
Ærslagangur, tónlist og hjörtu barmafull af ást – í kynjaskógi Shakespeares.
Þessi galsafulla gleðisýning færir okkur skemmtilegasta gamanleik Shakespeares í splunkunýjum búningi, þar sem möguleikar leikhússins eru nýttir á frjóan og ævintýralegan hátt og list leikarans er í forgrunni. Ágústa Skúladóttir leikstjóri er þekkt fyrir fjörugar, litríkar og heillandi sýningar, og nú hefur Karl Ágúst Úlfsson endurort texta skáldsins á léttleikandi nútímamál í nýrri leikgerð sem er full af húmor og brotin upp af stórskemmtilegri tónlist. Margir okkar flinkustu gamanleikarar blása nýju lífi í ógleymanlegar persónur Shakespeares.

Er ástin allt sem þarf? Það sögðu Bítlarnir, Shakespeare var sammála – og það erum við líka!
Elskendurnir ungu Rósalind og Orlandó neyðast til að flýja, hvort í sínu lagi, undan ofsóknum. Þau hrekjast út í skógana miklu, þar sem þeirra bíða kostuleg ævintýri meðal annarra útlaga. Dulargervi, kynusli, margfaldur misskilningur, ráðabrugg, fíflalæti og eldheitar ástríður!
