrifningu á síðasta leikári og hlaut einróma lof. Tveir leikarar, þau Hilmir Snær Guðnason og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, voru tilnefndir til Grímuverðlaunanna fyrir leik sinn í sýningunni.

Eitt frægasta verk Ionescos

 

Hversdagslegt lífið í litlum bæ umturnast þegar íbúarnir taka að breytast í nashyrninga, hver af öðrum. Allir nema hlédrægur skrifstofumaður sem er gagnrýndur af vinnufélögunum fyrir óstundvísi, óreglu og frjálslegt líferni. Hvers vegna er það einmitt bara hann sem reynir að spyrna við fótum og halda í mennskuna?

Nashyrningarnir eru eitt frægasta verk hins heimsþekkta fransk-rúmenska leikskálds Ionescos. Leikritið er sett upp reglulega víða um heim, enda spyr það enn áleitinna og ögrandi spurninga.

“Hvenær verðum við VIÐ? Og hvenær verða hinir HINIR? Hugmyndir eru vírusar sem umbreyta okkur.”

Benedikt Erlingsson

LEIKARAR

Þátttakendur í sýningunni úr sviðsdeild, leikmunadeild og gestamóttöku: Anna Kristín Vilhjálmsdóttir, Elísa Sif Hermannsdóttir, Harpa Líf Hallgrímsdóttir, Herdís Jónsdóttir, Herdís Hlíf Þorvaldsdóttir, Högni Sigurþórsson, Lena Birgisdóttir, Siobhán Antoinette Henry, Valdimar Róbert Fransson, Valur Hreggviðsson, Vigdís Hafliðadóttir

Listrænir stjórnendur

Umsagnir

„Í öllum aðalatriðum hefur Benedikt Erlingsson og hans fólk leitað í leikritinu sjálfu og axlað þá ábyrgð að koma því skýrt og skemmtilega til skila. Og það tekst.“

MBL, ÞT

„Geggjuð sýning sem þið skuluð flykkjast á!“

SA, TMM

Nashyrningarnir er skylduáhorf.

FBL, SJ

„Hilmir Snær hreinlega umturnast í einu besta atriði kvöldsins enda leikari á öðrum mælikvarða“

Aðrir aðstandendur sýningarinnar

Sýningarréttur: Nordiska ApS – Kaupmannahöfn.

Verkið heitir Rhinocéros á frummálinu.

Athygli er vakin á því að í sýningunni er lifandi köttur.

 

„Maðurinn er mjög flókið og viðkvæmt dýr“

Melkorka Tekla Ólafsdóttir leiklistarráðunautur ræðir við Benedikt Erlingsson leikstjóra um sýninguna

Benedikt vildi hefja viðtalið á því að slá ákveðinn varnagla.

Mig langar að byrja á því að lýsa frati á viðtöl við leikstjóra í leikskrá. Slík viðtöl eru í raun yfirgangssöm aðferð til að útskýra sýningu og hvernig beri að skilja hana, í stað þess að áhorfandanum sé látið eftir að draga sínar eigin ályktanir. Ef leikstjóri tjáir sig um inntak og merkingu sýningar getur hann verið að þvinga ákveðnum skilningi upp á áhorfendur.

Engu að síður var ákveðið að setja ekki endapunktinn við viðtalið strax og Benedikt spurður að því hvað það hefði verið við leikritið sem kveikti í honum og hvers vegna hann hefði viljað setja það á svið nú.

Það sem kveikti í mér löngun til að takast á við verkið eru ákveðnar áleitnar spurningar sem hafa verið ofarlega á baugi á undanförnum árum varðandi okkar dýrategund, manninn. Við mennirnir höfum staðið frammi fyrir því að endurskilgreina stöðu okkar í dýraríkinu og viðurkenna að við erum dýr. Við höfum líka þurft að takast á við spurningar um hvers konar dýr við erum. Það er ljóst að maðurinn er mjög flókið og viðkvæmt dýr. Við stjórnumst af tilfinningum, við erum stöðugt að leika „statusleiki“ sem snúast um stöðu okkar gagnvart öðrum og valdatafl okkar í milli, við erum brjálaðar kynverur, þótt við reynum oft að afneita því, – og svo erum við vitsmunaverur.

Vegna þess að við erum vitsmunaverur, eða hugrænar verur, geta hugmyndir gagntekið okkur og mótað okkur. Við getum talið okkur trú um að eitthvað sé svo mikilvægt að það sé réttlætanlegt að við snúumst gegn okkur sjálfum og öðrum, verðum mannfjandsamleg. Mannkynssagan sýnir okkur hvernig við getum mótað og umbreytt samfélögum okkar með hugmyndafræði og hugmyndum, óháð því hvort það sé í raun til hagsbóta fyrir þegnana. Um leið eru hæfileikar okkar til að trúa á hugmyndir, vinna saman, hafa langtímahagsmuni að leiðarljósi og annast hvert annað þeir eiginleikar sem gera manninn að herra jarðarinnar.

Þetta er nokkuð sem er mjög áhugavert að skoða í leikhúsi. Það má segja að leikhúsið sé tæki sem manneskjan getur notað til að öðlast nokkurs konar sjúkdómsinnsæi í sjálfa sig sem vitsmunaveru eða hugræna veru. Þegar við erum í leikhúsi getum við horft á fólk á sviðinu sem er á valdi ólíkra hugmynda og tekst á um þær. Þannig getum við speglað okkur og jafnvel áttað okkur á ákveðnum hlutum varðandi okkur sjálf.

Þetta leikrit gerir okkur kleift að skoða hvernig hugmyndir geta breiðst út um samfélög eins og vírusar og umbreytt þeim. Í þessu verki er fjallað um vonda jaðarhugmynd sem verður útbreidd og viðtekin og umbreytir öllu.

Ionesco sagðist ekki hafa áhuga á því að flytja fólki boðskap í verkum sínum, en þó hefur mjög skýr boðskapur verið lesinn út úr Nashyrningunum, og verkið meðal annars verið skilið sem uppgjör við alræðisstefnur eins og nasisma og kommúnisma. Hvernig blasir þetta við þér, og hefur tíminn sem hefur liðið frá frumflutningi verksins breytt sýn okkar á inntak þess?

Þeir sex áratugir sem eru liðnir frá því að verkið var skrifað gera okkur kleift að skoða sumt í því í nýju ljósi. Eitt af því sem mér hefur þótt áhugavert að vinna með í sýningunni, þótt það hljómi kannski undarlega, er sú staðreynd að það eru til góðir „nashyrningar“. Ég á við að það eru til góðar hugmyndir sem byrja sem jaðarhugmyndir og verða síðan útbreiddar og viðteknar, samfélaginu til góðs. Við höfum séð hvernig slíkir nashyrningar hafa stundum tekið samfélög yfir og breytt þeim. Súffragetturnar, sem kröfðust kosningaréttar fyrir konur á sínum tíma, voru nashyrningar í augum margra, brjálaðar konur, en nú er hugmyndin um jafnrétti orðin útbreidd. Sama gildir um hugmyndina um samkynhneigð. Samkynhneigt fólk var álitið nokkurs konar nashyrningar í okkar samfélagi hér áður fyrr, en nú eru allir orðnir nashyrningar að þessu leyti. Nefna mætti hugmyndir um mannréttindi, loftslagsmál og fleira sem dæmi um hugmyndir sem hafa „smitast“ og við getum kallað „góðar“.

Leikritið sjálft er opið hvað þetta varðar. Hvenær er eitthvað gott og hvenær slæmt? Hvað er eðlilegt og hvað óeðlilegt? Ef þú ert orðin síðasta manneskjan í heiminum þá ert þú ekki „normal“ lengur, því normið ræðst af meirihlutanum. Hugmyndir okkar um réttlæti eru afstæðar og ráðast meðal annars af því í hvaða menningarsamfélagi við erum mótuð. Þær eru bundnar því samkomulagi sem meirihlutinn hefur mótað og trúir á. Þó viljum við mörg trúa því að sumar hugmyndir séu algildar, eins og til dæmis hugmyndin um mannréttindi.

 

Kjarnann í verkinu er að mínu mati að finna í löngu og gáfulegu samtali milli Rúriks og Lárusar, eða Dudars og Bérengers. Þetta samtal leiðir hugann að stöðunni í heimsmálunum um þessar mundir. Við sem í dag viljum standa fyrir húmanískt, fjölþjóðlegt og fjölmenningarlegt samfélag sem virðir mannréttindi, er umburðarlynt og miskunnsamt, og við getum kallað hina upplýstu Evrópu, horfum upp á það hvernig okkar heimur og okkar sýn stendur frammi fyrir árásum ólíkra „nashyrninga“, sem oft beita ofbeldi í baráttu sinni gegn þeim gildum sem við viljum verja. Og þá þurfum við að horfast í augu við hversu erfitt við eigum með að verja umburðarlyndi okkar af þeirri hörku sem ef til vill er nauðsynleg. Við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu, eins og Dudard og Bérenger, hvernig við eigum að verja okkar umburðarlynda húmanisma. Við erum á ákveðinn hátt varnarlaus, einmitt vegna þess að við viljum skilja allt og umbera allt.

Þarna virðist mér stóra spurningin sem höfundurinn ber fram í leikritinu liggja. Bérenger talar um að hann viti af innsæi sínu að nashyrningarnir hafi rangt fyrir sér, þó svo hann sé ekki hámenntaður eins og sumir þeirra, og fullyrðir að við verðum að treysta ákveðinni grunntilfinningu okkar, réttlætiskenndinni, til að meta hvað sé rétt og rangt. En hvernig getum við verið viss um að slík tilfinning eigi rétt á sér og vísi okkur réttan veg?

Í sýningunni erum við með afgerandi hætti minnt á að við erum stödd í leikhúsi. Leikhúsið sjálft og starfsfólk þess eru hluti af heimi sýningarinnar.

Þessar hugmyndir tengjast „konsepti“ eða grunnhugmynd sýningarinnar um samkomulag. Í leikhúsinu þurfum við alltaf að gera samkomulag við áhorfendur, og það verður í raun til á fyrstu andartökum hverrar sýningar. En svo getum við endurnýjað samkomulagið á leiðinni og breytt því, ef við gerum það á réttan hátt. Við getum afbyggt samkomulagið og byggt upp nýtt samkomulag. Í rauninni er ég í þessari sýningu að leggja upp með eitthvað sem gæti virkað tilgerðarlegt og sjálfhverft, en ég reyni að botna þessa hugmynd í lok sýningarinnar.

Persónurnar í sýningunni bera nöfn leikara úr sýningu Þjóðleikhússins á Nashyrningunum frá 1961, í stað upphaflegu nafnanna í leikritinu, hvers vegna?

Það væri æpandi skrýtið í samhenginu að nota framandleg, frönsk nöfn eins og Bérenger, Dudard og Daisy, þegar við getum alveg eins kallað persónurnar Jón og Gunnu. Í stað þess að nota einhver nöfn út í bláinn byrjuðum við á því að nota nöfn leikaranna sjálfra, en okkur þótti það kannski einum of og völdum því nöfn leikaranna í frumuppfærslu verksins á Íslandi. Það tengir okkur um leið þeim tíma sem verkið var skrifað á – því að merkilegt nokk var sýning Þjóðleikhússins sett upp strax næsta leikár eftir að verkið var frumflutt í Evrópu.

Í verkinu fyrirfinnast ýmsar gamaldags hugmyndir og ég hef svolítið gaman af því að setja upp leikrit með gamaldags hugmyndum, því að það vekur okkur til umhugsunar, ekki síður en þegar verk tala til samtímans með augljósum hætti. Kynhyggjan, sú hugmyndafræði sem réttlætir kynbundinn mismun, er rosalega æpandi og augljós í þessu verki. Mér virðist það vera bæði ómeðvitað og meðvitað frá hendi höfundar. Hann dregur til dæmis upp mynd af stöðu konu í karllægu samfélagi, sem verður fyrir áreitni á vinnustað, og vekur þannig athygli á ójafnri stöðu kynjanna. En um leið virðast manni hugmyndir höfundar um konur vera gamaldags, sem sést bæði af leiklýsingum og þegar hlutverk kvennanna í verkinu eru skoðuð. Við hefðum auðvitað getað farið þá leið í sýningunni að breyta karlhlutverkum í kvenhlutverk til að rétta af kynjahallann og valdajafnvægið á milli persóna, eins og oft er gert í dag, en mér fannst áhugavert að gera það ekki, nema að litlu leyti, og leyfa áhorfendum að lesa í aðstæðurnar og máta þær við okkar tíma.

Eugène Ionesco

Fransk-rúmenska leikskáldið Eugène Ionesco (1909-1994) er meðal þekktustu og áhrifamestu leikritahöfunda tuttugustu aldarinnar. Með einþáttungi sínum Sköllóttu söngkonunni, sem var frumfluttur árið 1950, innleiddi hann nýja tegund leikritunar sem gjarnan er nefnd absúrdleikhúsið eða leikhús fáránleikans. Ásamt Sköllóttu söngkonununni eru þekktustu leikrit hans Stólarnir og Nashyrningarnir.

Ionesco samdi fjölda leikrita, bæði einþáttunga og leikrit í fullri lengd, en hann sendi einnig frá sér skáldsögu, nóvellur, sjálfsævisöguleg verk og ritgerðir af ýmsu tagi, meðal annars um listir og stjórnmál. Hann tók þátt í stjórnmálaumræðu samtímans og var meðal annars hatrammur andstæðingur kommúnistastjórnarinnar í heimalandi sínu, Rúmeníu. Undir lok ævinnar sneri hann sér að myndlist.

Ionesco öðlaðist skjótt alþjóðlega frægð og verk hans nutu í senn vinsælda og viðurkenningar. Hann hlaut fjölda verðlauna fyrir ritstörf sín, jafnt í Frakklandi sem á alþjóðlegum vettvangi. Má þar nefna leiklistarverðlaun franska rithöfundasambandsins árið 1966, Evrópsku bókmenntaverðlaunin árið 1970, Jérusalem-verðlaunin fyrir höfundarverk sitt og Nashyrningana sérstaklega árið 1973, Max Reinhardt-verðlaunin á Salzborgarhátíðinni árið 1976 og T.S. Eliot-Ingersoll-verðlaunin í Chicago árið 1985. Hann var valinn í hina virtu Frönsku akademíu árið 1970 og sæmdur stórkrossi frönsku heiðursfylkingarinnar árið 1984.

Nafngiftin absúrdleikhúsið er upprunnin frá leikhúsfræðingnum Martin Esslin, sem sendi árið 1962 frá sér samnefnda bók og notaði heitið yfir verk eftir leikskáldin Ionesco, Samuel Beckett, Jean Genet og Arthur Adamov. Ionesco felldi sig ekki alls kostar við þessa nafngift og sagði að verk sín gætu fremur talist furðuleg eða einkennileg en absúrd eða fáránleg. Hann var sjálfur mjög hrifinn af dadaistunum og súrrealistunum og var vinur og aðdáandi súrrealistans André Breton.

Leikrit Ionescos eru öðrum þræði heimspekileg. Þau fjalla um hið harmræna merkingarleysi mannlegrar tilveru, hið vélræna eðli nútímamenningarinnar, einsemd og einangrun mannsins, og takmarkanir tungumálsins og mannlegra samskipta. Ionesco kallaði leikrit sín harmræna gamanleiki og mörg þeirra þykja ákaflega fyndin, þótt angist búi undir niðri. Ionesco dregur gjarnan upp myndir af hversdagslegum samskiptum venjulegs millistéttarfólks, en með því að hnika ýmsu til, stækka ákveðna þætti mannlegrar hegðunar og setja hlutina fram með ýktum hætti fer hið hversdaglega að virka furðulegt og aðstæður og gjörðir persónanna verða absúrd. Ionesco sýnir fram á innihaldsleysi viðtekinna hugmynda og siðvenja og afjúpar klisjur og yfirborðsmennsku þannig að áhrifin verða kómísk og tragísk í senn.

Nýbreytnin í leikritum Ionescos varðar jafnt form sem innihald. Hann bregður á leik með tungumálið, endurtekningar og myndræna þætti. Hann kallaði fyrstu verk sín „and-leikrit“ en í þeim voru hefðir hins raunsæislega leikhúss varðandi persónusköpun, sálfræðilegar forsendur persóna, rökleg samtöl, byggingu og söguþráð brotnar upp.

Á höfundarferli Ionescos varð ákveðin þróun í leikritun hans og með hæfilegri einföldun má segja að í síðari verkum sínum hafi höfundur fært sig meira inn á svið undirmeðvitundarinnar og verkin orðið draumkenndari. Einnig má segja að í lengri leikritum sínum skapi höfundur raunsæislegri persónur en í einþáttungunum.

Ionesco 1909-1994

1909 Ionesco fæðist í Slatina í Rúmeníu, en nafn hans var upphaflega Eugen Ionescu. Faðir hans er rúmenskur og móðir hans af frönskum ættum.

1911 Fjölskyldan flytur til Parísar.

1916 Rúmenía hefur þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni og faðir Ionescos snýr aftur til heimalandsins til að ganga í herinn. Ekkert spyrst til hans í fjögur ár og fjölskyldan telur að hann sé látinn.

1920 Ionesco kemst að því að faðir hans er á lífi en hefur skilið við móður hans, án hennar vitundar, fengið forræði yfir börnunum og er kvæntur annarri konu.

1922 Ionesco flytur til föður síns í Rúmeníu.

1926 Ionesco flytur á heimili móður sinnar í Rúmeníu eftir harkalegar deilur við föður sinn, en viðhorf þeirra feðga jafnt til þjóðmála sem fjölskyldulífs voru afar ólík.

1935 Ionesco skrifar reglulega bókmenntagagnrýni í rúmönsk blöð og tímarit.

1936 Ionesco kvænist Rodica Burileanu.

1938 Ionesco heldur til Frakklands til að ljúka doktorsritgerð um synd og dauða í franskri ljóðlist.

1939 Ionesco sest að í Rúmeníu ásamt eiginkonu sinni og verður vitni að því hvernig sumir landar hans og vinir taka að aðhyllast nasisma.

1945 Ionesco flytur til Parísar og er búsettur þar til æviloka. Í fyrstu starfar hann sem prófarkalesari hjá stóru útgáfufyrirtæki, líkt og aðalpersónan í Nashyrningunum.

1950 Fyrsta leikrit Ionescos, hinn framúrstefnulegi einþáttungur Sköllótta söngkonan (La Cantatrice chauve), er frumflutt í Frakklandi, en höfundur skrifaði verkið tveimur árum áður. Ionesco hafði ákveðið að læra ensku á fullorðinsárum og leikritið er innblásið af námsefninu, en hin formlegu, merkingarsnauðu og órökréttu samskipti persónanna um hversdagslegustu hluti verða í senn framandleg og bráðfyndin. Verkið vakti mikla athygli meðal gagnrýnenda og bókmenntafólks, þótt það næði ekki strax hylli áhorfenda, en óhætt er að segja að það hafi markað þáttaskil í samtímaleikritun. Áhugi á verkum Ionescos vaknaði víða í kjölfarið, jafnt innan Frakklands sem utan.

1950 Ionesco hlýtur franskan ríkisborgararétt.

1951 Einþáttungur Ionescos Kennslustundin (La Leçon) er frumfluttur. Í því verki heldur höfundur áfram að vinna á nýstárlegan hátt með tungumálið, og vald persónanna yfir orðræðunni er eitt meginviðfangsefnið.

1952 Einn af þekktustu einþáttungum Ionescos, Stólarnir (Les Chaises), er frumfluttur. Hér gengur höfundur enn lengra í rannsókn sinni á takmörkum tungumálsins og vinnur meðal annars með hrynjandi, endurtekningar og áhrif rýmisins á persónurnar, en leikmynd og leikmunir gegna óvenjulegu hlutverki í þessu verki.

1957 Sköllótta söngkonan og Kennslustundin eru sett upp að nýju í Théâtre de la Huchette í París og hafa verkin verið sýnd þar allar götur síðan.

1959 Ionesco skrifar Nashyrningana (Rhinocéros). Í verkinu þróar höfundur áfram hugmynd sem hann hafði gert skil í samnefndri nóvellu. Verkið var frumflutt í þýskri þýðingu í nóvember í Schauspielhaus í Düsseldorf og var því afar vel tekið. Í janúar árið eftir var verkið leikið í París í Odéon-Théâtre og fékk einnig þar mjög góðar viðtökur. Strax í apríl sama ár var verkið frumsýnt í Royal Court leikhúsinu í London í leikstjórn Orson Welles með Laurence Olivier í aðalhlutverki. Kynslóðir sem höfðu upplifað ógnir nasismans og kommúnismans túlkuðu verkið sem beina ádeilu á slíkar alræðisstefnur. Ýmsir hafa lesið úr verkinu mun víðari merkingu, og skilið það sem atlögu gegn hvers kyns kreddufestu, ofstæki, öfgahyggju, múgsefjun og blindri fylgispekt við ríkjandi hugmyndir og valdhafa.

1962 Eitt af þekktustu verkum Ionescos, Konungurinn deyr (Le roi se meurt), er frumflutt.

1964 Nashyrningarnir eru sýndir í fyrsta sinn í Rúmeníu.

1970 Ionesco er valinn í Frönsku akademíuna.

1973 Skáldsaga Ionescos Le Solitaire kemur út.

1975 Ionesco skrifar sitt síðasta leikrit, L’Homme aux valises.

1994 Ionesco deyr og er grafinn í Montparnasse kirkjugarðinum í París.

Ionesco á Íslandi

Nashyrningarnir voru fyrst sýndir í Þjóðleikhúsinu árið 1961 í þýðingu Ernu Geirdal. Leikstjóri var Benedikt Árnason. Leikarar voru Lárus Pálsson (Bérenger), Róbert Arnfinnsson (Jón), Herdís Þorvaldsdóttir (Daisy), Rúrik Haraldsson (Dudard), Baldvin Halldórsson (rökfræðingurinn), Helga Löve (framreiðslustúlkan og frú herra Jóns), Emelía Jónasdóttir (frú Buff), Bessi Bjarnason (kaupmaðurinn), Guðbjörg Þorbjarnardóttir (kaupmannsfrúin), Haraldur Björnsson (Bosard), Inga Þórðardóttir (frúin), Jóhann Pálsson (herra Jón), Jón Aðils (gamli herrann), Sævar Helgason (slökkviliðsmaður), Valur Gíslason (Papillon) og Ævar R. Kvaran (kaffihúsaeigandinn).

Ýmis áhugaleikfélög hafa einnig sýnt Nashyrningana, meðal annars Leikfélag MH árið 1989 í leikstjórn Andrésar Sigurvinssonar. Þá fór Benedikt Erlingsson sem leikstýrir sýningu Þjóðleikhússins nú með hlutverkið sem Hilmir Snær Guðnason leikur.

Meðal sýninga á verkum Ionescos á Íslandi eru Stólarnir (2004) hjá Leikfélagi Akureyrar, Góð til að giftast (1990) og Sköllótta söngkonan (1965) í Þjóðleikhúsinu, Sköllótta söngkonan (1988) í Nemendaleikhúsi Leiklistarskóla Íslands, Jakob eða uppeldið (1967) hjá Grímu og Kennslustundin (1960) og Stólarnir (1960) hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Einnig hafa leikrit eftir Ionesco verið flutt í Ríkisútvarpinu og sett upp af áhugaleikfélögum.

Ljósmyndin sýnir Lárus Pálsson í hlutverki Bérengers í Nashyrningunum í Þjóðleikhúsinu árið 1961.

Myndbönd

Nashyrningarnir
Leikstjóri segir frá #1
Gói segir frá
Ilmur segir frá

AÐVÖRUN FYRIR VIÐKVÆMA

Vinsamlega athugið að í sýningunni er lifandi köttur.

Mögnuð sýning sem þú mátt ekki missa af
Mögnuð sýning sem þú mátt ekki missa af
Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími