12. Apr. 2024

Unnur Ösp og Una Torfa semja söngleik fyrir Þjóðleikhúsið

Í febrúar á næsta ári verður frumsýndur nýr íslenskur söngleikur á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Það eru þær Unnur Ösp Stefándsóttir og Una Torfadóttir sem semja söngleikinn en öll tónlist er eftir Unu. Unnur Ösp leikstýrir og Una mun fara með eitt aðalhlutverka í sýningunni sem hefur fengið nafnið Stormur. Söngleikurinn fjallar um ungt fólk á tímamótum menntaskólaáranna, óttann við framtíðina, þrána eftir ástinni og leitina að okkur sjálfum.

Nýjustu leiksýningar Unnar Aspar Stefánsdóttur í Þjóðleikhúsinu, Vertu úlfur og Saknaðarilmur, hafa heillað leikhúsgesti og hreyft við þeim, en í þeim hefur hún beint sjónum að mikilvægum málefnum í samtíma okkar. Nú hefur hún fengið tónlistarkonuna ungu Unu Torfadóttur til liðs við sig, og þær semja í sameiningu nýjan söngleik sem fjallar á beinskeyttan hátt um ungt fólk á Íslandi í dag. Stórvinsæl lög Unu Torfa hljóma í bland við grípandi, splunkuný lög.

Una Torfadóttir kom eins og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf fyrir tveimur árum. Velgengnin hófst þegar hún sendi frá sér lögin Fyrrverandi, Ekkert að og Í löngu máli, og síðan þá hefur hver smellurinn á fætur öðrum náð miklum vinsældum. Fyrsta plata Unu í fullri lengd kemur út 26. apríl næstkomandi.

Sagan fjallar um vinahóp sem er að útskrifast úr menntaskóla og stendur á stærstu tímamótum lífs síns. Þau velta fyrir sér hvert skal halda, hvað framtíðin ber í skauti sér, hvern þau eigi að elska og hvernig manneskjur þau vilji vera? Hvernig er hægt að vera maður sjálfur í heimi sem gerir miklar kröfur til manns og hafnar manni jafnvel ef maður er á skjön við normið? Þau standa á bjargbrúninni og kynnast því allra hættulegasta, ástinni. Þora þau að hlusta á storminn innra með sér, vera í frjálsu falli og taka stökkið?

Elísabet er ung tónlistarkona sem er að reyna að ljúka við sína fyrstu plötu eftir að hafa gefið út vinsælasta lag ársins. Kröfurnar frá umhverfinu eru miklar, innblásturinn óáreiðanlegur og hún er hrædd um að hún nái ekki að standast pressuna. Hluti vinahópsins er með henni í hljómsveit, vinirnir leigja saman æfingahúsnæði sumarið eftir útskriftina til að klára plötuna og fíflast saman í síðasta sinn áður en alvara lífsins tekur við.

Á þessum örlagaríku tímamótum rennur upp fyrir Elísabetu að hún elskar Helgu vinkonu sína ekki einungis sem vinkonu. Við tekur átakamikið ferðalag þar Elísabet þarf að ákveða hvort hún eigi að þora að segja Helgu hug sinn og hætta á að missa hana fyrir fullt og allt. Hryllilegur atburður verður svo til þess að þau sjá öll líf sitt í nýju ljósi, allt er breytt og ekki um annað að ræða en að þora, lifa og elska, núna!

“Þú ert stórkostleg stelpa en við snúum í sitthvora átt.”

„Ég þarf ekki að vera fullkomin, þarf ekki að vita nákvæmlega hvað ég er. Ég má vera stormur.“

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími