/
Starfsfólk Þjóðleikhússins

Melkorka Tekla Ólafsdóttir

Leiklistarráðunautur
/

Melkorka Tekla Ólafsdóttir lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði og íslensku frá Háskóla Íslands og licenceprófi og síðar maîtriseprófi í leikhúsfræði frá Université de la Sorbonne nouvelle í París. Hún starfar sem leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins. Hún semur ásamt Gísla Erni Garðarssyni handrit fyrir Jólaboðið í Þjóðleikhúsinu í vetur. Hún samdi fyrir Þjóðleikhúsið leikgerð af Tímaþjófnum eftir Steinunni Sigurðardóttur og leikgerð af Svartalogni eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, og var meðhöfundur leikgerðar af Djöflaeyjunni eftir Einar Kárason. Hún hefur m.a. leikstýrt Vígaguðinum, Nítjánhundruð, Já, hamingjan og Abel Snorko býr einn í Þjóðleikhúsinu og Fyrir framan annað fólk í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir handrit Tímaþjófsins.

 

Nánar:

Melkorka Tekla Ólafsdóttir er leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins.

Melkorka lauk B.A.-prófi í bókmenntum og íslensku frá Háskóla Íslands árið 1992 og lærði leikhúsfræði við Université de la Sorbonne nouvelle í París, en þaðan lauk hún licence-prófi árið 1994 og maîtrise-prófi árið 1995.

Melkorka hefur unnið nokkrar leikgerðir fyrir Þjóðleikhúsið. Hún samdi leikgerð byggða á skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur Svartalogni og er höfundur leikgerðar sem byggð er á skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur Tímaþjófnum. Leikgerð Melkorku af Tímaþjófnum var tilnefnd til Grímunnar. Melkorka var ásamt Atla Rafni Sigurðarsyni leikstjóra, og leikhópi verksins, handritshöfundur söngleiksins Djöflaeyjunnar, sem var byggð á skáldsögum eftir Einar Kárason.

Melkorka hefur leikstýrt í Þjóðleikhúsinu Vígaguðinum eftir Yasminu Reza (2008), Nítjánhundruð eftir Alessandro Baricco (2004), Já, hamingjan eftir Kristján Þórð Hrafnsson (2001) og Abel Snorko býr einn eftir Eric-Emmanuel Schmitt (1998). Hún sviðsetti hér ljóða- og söngdagskrána Best að borða ljóð (1999), með tónlist Jóhanns G. Jóhannssonar við ljóð Þórarins Eldjárns. Melkorka leikstýrði Fyrir framan annað fólk eftir Kristján Þórð Hrafnsson í Hafnarfjarðarleikhúsinu (2009) og Vinnukonunum eftir Jean Genet í Kaffileikhúsinu (1997). Hún hefur einnig leikstýrt hjá áhugaleikhópum og í útvarpi.

Melkorka starfaði sem leiklistarráðunautur Ríkisútvarpsins á árunum 1995-97.

/

Sýningar

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími