/
Höfundastarf

Íslensk leikritun og höfundastarf

 

Þjóðleikhúsið stendur fyrir öflugu höfundastarfi með það að markmiði að efla íslenska leikritun. Við tökum til skoðunar hugmyndir og handrit á öllum vinnslustigum og vinnum markvisst með leikskáldum frá fyrstu hugmynd til fullbúinna verka.

Sögurnar okkar

 

Ýmsar nýjungar varðandi íslenska leikritun verða í Þjóðleikhúsinu á leikárinu 2020-2021. Hádegisleikhús hefur göngu sína í Kjallaranum en þar verða sýndir fjórir splunkunýir einþáttungar sem valdir voru úr 247 nýjum innsendum verkum. Höfundar einþáttunganna eru Bjarni Jónsson, Hildur Selma Sigbertsdóttir, Jón Gnarr og Sóveig Eir Stewart. Þrjú önnur verk voru valin til áframhaldandi vinnslu með sýningar á leikárinu 2021-2022 að markmiði. Þjóðleikhúsið hefur útgáfu á úrvali nýrra íslenskra leikverka og þýðinga í samstarfi við Þorvald Kristinsson bókmenntafræðing og útgefanda. Fyrstu bækurnar sem koma út verða Nashyrningarnir eftir Ionesco í nýrri þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur og nýtt verk eftir Tyrfing Tyrfingsson, Sjö ævintýri um skömm.

Auk hins nýja leikrits Tyrfings verða fjölmörg önnur íslensk verk á fjölunum á leikárinu, meðal annars Ásta eftir Ólaf Egil Egilsson, byggt á lífi og list Ástu Sigurðardóttur, Vertu úlfur, eftir Unni Ösp Stefánsdóttur innblásið af bók Héðins Unnsteinssonar, Kópavogskrónika, byggt á skáldsögu Kamillu Einarsdóttur, eftir Ilmi Kristjánsdóttur og Silju Hauksdóttur, nýtt barnaleikrit, Kafbátur, eftir Gunnar Eiríksson og unglingaleikritið Vloggið eftir Matthías Tryggva Haraldsson. Einnig mun í nýju tilraunarými, Loftinu, fara fram ýmiss konar nýsköpun, tilraunastarfsemi og höfundastarf.

Þjóðleikhúsið kallar eftir leikritum

Á síðasta leikári kölluðum við eftir barnaleikritum og þá bárust hvorki fleiri né færri en 150 ný íslensk barnaleikrit. Þjóðleikhúsið keypti sýningarréttinn að tveimur þessara verka og sex önnur voru valin til áframhaldandi vinnslu og skoðunar. Einnig var kallað eftir nýjum íslenskum verkum til flutnings í Hádegisleikhúsinu og bárust 247 ný íslensk verk. Fjögur þeirra voru valin til sýninga á þessu leikári. Þjóðleikhúsið hefur nú kallað eftir leikritum í fullri lengd, sjá nánar auglýsingu hér.

Nýtt íslenskt verk á fjölum Þjóðleikhússins

 

Aðdragandi þess að nýtt íslenskt verk er tekið til sýninga í Þjóðleikhúsinu getur verið með ólíku móti:

*Leikhúsið kaupir tilbúið verk af höfundi.

*Leikhúsið ræður höfund til að skrifa fyrir leikhúsið, “verk í smíðum”

Höfundur vinnur þá í samvinnu við leikhúsið að þróun leikverks út frá hugmynd og handritsdrögum sem hann hefur lagt fram. Sjá nánar í samningi Þjóðleikhússins og Rithöfundasambands Íslands.

Skil á hugmynd eða handriti

 

Höfundar eru hvattir til að senda leikhúsinu hugmynd, drög eða fullskrifuð verk til lestrar.

Hugmynd/handritsdrögum skal fylgja:

*Handrit eða eitt eða fleiri atriði úr verkinu.

*Stutt lýsing á verkinu (1-2 bls.), þar sem fram kemur persónufjöldi, atburðarás og ætlunarverk höfundar.

*Ferilskrá.

Handrit, hugmyndir eða drög skulu send á netfangið
LEIKRITUN@LEIKHUSID.IS

Leikhúsið sendir staðfestingu á móttöku handrits, og svarar höfundi innan fjögurra mánaða í samræmi við samning Þjóðleikhússins og RSÍ.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins verður opin á nýjan leik eftir sumarleyfi þann 19. ágúst.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími