/
Starfsfólk Þjóðleikhússins

Benedikt Erlingsson

Leikstjóri
/

Benedikt Erlingsson útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1994. Hann hefur leikið fjölda hlutverka á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum, leikstýrt leiksýningum og kvikmyndum og skrifað leikrit og kvikmyndahandrit. Meðal uppsetninga hans hér eru Nashyrningarnir, Súper, Húsið, Sólarferð og Íslandsklukkan. Af uppsetningum hans í Borgarleikhúsinu má nefna And Björk of course, Jesú litla og Jeppa á Fjalli. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir leikstjórn sína á Draumleik, Ófögru veröld og Jesú litla, fyrir handrit og leik í Mr. Skallagrímsson og handrit Jesú litla. Kvikmyndir hans Hross í oss og Kona fer í stríð hafa unnið til fjölda verðlauna á kvikmyndahátíðum víða um heim.

 

Ýtarlegri upplýsingar um feril:

Benedikt Erlingsson útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1994. Hann hefur leikið fjölda hlutverka á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum og leikstýrt í Borgarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu og víðar, sem og kvikmyndum.

Leikstjórnarverkefni Benedikts í Þjóðleikhúsinu eru Nashyrningarnir eftir Ionesco, Súper – þar sem kjöt snýst um fólk eftir Jón Gnarr, Húsið og Sólarferð eftir Guðmund Steinsson, Þingkonurnar eftir Aristófanes, og Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness, í leikgerð Benedikts.

Benedikt var leiðtogi leikhópsins á Nýja sviði Borgarleikhússins leikárin 2001-2002 og 2002-2003 og leikstýrði þá verkunum Fyrst er að fæðast eftir Line Knutson, And Björk of course… eftir Þorvald Þorsteinsson og Sumarævintýri – byggt á Vetrarævintýri Shakespeares. Benedikt leikstýrði einnig Skáldanótt eftir Hallgrím Helgason, Draumleik eftir August Strindberg, Ófögru veröld eftir Anthony Neilson, Jesú litla eftir leikhópinn, Hótel Volkswagen eftir Jón Gnarr og Jeppa á Fjalli eftir Holberg í Borgarleikhúsinu.

Benedikt hefur leikstýrt tveimur kvikmyndum, Hross í oss og Kona fer í stríð, sem hafa unnið til fjölda verðlauna á kvikmyndahátíðum víða um heim. Þær hlutu báðar Edduverðlaunin sem besta kvikmynd ársins, auk þess sem Benedikt var valinn leikstjóri ársins. Benedikt hlaut kvik­mynda­verðlaun Norður­landaráðs fyrir báðar myndirnar.

Benedikt lék meðal annars Galdra-Loft í Óskinni eftir Jóhann Sigurjónsson og Vladimir í Beðið eftir Godot eftir Samuel Beckett í Borgarleikhúsinu. Hann setti upp og lék sýninguna Ormstungu, ásamt leikkonunni Halldóru Geirharðsdóttur og sænska leikstjóranum Peter Engkvist, í Skemmtihúsinu, en sýningin var sýnd í Borgarleikhúsinu síðar. Hann samdi einnig og lék einleikinn Mr. Skallagrímsson undir leikstjórn Peters Engkvists í Landnámssetrinu í Borgarnesi.

Meðal kvikmynda sem Benedikt hefur leikið í eru mynd leikstjórans Lars von Triers, Direktoren for de hele, og Mávahlátur og Tár úr steini. Hann lék einnig í sjónvarpsþáttunum Fóstbræðrum.

Benedikt hlaut Grímuverðlaunin fyrir leikstjórn sína á Draumleik, Ófögru veröld og Jesú litla, en þessar þrjár sýningar hlutu einnig verðlaunin sem sýning ársins. Benedikt hlaut Grímuna sem besti leikari ársins í aðalhlutverki fyrir einleik sinn Mr. Skallagrímsson. Hann hlaut ennfremur Grímuna fyrir handrit einleiksins Mr. Skallagrímsson og handrit sýningarinnar Jesú litli, sem hann samdi ásamt leikhópnum. Benedikt var tilnefndur til Grímunnar fyrir leikstjórn sína á Súper og Íslandsklukkunni og leik sinn í Elsku barni og Ormstungu.

Benedikt var búsettur í Kaupmannahöfn um tveggja ára skeið og starfaði þar og víðar á Norðurlöndum.

/

Sýningar

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími