/
Höfundastarf

Íslensk leikritun og höfundastarf

Þjóðleikhúsið leggur mikla áherslu á að efla íslenska leikritun og styður höfunda á öllum aldri og með ólíkan bakgrunn. Við tökum handrit og hugmyndir að leikritum á ólíkum vinnslustigum til skoðunar og köllum reglulega eftir leikritum af ólíku tagi. Nú eru í þróun mörg verk eftir ólíka höfunda, s.s. Kristínu Eiríksdóttur, Tyrfing Tyrfingsson, Odd Júlíusson og fleiri. Leikhúsið er einnig með í þróun nýjan söngleik eftir Hafstein Níelsson og Óliver Þorsteinsson sem ber heitið Ormstunga. Fjölmörg íslensk verk af ólíku tagi verða sýnd á öllum leiksviðum okkar á leikárinu, fyrir áhorfendur á öllum aldri.

Lukka

Síðastliðin tvö ár hefur hópur listamanna unnið að þróun nýs verks, Lukku, í Þjóðleikhúsinu. Hópurinn hefur aflað heimilda, gert listrænar tilraunir og samanburðarrannsóknir og skoðað líkurnar á því að eiga gott líf sem litaður Íslendingur. Í sýningunni birtast okkur ótrúlegar og óþægilega algengar sögur og frásagnir. Verkið er eftir Davíð Þór Katrínarson, Jónmund Grétarsson, Unnstein Manuel Stefánsson og Grétu Kristínu Ómarsdóttur, en hún leikstýrir jafnframt sýningunni sem frumsýnd verður á leikárinu 2025-2026.

Kallað eftir leikritum
Þjóðleikhúsið hefur á undanförnum árum kallað reglulega eftir leikritum af tilteknu tagi, m.a. verkum sem varða fjölbreytileika samfélagsins, barnaleikritum, hádegisleikritum og leikritum eftir kvenleikskáld og leikskáld af erlendum uppruna. Nokkur leikrit sem bárust hafa þegar ratað á svið og enn önnur eru nú í þróun á vegum leikhússins.

Vinnustofa höfunda
Valdir höfundar sem vakið hafa áhuga Þjóðleikhússins fá boð um vinnuaðstöðu við húsið í afmarkaðan tíma, einn eða tvo mánuði í senn. Meðan á dvöl þeirra stendur býðst höfundum samtal við dramatúrga og annað listafólk hússins.

Bókabúð
Í leikhúsbókabúð í forsalnum er að finna úrval spennandi bóka um leiklist og aðrar sem tengjast sýningum hússins með einum eða öðrum hætti.

Guli dregillinn

Þjóðleikhúsið kynnir með stolti nýja leikritahátíð þar sem við fögnum íslenskri leikritun og skáldunum sem skrifa fyrir sviðið. Þrjú kvöld í röð flytjum við ný íslensk leikrit eftir höfunda sem segja hrífandi sögur og eiga mikilvægt erindi við leiksviðið.

NÁNAR

Nýtt íslenskt verk á fjölum Þjóðleikhússins

Þjóðleikhúsið tekur reglulega á móti fjölda hugmynda og handrita á ólíkum vinnslustigum. Veki innsend hugmynd áhuga leikhússins er höfundum gjarnan boðið samtal við dramatúrga hússins. Í framhaldi af því er verkið tekið til nánari skoðunar.

Aðdragandi þess að nýtt íslenskt verk er tekið til sýninga í Þjóðleikhúsinu getur verið með ólíku móti. Leikhúsið kaupir tilbúið verk af höfundi eða ræður höfund til að skrifa fyrir leikhúsið „verk í smíðum.“

Höfundur vinnur þá í samvinnu við leikhúsið að þróun leikverks út frá hugmynd og handritsdrögum sem hann hefur lagt fram. Sjá nánar í samningi Þjóðleikhússins og Rithöfundasambands Íslands.

Skil á hugmynd eða handriti
Höfundar eru hvattir til að senda leikhúsinu hugmynd, drög eða fullskrifuð verk til lestrar.

Hugmynd eða handritsdrögum skal fylgja handrit eða eitt eða fleiri atriði úr verkinu, ásamt stuttri lýsingu og ferilskrá. Gott er að lýsing á verkinu sé hnitmiðuð en að fram komi persónufjöldi, atburðarás og ætlunarverk höfundar.

Handrit, hugmyndir eða drög skulu send á netfangið
LEIKRITUN@LEIKHUSID.IS

Leikhúsið sendir staðfestingu á móttöku handrits, og svarar höfundi innan fjögurra mánaða í samræmi við samning Þjóðleikhússins og RSÍ.

Verkefnavalsnefnd

Verkefnavalsnefnd starfar við Þjóðleikhúsið, ásamt listrænni yfirstjórn hússins, en hlutverk hennar er að taka þátt í að finna og meta verkefni fyrir leikhúsið. Verkefnavalsnefnd tekur á hverju ári fjölda innlendra og erlendra leikrita og hugmynda að verkefnum til skoðunar. Auk nefndarinnar koma ýmsir aðilar að verkefnavali fyrir leikhúsið, listrænir stjórnendur og annað starfsfólk leikhússins og álitsgjafar utan hússins.

Listræn yfirstjórn: Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri, Matthías Tryggvi Haraldsson listrænn ráðunautur og Melkorka Tekla Ólafsdóttir leiklistarráðunautur.

Fulltrúar í verkefnavalsnefnd leikárið 2024-2025: Ilmur Stefánsdóttir leikmyndahöfundur, Vala Fannell, verkefnastjóri samfélagsmála.

Lesarar og ráðgjafar: Þorsteinn Sturla Gunnarsson kvikmyndagerðarmaður, Jónsi Hannesson, starfsnemi frá LHÍ haustið 2024, Siobhán Antoinette Henry leikari og sviðsmaður og Unnsteinn Manuel Stefánsson tónlistarmaður og fjölmiðlamaður.

Meðal þeirra sem setið hafa í verkefnavalsnefnd undanfarin ár eru: Hrafnhildur Hagalín leikskáld, Elín Smáradóttir leikhúsfræðingur og sýningarstjóri, Kjartan Darri Kristjánsson leikari, Björn Ingi Hilmarsson leikari og leikstjóri og Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri og dramatúrg

Til ráðgjafar um barnastarf voru einnig Birgitta Birgisdóttir leikari, Elísa Sif Hermannsdóttir sýningarstjóri og Jón Stefán Sigurðsson leikari.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími