/
Leikhússkóli Þjóðleikhússins

Nýtt og spennandi leikhúsnám fyrir ungt fólk í Þjóðleikhúsinu

Þjóðleikhúsið hefur stofnað nýjan leikhússkóla, sem býður upp á einstakt tækifæri fyrir ungt fólk á aldrinum 18-22 ára til að kynna sér leikhúsið frá ólíkum hliðum og efla færni sína.

Leikhússkólinn býður upp á faglega eins árs leikhúsmenntun, þar sem nemendur kynna sér hin ólíku störf í leikhúsinu, meðal annars hönnun leikmynda, búninga, lýsingar og hljóðs, sýningarstjórn, leikritun og leiklist. Nemendur öðlast þannig víðtæka þekkingu á listforminu og fá tækifæri til að kynnast sjálfu sér sem listafólki og styrkja sýn sína, færni og áhuga. Námið er einstaklingsmiðað og byggist á að virkja sjálfstæða hugsun nemenda í skapandi samvinnu, með leiðsögn frá kennara, í faglegu umhverfi. Nemendur mynda leikhóp þar sem þau taka að sér ólík störf út frá áhugasviði sínu. Hópurinn vinnur að sýningu yfir veturinn, samhliða námskeiðum og fræðslu, sem í lok vetrar verður sýnd á fjölum Þjóðleikhússins. Skólastjóri er Vala Fannell.

Ath! Umsóknarfrestur er liðinn.

 

Skráning í Leikhússkóla Þjóðleikhússins fyrir leikárið 2024-25 er hafin

Skráning í inntökuprufur Leikhússkóla Þjóðleikhússins fyrir leikárið 2024-25 er hafin. Tekið verður við umsóknum frá einstaklingum fæddum á árunum 2002-2006. Umsóknarfrestur er til og með 3. júní 2024.

Umsækjendur sem uppfylla aldursskilyrði fá sent stutt verkefni til að vinna og senda inn í kjölfar umsóknar. Frestur til að skila því verkefni rennur út kl. 23.59 6. júní.

Í kjölfar þess verður völdum umsækjendum boðið að koma í prufu. Prufur verða haldnar dagana 10.-12. júní í Þjóðleikhúsinu. Þátttakendum verður skipt niður í hópa og hver hópur verður boðaður í prufu sem tekur um 2 klst.

 

Fyrirkomulag inntökuprufu

Prufan samanstendur af stuttri kynningu á náminu, umræðum og hópavinnu. Ekkert þarf að undirbúa fyrir prufuna. Umsækjendur eru hvattir til að mæta með opinn huga, tilbúin til að taka virkan þátt í samvinnu, umræðum og æfingum, vera þau sjálf og njóta dagsins.

Umsækjendum er velkomið að koma með svokallað “portfolio” í prufuna. Portfolio er mappa með nokkrum sýnishornum af sköpun umsækjanda, verkum sem viðkomandi hefur unnið eða tekið þátt í. Ekki er nauðsynlegt að sýnishornin tengist leikhúsi.

Allt að 18 umsækjendur eru teknir inn ár hvert. Valið verður í hóp sem samanstendur af fólki með ólík áhugasvið. Lögð verður áhersla á jafnrétti og fjölbreytileika og öll eru hvött til að sækja um óháð uppruna, kyni, kynhneigð og hreyfigetu. Námið stendur einnig opið þeim ungmennum sem ekki tala íslensku, að því gefnu að góð enskukunnátta sé fyrir hendi. 

 

Námið

Leikhússkóli Þjóðleikhússins er fagleg leikhúsmenntun þar sem nemendur fá að kynnast ólíkum störfum innan leikhússins og geta síðan valið sér eigin áherslur út frá áhugasviði sínu eftir því sem líður á námið. Þar með geta nemendur kynnst sjálfum sér sem leikhúslistafólki í gegnum námið, öðlast víðtæka þekkingu á leikhúsinu og styrkt sýn sína og áhuga. Námið er einstaklingsmiðað þar sem nemendur setja sér sín eigin markmið og meta eigin vinnu með stuðningi og leiðsögn kennara. Samvinna er stór þáttur í náminu þar sem nemendur mynda leikhóp í gegnum námið sem að lokum setur upp samsköpunarverkefni sem sýnt verður á fjölum Þjóðleikhússins.

Fyrirkomulag námsins 

Námið nær yfir eitt ár, haustönn hefst í byrjun september og vorönn lýkur í byrjun júní. Kennt verður á þriðjudögum og fimmtudögum milli 17:00 – 19:00

Kennt er tvisvar í viku, tvo tíma í senn, auk heimavinnu, leikhúsferða, vinnusmiðju, heimsókna á æfingar í leikhúsinu og þriggja vikna æfingaferlis í lok vorannar.

Nemendur mega gera ráð fyrir um tveimur klukkustundum í heimavinnu að jafnaði.

Á vorönn hefst kennsla aftur vikulega að nýju í byrjun janúar og er kennt tvær klukkustundir tvisvar sinnum í viku út apríl, ásamt heimavinnu. Þriggja daga vinnusmiðja er í dymbilviku. Upp úr miðjum maí verður síðan æft heila daga á dagvinnutíma í tvær vikur og lokasýning hópsins frumsýnd 7. júní.

 

Auk kennslustunda munu nemendur fá tækifæri til þess að fara inn á æfingar á uppsetningum leikhússins og ræða við leikara og listræna stjórnendur um ferlið, fara á sýningar og taka þátt í umræðum um þá starfsemi leikhússins sem tengist þeirra aldurshópi. Þar með fá nemendur einstaka innsýn inn í leikhúsið sem vinnustað.  

Skólagjöld fyrir veturinn 2024-2025 eru kr. 75.000 á önn. 

Skólastjóri og aðalkennari leikhússkólans er Vala Fannell, sem lærði leiklist og leikstjórn í London og lauk MAnámi í listkennslu frá L. Vala hefur kennt leiklist á öllum skólastigum og byggði upp nýja sviðslistabraut við Menntaskólann á AkureyriÁsamt Völu koma starfsmenn úr ólíkum deildum Þjóðleikhússins að náminu í gegnum umsjón námskeiða, umræður og heimsóknir. Kennarar á námskeiðum eru m.a.:

  • Leikmyndahönnun Ilmur Stefánsdóttir
  • Búningahönnun Filippía I. Elísdóttir
  • Ljósahönnun Björn Bergsteinn Guðmundsson
  • Hljóðhönnun Brett Smith
  • Sýningarstjórn Elísa Sif Hermannsdóttir
  • Handritaskrif Matthías Tryggvi Haraldsson

Markmið námsins 

Störf leikhússins eru ýmis konar og margslungin.  Mörg þeirra eru falin baksviðs og tækifærin til að kynna sér þau eða næra áhugann ekki á hverju strái. Námið veitir innsýn og reynslu inn í alla króka og kima leikhússins. Námið er að miklum hluta verklegt og nemendur hvattir til þess að kynna sér og prófa ólíka hluti. Einn getur aldrei skapað leikhús og mikilvægi þess að kynna sér og þekkja til starfa samstarfsfólks síns í skapandi vinnu er mikið. Skólinn leggur áherslu á uppbyggingu einstaklingsins, færni hans til sköpunar og þar með getu hans og styrk í samstarfi. Í gegnum námið öðlast nemendur: 

  • Faglegan skilning á leikhúsinu sem vinnustað
  • Sjálfstæði í hugsun 
  • Drifkraft og sjálfstæði til að framkvæma hugmyndir
  • Færni í að skipuleggja sig
  • Skapandi hugsun í gegnum ólíka miðla leikhússins
  • Tækifæri til að þroska og þróa sýn og áhuga sinn sem leikhúslistafólk
  • Skilning á mannlegum samskiptum í skapandi starfi   

Undir lok námsins gefst nemendum tækifæri á að fá stuðning við rannsóknarvinnu og undirbúning fyrir áframhaldandi nám.  

Sköpun, sjálfstæði, samvinna 

Nánari upplýsingar veitir Vala Fannell á netfangið vala@leikhusid.is

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími