Tónskáld
Valgeir Sigurðsson semur tónlist ásamt Helga Hrafni Jónssyni fyrir Mútter Courage og börnin í Þjóðleikhússinu í vetur.
Valgeir Sigurðsson hefur samið tónlist af ýmsu tagi, flutt tónlist sína víða um heim og starfað sem upptökustjóri fyrir fjölda hljómplatna. Hann samdi tónlist fyrir m.a. Vertu úlfur, Framúrskarandi vinkonu og Meistarann og Margarítu í Þjóðleikhúsinu. Hann stofnaði útgáfufyrirtækið Bedroom Community 2006 og hljóðverið Gróðurhúsið 1997. Valgeir hefur samið tónverk og kammertónlist fyrir m.a. City of London Sinfonia, Scottish Ensemble, Winnipeg Symphony, Crash Ensemble, Nordic Affect og Daniel Pioro. Hann hefur samið tónlist fyrir leiksýningar, dansverk og kvikmyndir, og eftir hann liggja þrjár kammer-óperur/tónleikhúsverk. Hann var tilnefndur til Eddunnar fyrir tónlist í kvikmyndinni Draumalandinu og sólóplata hans Dissonance hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin í opnum flokki 2017. Hann hlaut ásamt öðrum Grímuverðlaunin fyrir hljóðmynd í Vertu úlfur.