Stormur
Glænýr söngleikur sem talar til ólíkra kynslóða um fyrstu stóru tímamót lífsins
Vinahópur sem er að útskrifast úr menntaskóla stendur á tímamótum sem eru í senn spennandi og ógnvænleg. Hver er ég og hver vil ég vera? Get ég sagt skilið við fortíðina og byrjað lífið upp á nýtt? Þori ég að taka stökkið og fylgja hjartanu, alla leið?
Þorum, lifum, elskum – núna!
Elísabet er ung tónlistarkona sem er undir mikilli pressu að reyna að ljúka við sína fyrstu plötu í kjölfar þess að lag sem hún sendi frá sér varð óvænt vinsælasta lag ársins. Hluti vinahópsins er með henni í hljómsveit, og sumarið eftir útskriftina leigja vinirnir saman æfingahúsnæði til að klára plötuna, fíflast saman og ríghalda í tilfinninguna að vera ung og frjáls aðeins lengur. Elísabet áttar sig smám saman á því að hún er ástfangin af Helgu vinkonu sinni og við tekur átakamikið ferðalag þar Elísabet þarf að ákveða hvort hún eigi að þora að segja Helgu hug sinn og kannski hætta á að missa hana fyrir fullt og allt. En um leið og gleðin er í hámarki hjá vinunum er eins og jörðin byrji að gliðna undir fótum þeirra.
Stórbrotin ástarsaga, mögnuð tónlist, undurfögur augnablik
Fyrri leikverk Unnar Aspar í Þjóðleikhúsinu, verðlaunaverkin Vertu úlfur og Saknaðarilmur, hafa hreyft rækilega við leikhúsgestum og heillað þá, en í þeim hefur hún beint sjónum að mikilvægum málefnum í samtíma okkar. Nú vinnur hún með einni fremstu tónlistarkonu landsins af ungu kynslóðinni, Unu Torfadóttur og þær semja í sameiningu nýjan söngleik sem fjallar á beinskeyttan hátt um ungt fólk á Íslandi í dag. Stórvinsæl lög Unu Torfa hljóma í bland við ný og grípandi lög.
Una Torfadóttir kom eins og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf fyrir tveimur árum. Hver smellurinn á fætur öðrum hefur náð miklum vinsældum og hrifið fólk á öllum aldri. Nýjasta plata hennar, Sundurlaus samtöl, hefur fengið frábærar viðtökur.
Leikarar
Hljómsveit
Listrænir stjórnendur
Aðrir aðstandendur
Salka Gústafsdóttir leikari er starfsnemi og nemandi við LHÍ.