09. Júl. 2020

Ágústa Skúladóttir leikstýrir einstaklega fjörugri uppsetningu á Kardemommubænum

Frumsýningu á þessu ástsæla leikriti Thorbjörns Egners hefur verið frestað tvisvar vegna aðstæðna í samfélaginu, en nú treystum við á að það fari að styttast í að tjöldin verði dregin frá og þyrstir leikhúsgestir á öllum aldri fái að sjá dýrðina!

Ágústa Skúladóttir, leikstýrir Kardemommubænum

Ágústa Skúladóttir hefur staðið í ströngu sem leikstjóri Kardemommubæjarins en verkið bíður frumsýningar í Þjóðleikhúsinu. Tvisvar hefur þurft að fresta frumsýningu en það slær leikstjórann ekki út af laginu. Ágústa hefur tekist á við fjölda leikstjórnarverkefna og vakið mikla athygli fyrir stórkostlegar barna- og fjölskyldusýningar, sem og hugmyndaríkar og skemmtilegar sýningar fyrir fullorðna. Alls hafa tólf sýningar undir hennar stjórn fengið Grímutilnefningar sem barnasýningar ársins og fjórar þeirra hafa hampað Grímu. Nú styttist í að sjálfur Kardemommubærinn og kostulegir íbúar hans leiki lausum hala á Stóra sviði Þjóðleikhússins.

„Það hefur verið mikil áskorun að æfa svona stóra og mannmarga leiksýningu við núverandi aðstæður. Við vorum komin vel af stað með æfingar áður en samkomubann var sett á í vor. Ofan á þann grunn höfum við svo unnið áfram í smærri hópum, eftir föngum, og sjáum nú loksins fram á að geta æft sýninguna með öllum leikhópnum. Þá getum við lagt lokahönd á þessa glæsilegu sýningu og við hlökkum gríðarlega til að geta loksins sýnt áhorfendum útkomuna.“

Aðspurð hvort að nýjunga megi vænta í uppsetningunni segir Ágústa að allar kynslóðir eigi sína eigin mynd af því hvernig Kardemommubærinn eigi að vera, byggða á fyrstu upplifun sinni af að sjá verkið á sviði, og sumir vilji alls ekki að farnar séu nýjar leiðir í sviðsetningu á verkinu. „En við megum ekki gleyma því að núna er að vaxa úr grasi kynslóð sem mun horfa til þessarar uppsetningar sem hinnar einu réttu“, segir Ágústa hlæjandi. „Við höfum lagt okkur fram um að vera trú þessu fallega leikriti, en við leyfum okkur líka að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn og brydda upp á nýjungum, – og þó er allt gert í anda Egners! Í sýningunni gætir ýmissa suðrænna áhrifa í bæði tónlist, leikmynd og búningum, en þar lítum við til þess að Egner fékk margar af hugmyndunum að verkinu þegar hann var á ferð við Miðjarðarhafið, og hann var meðal annars innblásinn af ýmsu sem hann sá í Marokkó og Ítalíu. Ég er svo heppin að það eru eintómir snillingar að vinna með mér, og öll sýningin mun sannarlega bera þess merki; í lýsingu, tónlist, búningum, leik, dans og leikmynd. Við getum lofað ykkur því að sýningin verður sannkölluð veisla fyrir augu og eyru!“

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími