Framúrskarandi vinkona
Napólí-sögur Elenu Ferrante hafa farið sigurför um heiminn og sjónvarpsþættir byggðir á þeim hafa slegið í gegn. Lesendur og áhorfendur víða um heim hafa hlegið og grátið til skiptis yfir vegferð hinna skarpgreindu vinkvenna Lilu og Elenu sem alast upp í fátækrahverfi í Napólí á sjötta áratugnum. Þær þurfa að beita öllum brögðum til að komast af, brjótast til mennta og berjast fyrir betra lífi í harkalegu umhverfi þar sem ofbeldi stjórnar tilverunni og réttur kvenna er lítils virtur.
Sýningarlengd er um 4 klst.
1. þáttur: 90 mín.
Fyrra hlé er 30 mín.
2. þáttur: 60 mín.
Seinna hlé er 15 mín.
3. þáttur: 50 mín.
Hin suður-afríska Yaël Farber leikstýrir þessari stórsýningu en uppsetningar hennar hafa hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga víða um heim. Gestir Þjóðleikhússins mega eiga von á ítalskri leikhúsveislu þar sem öllu verður tjaldað til við sviðsetningu þessarar mögnuðu sögu um flókna vináttu, heitar ástir, afbrýðisemi, sárar fórnir, æðruleysi og örvæntingu.
Hér er á ferð sannkölluð stórsýning með mörgum af okkar fremstu leikurum.
Gerðu meira úr kvöldinu – njóttu ítalskrar leikhúsveislu!
Sýningin á Framúrskarandi vinkonu er sannkölluð leikhúsveisla og á henni eru gerð tvö hlé.
Þú getur gert ennþá meira úr kvöldinu með því að panta veitingar (með 48 klst. fyrirvara) og njóta þriggja rétta kvöldverðar fyrir sýningu og í hléum.
Þeir sem panta veitingar fyrirfram eiga frátekið borð í leikhúsinu. Einnig er hægt að panta smurbrauðssnittur eða grænkeradisk.
„Ég vil búa til leikhús sem vekur fólk“
Þegar suður-afríski leikstjórinn Yaël Farber fékk fyrr á árinu símtal frá Magnúsi Geir þjóðleikhússtjóra og heyrði hvert erindið var ætlaði hún vart að trúa eigin eyrum. „Þetta var dásamleg tímasetning. Ég hafði tekið Napólí-fjórleik Elenu Ferrante með mér til Kúbu og gleypt allar bækurnar í mig á örstuttum tíma.
Bókstaflega sama dag og ég lauk við fjórðu bókina hringdi Magnús, en þá höfðu nýlega orðið breytingar á mínum áætlunum. Ég treysti svona tilviljunum og þekktist boðið þegar í stað.“
Framúrskarandi vinkona er fyrsta uppsetning Yaël á Íslandi en hún hefur um árabil verið í fremstu röð leikstjóra á alþjóðavísuog meðal annars leikstýrt rómuðum sýningum í mörgum helstu leikhúsum Bretlands, á Írlandi, í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Kanada þar sem hún er nú búsett.
LEIKARAR
Myndbönd
Listrænir stjórnendur
Aðrir aðstandendur sýningar
Sýningarréttur: Colombine Teaterförlag.
Leikgerð April De Angelis heitir á frummálinu My Brilliant Friend Part 1 & 2 og er byggð á bókum Elenu Ferrante My Brilliant Friend, The Story of A New Name, Those Who Leave and Those Who Stay og The Story of the Lost Child. Útgefandi: Europa Editions. Bækurnar voru gefnar út á íslensku af bókaforlaginu Bjarti og heita í íslenskri þýðingu Framúrskarandi vinkona, Saga af nýju ættarnafni, Þeir sem fara og þeir sem fara hvergi og Sagan af barninu sem hvarf.
Námskeið í samstarfi við Endurmenntun HÍ í tengslum við sýninguna hefst 23. nóvember
Dagskrá námskeiðs:
• Fyrirlestrarkvöld, þriðjudaginn 23. nóvember kl. 20:00 – 22:00.
Hrafnhildur Hagalín og Guðrún Vilmundardóttir fjalla um höfundinn, sögurnar, leikgerðina og uppsetninguna.
• Heimsókn á æfingu í Þjóðleikhúsinu, þriðjudaginn 30. nóvember kl. 13:00 – 15:00.
• Forsýning í Þjóðleikhúsinu, miðvikudaginn 22. desember kl. 20:00.
Umræður með þátttöku listrænna aðstandenda sýningarinnar í lokin.