Karl Ágúst Úlfsson þýðir og gerir leikgerð af verki Shakespeares Hvað sem þið viljið, í samvinnu við Ágústu Skúladóttur, í Þjóðleikhúsinu í vetur.
Karl Ágúst lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands 1981 og meistaragráðu frá Ohio University í leikritun og ritun kvikmynda- og sjónvarpsefnis 1994. Hann lék mikinn fjölda hlutverka við Þjóðleikhúsið, td. Rómúlus mikla, Uppreisn á Ísafirði, Valborgu og bekkinn, Skugga-Svein og Örfá sæti laus. Einnig Undir álminum hjá Leikfélagi Reykjavíkur og Sölku Völku, Írlandskortið, Guð gaf mér eyra, Draumur á Jónsmesunótt, Land míns föður og Síldin er komin – og á vegum margvíslegra leikhópa lék hann Ó, þessi þjóð, Ást í bakaríi, Einkalíf, Á Söguslóðum, Kirsuberjagarðurinn, Þjóðhátíð og Flensað í Malakoff. Einnig lék hann í fjölda kvikmynda og sjónvarpsefnis svo sem Jóni Oddi og Jóni Bjarna, Útlaganum, Nýju líf, Dalalífi, Löggulífi og Tilberanum.
Árið 1985 stofnaði Karl Spaugstofuna ásamt fjórum félögum sínum, en uppfrá því hóf hún framleiðslu á sjónvarps- útvarps- og sviðsefni og starfaði nánast óslitið í 30 ár upp frá því. Auk framleiðslunnar á þáttum Spaugstofunnar, sem sýndir voru í sjónvarpi, gerðu félagarnir mikinn fjölda leikinna útvarpsþátta, til dæmis útvarpsleikritin um Harrý og Heimi og sviðsverkin Örfá sæti laus og Gysbræður.
Karl hefur skrifað mikinn fjölda verka, bæði bækur, ljóð, söngtexta og leikrit sem öll hafa verið sett upp og vakið athygli. Í söngleikjum sínum hefur hann unnið með fjölda tónskálda og má í því samhengi nefna Reimt, Gosi – ævintýri spýtustráks, Gallsteinar afa Gissa, Góði dátinn Svejk og vinur hans, Í skugga Sveins, Benedikt búálfur, Umhverfis jörðina á 80 dögum, Sól og Máni, Gulleyjan, Gosi, og Fíflið, sem var kveðjuverk Karls til íslenska leikhússins, en auk þess liggja eftir hann leikrit sem ekki teljast söngleikir, eins og Stundum koma þeir aftur, Allt er fertugum fært, Boðið upp í morð, Ég er útvarpstæki, Fagra veröld, Í hvítu myrkri, Stóllinn hans afa, Hugur og hold, Ættarlaukur, Hvers vegna elskar mig enginn? og Ómerktur ópus í C-moll.
Karl hóf þýðingaferil sinn fyrir tvítugt á íslenskun sinni á Hobbit eftir J.R.R. Tolkien. Síðan þá eru þýðingar hans orðnar um það bil 70, bæði leikrit, skáldsögur, ljóðaþýðingar, smásögur og allra handa efni sem tilheyrir Shakespeare, Henrik Ibsen, John Ford, Charles Dickens, Mark Twain, Oscar Wilde og Homer, svo einhver séu nefnd.