
Íslensk leikritun og höfundastarf
Þjóðleikhúsið leggur ríka áherslu á að efla íslenska leikritun og styðja við hana með ráðum og dáð. Á leikárinu 2022-23 frumsýnum við fjölbreytt, ný íslensk leikverk á öllum leiksviðum okkar, og vinsælar og margverðlaunaðar sýningar eftir íslenska höfunda frá fyrri leikárum rata aftur á svið. Þjóðleikhúsið tekur handrit og hugmyndir að leikritum á ólíkum vinnslustigum til skoðunar (leikritun@leikhusid.is) og dramatúrgar Þjóðleikhússins vinna náið með höfundum og fylgja leikritum eftir frá fyrstu hugmynd til fullbúinna listaverka.
Kallað eftir leikritum
Þjóðleikhúsið hefur á undanförnum þremur árum kallað reglulega eftir leikritum af tilteknu tagi, m.a. verkum sem varða fjölbreytileika samfélagsins, barnaleikritum, hádegisleikritum og leikritum eftir kvenleikskáld og leikskáld af erlendum uppruna. Nokkur leikrit sem bárust hafa þegar ratað á svið og enn önnur eru nú í þróun á vegum leikhússins.
Útgáfa
Ný ritröð Þjóðleikhússins í samstarfi við Þorvald Kristinsson ritstjóra hefur að markmiði að vekja athygli á íslenskri samtímaleikritun og varðveita íslensk verk og nýjar þýðingar á erlendum öndvegisverkum til framtíðar. Fyrsta bókin í ritröðinni er Grímuverðlaunaverkið Sjö ævintýri um skömm eftir Tyrfing Tyrfingsson.
Bókabúð
Í nýrri leikhúsbókabúð í forsalnum er að finna úrval spennandi bóka um leiklist.

Sögurnar okkar
Á leikárinu 2022-23 frumsýnum við í Kassanum splunkunýtt leikrit, Nokkur augnablik um nótt, sem er frumraun hins efnilega höfundar Adolfs Smára Unnarssonar í Þjóðleikhúsinu. Þá verður verðlaunaverkið Sjö ævintýri um skömm eftir Tyrfing Tyrfingsson sýnt áfram á Stóra sviðinu en verkið hlaut Grímuverðlaunin sem leikrit ársins í vor, og sýningin hlaut alls sex Grímur. Hin margverðlaunaða sýning Vertu úlfur, eftir Unni Ösp Stefánsdóttur, hefur nú sitt þriðja leikár á Stóra sviðinu.
Prinsinn eftir Maríu Reyndal og Kára Viðarsson verður sýnt í Þjóðleikhúsinu eftir leikferð um landið. Góðan daginn, faggi eftir Bjarna Snæbjörnsson og Grétu Kristínu Ómarsdóttur, sem hlaut tvær Grímutilnefningar í vor heldur í leikferð í vetur. Eyja eftir Sóleyju Ómarsdóttur og Ástbjörgu Rut Jónsdóttur verður frumsýnd á Litla sviðinu, en hún er flutt á tveimur tungumálum, íslensku og íslensku táknmáli. Til hamingju með að vera mannleg er nýtt verk eftir Siggu Soffíu þar sem ólíkar listgreinar mætast. Nýtt, frumsamið efni verður jafnframt áberandi á verkefnaskrá Kjallarans, og þrjú íslensk hádegisleikrit sem skrifuð voru sérstaklega fyrir Þjóðleikhúsið verða þar á fjölunum.
Sýnd verða þrjú íslensk verk sem Þjóðleikhúsið hefur látið skrifa fyrir börn, Umskiptingur eftir Sigrúnu Eldjárn sem hlaut tilnefningu til Grímunnar sem barnasýning ársins í vor, Lára og Ljónsi-jólasaga eftir Birgittu Haukdal og Góa og stórsýningin Draumaþjófurinn eftir Gunnar Helgason og Björku Jakobsdóttur.

Nýtt íslenskt verk á fjölum Þjóðleikhússins
Aðdragandi þess að nýtt íslenskt verk er tekið til sýninga í Þjóðleikhúsinu getur verið með ólíku móti:
*Leikhúsið kaupir tilbúið verk af höfundi.
*Leikhúsið ræður höfund til að skrifa fyrir leikhúsið, “verk í smíðum”
Höfundur vinnur þá í samvinnu við leikhúsið að þróun leikverks út frá hugmynd og handritsdrögum sem hann hefur lagt fram. Sjá nánar í samningi Þjóðleikhússins og Rithöfundasambands Íslands.

Skil á hugmynd eða handriti
Höfundar eru hvattir til að senda leikhúsinu hugmynd, drög eða fullskrifuð verk til lestrar.
Hugmynd/handritsdrögum skal fylgja:
*Handrit eða eitt eða fleiri atriði úr verkinu.
*Stutt lýsing á verkinu (1-2 bls.), þar sem fram kemur persónufjöldi, atburðarás og ætlunarverk höfundar.
*Ferilskrá.
Handrit, hugmyndir eða drög skulu send á netfangið
LEIKRITUN@LEIKHUSID.IS
Leikhúsið sendir staðfestingu á móttöku handrits, og svarar höfundi innan fjögurra mánaða í samræmi við samning Þjóðleikhússins og RSÍ.
