/
Starfsfólk Þjóðleikhússins

Sigurður Sigurjónsson

Leikari
/

Sigurður Sigurjónsson lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands árið 1976. Hann hefur farið með fjöldamörg veigamikil hlutverk í Þjóðleikhúsinu og víðar, og leikið í fjölmörgum kvikmyndum og í sjónvarpi. Í vetur leikur hann í Hvað sem þið viljið og Sem á himni í Þjóðleikhúsinu. Meðal fyrri verkefna hér eru Rómeó og Júlía, Út að borða með Ester, Einræðisherrann, Maður sem heitir Ove, Stalín er ekki hér, Amadeus, Bílaverkstæði Badda, Gauragangur, Don Juan og Villiöndin. Meðal leikstjórnarverkefna hans eru Hafið, Gamansami harmleikurinn, Maður í mislitum sokkum, Glanni glæpur, Dýrin í Hálsaskógi og Sitji guðs englar í Þjóðleikhúsinu, Hellisbúinn og Sniglaveislan. Hann hlaut Edduverðlaunin fyrir Undir trénu og Hrúta og var tilnefndur til Grímunnar fyrir Maður sem heitir Ove.

Nánari upplýsingar um feril:

Sigurður Sigurjónsson lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands árið 1976.

Sigurður hefur farið með fjöldamörg veigamikil hlutverk í Þjóðleikhúsinu í leikverkum af ólíku tagi, dramatískum verkum, gamanleikritum, barnaleikritum og söngleikjum. Hann lék í Þjóðleikhúsinu um árabil frá því hann lauk prófi frá LÍ og er nú aftur kominn á fastan samning í leikhúsinu.

Hann lék nýlega í Rómeó og Júlíu, Út að borða með Ester og Framúrskarandi vinkonu í Þjóðleikhúsinu. Einnig í Shakespeare verður ástfanginn, Meistaranum og Margarítu og Útsendingu, Einræðisherranum, Jónsmessunæturdraumi, Maður sem heitir Ove, Óvini fólksins, sirkussöngleiknum Slá í gegn, Móðurharðindunum, Umhverfis jörðina á 80 dögum og Fjalla-Eyvindi. Hann var jafnframt annar handritshöfunda í Umhverfis jörðina á 80 dögum.

Meðal annarra hlutverka Sigurðar hér má nefna Kalla í Stalín er ekki hér, Árna í Stundarfriði, Amadeus í samnefndu verki, Vlas í Sumargestum, Ragga í Bílaverkstæði Badda, aðalhlutverk í gamanleikjunum Skvaldri, Með vífið í lúkunum og Kjaftagangi, Thénardier í Vesalingunum og Benna Southstreet í Gæjum og píum, Dofrann í Pétri Gaut, Sigurð Pétursson í Gleðispilinu, Mikka ref í Dýrunum í Hálsaskógi, Berg í Hafinu, Jónas í Ferðalokum, Ranúr í Gauragangi og Martini í Gaukshreiðrinu, Filip Gelburt í Glerbrotum, Sganarelle í Don Juan, séra Jens í Nönnu systur, Gregers Werle í Villiöndinni, Asdak og fleiri hlutverk í Krítarhringnum í Kákasus, Ragueneau bakarameistara í Cyrano frá Bergerac, Hubert í Lífinu þrisvar sinnum, Alfreð í Allir á svið og F2 og Albert í Edith Piaf.

Sigurður hefur leikið í fjölmörgum íslenskum kvikmyndum og í sjónvarpi, meðal annars með Spaugstofunni. Nú síðast lék hann í verðlaunamyndinni Hrútum.

Á síðari árum hefur Sigurður snúið sér í auknum mæli að leikstjórn.

Hér í Þjóðleikhúsinu leikstýrði Sigurður Hafinu, Gamansama harmleiknum, Manni í mislitum sokkum, Glanna glæp, Dýrunum í Hálsaskógi og Sitji Guðs englar.

Hann leikstýrði Hellisbúanum í Íslensku óperunni og Sniglaveislunni hjá Leikfélagi Akureyrar, en sýningin var síðar á fjölum Iðnó.

Sigurður hlaut Edduverðlaunin fyrir leik sinn í Undir trénu og Hrútum. Hann var tilnefndur til Grímunnar fyrir leik sinn í Maður sem heitir Ove.

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími