Nína Dögg Filippusdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2001 og hefur leikið fjölda hlutverka á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpi. Hún er einnig handritshöfundur og kvikmyndaframleiðandi. Hún er meðal stofnenda Vesturports og lék m.a. í Rómeó og Júlíu, Hamskiptunum og Faust hérlendis sem erlendis. Hún leikur í Yermu í Þjóðleikhúsinu í vetur. Hér hefur hún m.a. farið með burðarhlutverk í Ex, Jólaboðinu, Óþelló, Tímaþjófnum, Sporvagninum Girnd og Fjalla-Eyvindi, og í Borgarleikhúsinu í Fólk, staðir og hlutir og Fjölskyldunni. Hún var einn framleiðenda, höfunda og leikara í sjónvarpsþáttaröðunum Verbúðinni og Föngum og fer með titilhlutverkið í sjónvarpsþáttaröðinni Vigdís. Hún hefur hlotið fjölda tilnefninga til Grímunnar og Eddunnar og hlaut Grímuna fyrir Ex og Fólk, staðir og hlutir og Edduna fyrir Verbúð, Villibráð, Brim og Hjartastein.
Meira um feril:
Í Þjóðleikhúsinu hefur Nína Dögg einnig leikið í Rómeó og Júlíu, Ást og upplýsingum, Loddaranum, Rambó 7 og Átta konum. Með Vesturporti hefur hún einnig leikið í Brimi, Woyzek og Kommúnunni. Hún hefur ferðast víða með Vesturporti og leikið bæði í London og víða á leikferðum leikhópsins. Nína lék einnig í Borgarleikhúsinu í Kryddlegnum hjörtum, Púntilla og Matta, Dúfunum og Furðulegt háttalag hunds um nótt. Nína lék í Englabörnum í Hafnarfjarðaleikhúsinu. Hún lék í uppsetningu breska leikhópsins Kneehigh á Don Jon og ferðaðist með þá sýningu um Bretland. Nína lék m.a. í kvikmyndunum Villiljósi, Hafinu, Börnum og Foreldrum, Sveitabrúðkaupi, Kóngavegi og Brimi og sjónvarpsþáttunum Brot, Ófærð, Stelpunum og Heimsendi. Nína Dögg var valin Shooting Star 2003. Nína hlaut styrk úr Minningasjóði Frú Stefaníu Guðmundsdóttur árið 2005.