Ágústa Skúladóttir leikstýrir Hvað sem þið viljið í Þjóðleikhúsinu í vetur og gerir leikgerð ásamt Karli Ágústi Úlfssyni þýðanda.
Ágústa hefur sett upp yfir þrjátíu sýningar, einkum á nýjum íslenskum verkum. Ágústa lærði leiklist hjá Monicu Pagneux, Philippe Gauliere, Theatre De Complicite, John Wright og David Glass. Hjá Þjóðleikhúsinu hefur Ágústa sett upp Kardemommubæinn, Umhverfis jörðina á 80 dögum, Dýrin í Hálsaskógi, Ballið á Bessastöðum, Klaufa og kóngsdætur, Eldhús eftir máli, Halldór í Hollywood, Umbreytingu og Stórfengleg. Hún leikstýrði hér einnig tveimur samstarfsverkefnum, Herra Potti og Ungfrú Loki í samstarfi við Opera Artic og Nú skyldi ég hlæja væri ég ekki dauður í samstarfi við leiklistardeild LHÍ. Hún leikstýrði Línu Langsokk í Borgarleikhúsinu. Ágústa starfaði í nokkur ár í London sem leikkona og uppistandari. Hún er einn af stofnendum Icelandic Take Away Theatre, og hefur unnið þar sem leikari, höfundur og leikstjóri í fjölda sýninga. Meðal leikstjórnarverkefna hennar þar eru Háaloft, Angels of the Universe og Spekúlerað á stórum skala. Ágústa hefur leikstýrt talsvert í áhugaleikhúsi, meðal annars Grimmsævintýrum og Hljómsveitinni hjá Leikfélagi Kópavogs, Svarfdælasögu hjá Leikfélagi Dalvíkur, Undir hamrinum hjá Hugleik og Memento Mori hjá Leikfélagi Kópavogs og Hugleik. Meðal leikstjórnarverkefna Ágústu hjá sjálfstæðum leikhópum eru Kvenna hvað? í Kaffileikhúsinu, Sellófon hjá Himnaríki, 5 stelpur.com í Austurbæjarbíói, Landið Vifra í Möguleikhúsinu, Emma og Ófeigur hjá Stoppleikhúsinu og Dauði og jarðarber hjá Félagi flóna. Ágústa hefur einnig leikstýrt talsvert í Færeyjum. Hún leikstýrði Ástardrykknum, Töfraflautunni og Rakaranum frá Sevilla hjá Íslensku óperunni. Ágústa er einn af aðstandendum Gaflaraleikhússins og leikstýrði þar Í skugga Sveins og Ævintýrum Múnkhásens. Ágústa hefur starfað talsvert við leiklistarkennslu, meðal annars hjá leiklistarskóla áhugaleikfélaganna og hjá leiklistardeild LHÍ. Ágústa hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir leiksýningar sínar og hlaut meðal annars menningarverðlaun Ibby samtakanna fyrir Grimmsævintýri með Leikfélagi Kópavogs, en sýningin var einnig valin áhugasýning ársins. Sýningar hennar á Í skugga Sveins, Klaufum og kóngsdætrum og Bólu-Hjálmari hlutu Grímuverðlaunin sem barnasýningar ársins, og Ballið á Bessastöðum, Herra Pottur og Ungfrú Lok og Landið vifra voru tilnefnd til verðlaunanna. Eldhús eftir máli hlaut Menningarverðlaun DV. Einnig hafa margar af sýningum Ágústu verið valdar á leiklistarhátíðir víða um heim. Ágústa hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 2009.