14. Júl. 2020

Gísli Örn Garðarsson setur upp Jólaboðið í Þjóðleikhúsinu

Gísli Örn Garðarsson skrifar og leikstýrir nýju verki sem verður sett upp í Kassanum í Þjóðleikhúsinu næsta haust. Verkið er saga einnar fjölskyldu í heila öld en endurspeglar í raun sögu heillar þjóðar. Leikverkið byggir á sígildu verki Thornton Wilder, The long christmas dinner, sem notið hefur mikillar hylli víða um heim en hefur enn ekki verið sýnt í atvinnuleikhúsi á Íslandi.

Sagan hefst árið 1916. Konur hafa nýverið fengið kosningarétt á Íslandi. Bruninn mikli í Reykjavík er nýafstaðinn og fyrri heimstyrjöldin geisar. En í okkar sögu er fjölskylda í óða önn að undirbúa fyrstu jólamáltíðina í nýbyggðu húsi við Skothúsveg.

Við fylgjum fjölskyldunni gegnum umrót síðustu hundrað ára og fram til dagsins í dag; seinni heimsstyrjöldin, stofnun lýðveldisins, þorskastríð við Breta, hippatímabilið, kosning fyrsta kvenforseta þjóðarinnar, breytingar í sjávarútvegi… Fjölskyldan kemur saman hver jól og reynir eftir fremsta megni að halda í hefðirnar. En hin óhjákvæmilega framrás tímans setur hlutina úr skorðum, vekur nýjar spurningar, skapar nýjar átakalínur. Og við áhorfendur fáum að sjá fyndnu, grátbroslegu og fáránlegu hliðarnar á öllu vafstrinu og bjástrinu.

Saga fjölskyldunnar á Skothúsvegi verður Íslandssagan í smækkaðri mynd. Saga þar sem öllu er ætlað að ganga upp, alltaf, hvert ár, hver jól – sama hvað tautar og raular!

Gísli Örn hefur notið mikillar velgengni með fjölmargar sýningar hér heima og erlendis. Hann er forsprakki Vesturports sem er sá íslenski leikhópur sem hefur notið mestrar hylli á erlendri grundu. Verk leikhópsins hafa ratað í leikhús og hátíðir um allan heim. Vesturport hlaut Evrópsku leiklistarverðlaunin árið 2016. Meðal uppsetninga Vesturports í samstarfi við Borgarleikhúsið eru Rómeó og Júlía, Woyzeck, Faust, Húsmóðirin og Bastarðar. Meðal annarra uppsetninga Vesturports eru Hamskiptin og Í hjarta Hróa Hattar sem sett var upp hér á landi í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Gísli er einnig leikstjóri og annar höfunda leiksýningarinnar Ellý sem notið hefur gríðarlegra vinsælda í Borgarleikhúsinu. Því er fagnað að Gísli gangi nú til liðs við Þjóðleikhúsið á nýjan leik.

Handrit og leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Tónlist: Salka Sól Eyfeld. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson.

Leikarar: Baldur Trausti Hreinsson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Eggert Þorleifsson, Guðjón Davíð Karlsson, Gunnar Smári Jóhannesson, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir.

Frumsýning í Kassanum 6. nóvember.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími