03. Júl. 2020

Ólafur Egill skrifar og leikstýrir nýju verki um Ástu Sigurðardóttur

Ólafur Egill Egilsson er nú að leggja lokahönd á leikrit sem byggir á höfundarverki og ævi listakonunnar Ástu Sigurðardóttur. Ásta var lifandi goðsögn í bæjarlífi Reykjavíkur um miðbik síðustu aldar. Myndverk hennar, sögur, greinar og ljóð vöktu aðdáun og hneykslun, og oft urðu skilin á milli lífs hennar og höfundarverks óljós. Ólafur Egill gekk til liðs við Þjóðleikhúsið nú í vor og er hluti af nýju fastráðnu teymi listrænna stjórnenda leikhúsið. Ásta er fyrsta verkið sem Ólafur Egill vinnur eftir að hann tók við nýrri stöðu í leikhúsinu. Birgitta Birgisdóttir mun fara með hlutverk Ástu.

Listakonan Ásta Sigurðardóttir hikaði ekki við að ögra viðteknum viðhorfum og venjum, og fylgja kalli hjarta síns, en brenndi kertið í báða enda og féll frá langt fyrir aldur fram. Hún varð táknmynd nútímans, hinnar frjálsu konu, kynfrelsis og framúrstefnulistar en mætti líka fordómum og útskúfun og kynntist hinu dýpsta myrkri sorgar og örvæntingar. Í þessu nýja verki bregður Ólafur upp svipmyndum af Ástu og skáldskap hennar. Fléttað er saman sögum Ástu af lítilmagnanum, utangarðsmönnum og konum í átökum við umhverfi sitt og öfgafullu lífi listakonunnar sjálfrar. Sigríður Thorlacius söngkona og hljómsveit Guðmundar Óskars Guðmundssonar færa ljóð Ástu í tónlistarbúning og endurspegla tíðarandann í gegnum tónlist tímabilsins.

Asta_birgittaLeikmynda og búningahöfundur er Sigríður Sunna Reynisdóttir. Tónlistarstjórn er í höndum Guðmundar Óskars Guðmundssonar og dramatúrg er Andrea Vilhjálmsdóttir.
Birgitta Birgisdóttir fer með hlutverk Ástu en aðrir leikarar eru Ilmur Kristjánsdóttir, Oddur Júlíusson og Hákon Jóhannesson.

Verkið verður frumsýnt  í Kassanum 29. janúar 2021.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími