14. Júl. 2020

Benedikt Erlingsson setur upp Nashyrningana eftir Ionesco

Benedikt Erlingsson mun leikstýra jólasýningu Þjóðleikhússins, Nashyrningunum eftir Ionesco. Nashyrningarnir eru eitt frægasta verk hins heimsþekkta fransk-rúmanska leikskálds Ionescos.

Benedikt-Erlingsson-Lebruman-2018

Verkið fór eins og eldur í sinu um leikhús í Evrópu eftir að það var frumflutt árið 1959, og var leikið í Þjóðleikhúsinu strax árið 1961. Síðan þá hefur verkið veriðsett upp reglulega víða um heim og er löngu orðið sígilt. Áhorfendum verður nú boðið upp á nýja, ferska og fjöruga útfærslu Benedikts Erlingssonar og leikhópsins á þessu spennandi leikriti. Eins og venja er frumsýnir Þjóðleikhúsið á annan í jólum, 26. desember.

Hversdagslegt lífið í litlum bæ umturnast þegar íbúarnir taka að breytast í nashyrninga, hver aföðrum. Hlédrægi skrifstofumaðurinn Bérenger er hjartahlýr og góðviljaður náungi, en er gagnrýnduraf vinnufélögunum fyrir óstundvísi, svallsemi og frjálslegt líferni. Hvers vegna er það einmitt hann sem reynist vera sá eini sem spyrnir við fótum og vill ekki glata mennskunni?

Benedikt Erlingsson hefur á undanförnum árum sett upp margar einstaklega eftirminnilegar sýningar og hlotið ótal verðlaun fyrir verk sín. Meðal ástsælla sýninga sem hann hefur staðið að eru Ormstunga, Jeppi á fjalli, Íslandsklukkan, Húsið, Súper og Jesú litli. Auk þess sem hann hefur rækilega stimplað sig inn sem kvikmyndaleikstjóri. Eftir hann liggja myndir eins og Hross í oss og Kona fer í stríð sem bera höfundareinkennum hans glöggt merki.

„Á leiksviðinu sem stundum hefur verið kallað vígvöllur hugmynda og hugsjóna setjum við upp leikrit um hvernig litil hugmynd verður að stórri hugmynd sem umbreytir heilu samfélagi. Hvernig jaðarhugmynd smitast sem vírus og verður að lokum að megin hugsjón heillar þjóðar. Eitthvað sem i raun og veru er alltaf að gerast á hverjum degi. Alls staðar.” segir Benedikt Erlingsson.

Nánar um aðstandendur verksins:
Leikstjórn: Benedikt Erlingsson. Þýðing: Guðrún Vilmundardóttir. Leikmynd: Börkur Jónsson.Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist og tónlistarflutningur:Davíð Þór Jónsson.

Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Björn Thors, Arnmundur Ernst Backman, Edda Arnljótsdóttir, Hildur Vala Baldursdóttir, Pálmi Gestsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Örn Árnason og fleiri.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími