/
Starfsfólk Þjóðleikhússins

Filippía I. Elísdóttir

Búningahöfundur
/

Filippía I. Elísdóttir hefur starfað við á annað hundrað sýningar sem búninga- og sviðsmyndahönnuður, listrænn ráðgjafi og höfundur gjörninga. Sem búninga- og sviðsmyndahönnuður hefur hún unnið við leiksýningar, óperur og kvikmyndir, jafnt á Íslandi sem erlendis, og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín. Í vetur gerir hún hér leikmynd og búninga fyrir Heim og búninga fyrir Taktu flugið, beibí! Meðal nýlegra verkefna hennar hér eru Ást Fedru, Mútta Courage, Saknaðarilmur, Aspas, Sem á himni, Vertu úlfur, Framúrskarandi vinkona, Nashyrningarnir, Súper og Húsið. Hún hlaut Grímuna fyrir Ást Fedru, Ríkharð III, Töfraflautuna, Ofviðrið, Sweeney Todd, Virkjunina, Woyzeck, Engla alheimsins og Dúkkuheimili. Hún hlaut Stefaníustjakann árið 2010 og Fálkaorðuna árið 2016.

 

Meira um feril:

Filippía hefur komið að á annað hundrað sýningum sem búninga- og sviðsmyndahönnuður, listrænn ráðgjafi og höfundur gjörninga. Sem búninga- og sviðsmyndahönnuður hefur hún starfað fyrir leikhús, óperur og kvikmyndir, jafnt á Íslandi sem erlendis, og hlotið ýmis konar viðurkenningar fyrir störf sín.

Hér í Þjóðleikhúsinu gerði Filippía búninga fyrir Nashyrningana, Vertu úlfur, Súper – þar sem kjöt snýst um fólk, Húsið, Djöflaeyjuna, Sporvagninn Girnd, Sjálfstætt fólk – hetjusögu, Engla alheimsins, Tveggja þjón, Heddu Gabler, Frida… viva la vida, Engisprettur, Virkjunina, Sorgin klæðir Elektru, Norður, Vegurinn brennur, Jón Gabríel Borkmann, Með fullri reisn, Dínamít, Vatn lífsins, Laufin í Toscana, Meiri gauragang og Leitt hún skyldi vera skækja. Hún gerði hér einnig búninga fyrir Draum á Jónsmessunótt, Hamlet og Ríkarð þriðja í samstarfi við Vytautas Narbutas og aðstoðaði sama listamann við búninga fyrir Kirsuberjagarðinn. Hún gerði búninga fyrir 4:48 Psychosis sem sýnt var í samvinnu við Edda Productions. Einnig gerði hún leikmynd og búninga fyrir Ég heiti Guðrún sem var sýnt í samvinnu við Leiktóna.

Í Borgarleikhúsinu gerði Filippía leikmynd og búninga fyrir Kæru Jelenu og Medeu, og búninga fyrir Ríkharð III, Rocky Horror, Mamma Mia, Mávinn, Sölku Völku, Ofviðrið, Fást, Milljarðamærin snýr aftur, Fólkið í blokkinni, Gauragang, Híbýli vindanna, Lífsins tré, Woyzeck, Gretti, Fjandmann fólksins og Boðorðin 9.

Hún gerði leikmynd og búninga fyrir Ökutíma og Svartur köttur hjá Leikfélagi Akureyrar, og fyrir Svikarann og Endastöð – Upphaf fyrir leikhópinn Lab Loki.

Filippía gerði búninga fyrir Túskildingsóperuna í Nemendaleikhúsi LHÍ, söngleikinn Rocky Horror í Loftkastalanum og Svik sem Sögn, Á senunni og LA sýndu. Hún gerði búninga fyrir Ferðalag Fönixins á Listahátíð í Reykjavík. Hún gerði leikmynd og búninga fyrir Svikarann og Endastöð-Upphaf hjá leikhópnum Lab Loka.

Hún hannaði búninga fyrir Brottnámið úr kvennabúrinu, Flagara í framsókn, Sweeney Todd, La Traviata, Rigoletto, Töfraflautuna og La Boheme hjá Íslensku óperunni.

Filippía gerði búninga fyrir Túskildingsóperuna, La Boheme og Pétur Gaut hjá Borgarleikhúsinu í Wiesbaden, Lohengrin, Leðurblökuna og La Boheme í óperuhúsinu í Augsburg, Rómeó og Júlíu í St. Gallen og Borgarleikhúsinu í Mainz, Meistarann og Margarítu í Tubingen, og Grimm og Pétur Gaut hjá Luzerner Theater í Sviss. Síðastnefnda sýningin var valin af gagnrýnendum og áhorfendum besta þýskumælandi sýning ársins á Nachtkritik.de. Hún gerði búninga fyrir Hamlet í Odense Teater í Danmörku og Galdra-Loft hjá SOF-Teater í Noregi. Hún gerði búninga fyrir Tartuffe í leikstjórn Korsunovas í Árósum í Danmörku. Hún gerði sviðsmynd og búninga fyrir Open source dansleikhúsið fyrir listahátíðirnar í Galway á Írlandi og Ghent í Belgíu, og Apart dansleikhús fyrir Borgarleikhúsið í Braunzweig.

Filippía vann við kvikmyndirnar Ungfrúin góða og húsið, Dagurinn í gær og Undir halastjörnu.

Filippía hlaut Grímuna-Íslensku leiklistarverðlaunin fyrir Ríkharð III, Töfraflautuna, Ofviðrið, Sweeney Todd, Virkjunina, Woyzeck, Engla alheimsins og Dúkkuheimili. Hún hefur verið tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir búninga sína. Hún hlaut Stefaníustjakann, viðurkenningu úr sjóði Stefaníu Guðmundsdóttur, árið 2010. Filippía hlaut Fálkaorðuna árið 2016.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími