09. Des. 2020

Breytingar á leikárinu vegna Covid-19 faraldursins

Breytingar á leikárinu vegna Covid-19 

Vegna Covid-19 heimsfaraldursins hefur Þjóðleikhúsið þurft að gera ákveðnar breytingar á leikárinu og nú er orðið ljóst að flytja þarf þrjár frumsýningar til næsta leikárs.

Þjóðleikhúsið kynnti í sumarlok glæsilegt leikár, með metnaðarfullum sýningum á öllum leiksviðum  og ýmsum spennandi nýjungum. Heimsfaraldurinn Covid-19 hefur hins vegar haft mikil áhrif á starfsemi leikhússins, líkt og starfsemi annarra leikhúsa um allan heim. Þær takmarkanir á samkomum það sem af er leikárinu og sem fyrirsjáanlegar eru hafa gert það að verkum að ljóst er að fresta þarf hluta frumsýninga fram á næsta leikár. Þjóðleikhúsið mun þó reyna eftir fremsta megni að sýna þær sýningar sem mögulegt er, og hefur að auki bryddað upp á fjölmörgum skemmtilegum nýjum verkefnum til að létta lund landsmanna á tímum faraldursins.

Í kjölfar þess að yfirvöld kynntu nýja reglugerð sem gildir til 12. janúar og miðað við væntingar um þróun faraldursins í framhaldinu hefur leikhúsið nú enn á ný endurskoðað áætlanir sínar. Eftirfarandi áætlun er gerð á þeim grunni en þó sem fyrr með fyrirvörum vegna ófyrirsjáanleika aðstæðna.

Framúrskarandi vinkona jólafrumsýning leikársins 2021-2022

Frumsýning á stórsýningunni Framúrskarandi vinkonu var fyrirhuguð í október en nú er orðið ljóst að ekki verður unnt að frumsýna þessa viðamiklu sýningu við ríkjandi aðstæður. Æfingar voru komnar vel á veg þegar þurfti að gera hlé á þeim, og hér stefnir greinilega í einstæða og magnaða leiksýningu. Þjóðleikhúsið hefur því ákveðið að Framúrskarandi vinkona hljóti heiðurssess sem jólafrumsýning næsta leikárs.

Jólaboðið á aðventunni 2021-2022

Öll höfum við þurft að endurhugsa skipulag jólaboðanna okkar á þessu ári, og sama gildir um leiksýninguna Jólaboðið sem sýna átti í aðdraganda jóla. Við ríkjandi samkomutakmarkanir gætu varla fleiri en leikararnir tekið þátt í þessu ágæta jólaboði! Þess vegna verðum við bara að láta okkur hlakka til næstu jóla, en sýningin verður frumsýnd í nóvember á næsta leikári.

Frumsýningu á Vertu úlfur flýtt

Þjóðleikhúsið hefur brugðið á það ráð að flýta sýningum á Vertu úlfur, sem frumsýna átti í Kassanum í mars, en sýningin er einleikur og hentar því betur til sýninga en aðrar á tímum samkomutakmarkana, auk þess sem hún talar einkar sterkt til okkar á þeim tímum sem við nú lifum. Til þess að geta betur mætt fjarlægðarmörkum og fjöldatakmörkunum hefur þessi áhrifamikla sýning verið flutt upp á Stóra sviðið. Æfingar eru langt komnar og vonandi verður þess ekki langt að bíða að hægt verði að sýna áhorfendum þessa perlu, en frumsýning er ráðgerð í janúar.

Nýjar frumsýningardagsetningar á  Stóra sviðinu

Frumsýna átti nýtt leikrit Tyrfings Tyrfingssonar, Sjö ævintýri um skömm,  í lok leikársins á Stóra sviðinu, en flytja þarf frumsýningu til næsta hausts. Leiksýningin Nashyrningarnir, sem átti að vera jólafrumsýning Þjóðleikhússins, verður frumsýnd í febrúar, og Rómeó og Júlía verður frumsýnd í aprílmánuði.

Aftur á móti er stefnt að því að frumsýna barnasýninguna Kabát á fyrirhuguðum tíma í febrúar og leiksýninguna Ástu í mars.

Tilbúnar sýningar bíða áhorfenda

Listafólki Þjóðleikhússins tókst að frumsýna þrjár sýningar í byrjun leikárs, Kardemommubæinn, Upphaf og Kópavogskróniku, áður en samkomutakmarkanir voru hertar að nýju. Öllum var þeim vel tekið og bíða leikarar í þeim spenntir eftir að geta mætt áhorfendum að nýju í upphafi næsta árs.

Óskum miða- og kortaeigenda mætt

Þjóðleikhúsið er afar þakklátt áhorfendum sínum fyrir þann skilning sem leikhúsinu hefur verið sýndur á þessum óvenjulegu og krefjandi tímum. Allir miða- og leikhúskortaeigendur eiga tryggða miða á þær sýningar sem þeir höfðu keypt miða á. Við vonum að sem allra flestir geti nýtt sér miða á nýjum dagsetningum en ef það hentar einhverjum gestum ekki eða þeir kjósa að gera breytingar, þá mun starfsfólk leikhússins leggja sig fram um að mæta óskum þeirra. Við hvetjum gesti okkar til að hika ekki við að hafa samband við miðasölu okkar með óskir eða fyrirspurnir.

Ný verkefni til að gleða landsmenn

Þjóðleikhúsið hefur hleypt ýmsum skemmtilegum verkefnum af stokkunum nú þegar ekki er hægt að standa fyrir hefðbundnu sýningarhaldi.

Í samræmi við nýjustu sóttvarnarreglur getur Þjóðleikhúsið nú loks hafið sýningar á tveimur sýningum fyrir leikskóla- og skólahópa sem hafa verið í undirbúningi, annars vegar á Ég get fyrir börn í elstu deildum leikskóla og hins vegar á Leitinni að jólunum fyrir börn í 2. bekk. Einnig verður boðið upp á aðventuskemmtun fyrir fjölskyldur á tröppum Þjóðleikhússins um helgar.

Aðventuvagn Þjóðleikhússins brunar nú á milli dvalarheimila og veitir mikla gleði. Vegna þess hvað verkefnið hefur fengið frábærar viðtökur hefur verið ákveðið að halda út á land með Aðventuvagninn, meðal annars til Akureyrar í samstarfi við MAk. Einnig hefur áhugaleikfélögum víðsvegar um landið verið boðið að flytja skemmtunina í sinni heimabyggð, í samstarfi við Bandalag íslenskra leikfélaga. Í Hljóðleikhúsinu eru ýmis þekkt verk og önnur minna þekkt úr íslenskri leiklistarsögu rifjuð upp á fimmtudagskvöldum. Í Leikhúshlaðvarpinu birtast nú áhugaverðir hlaðvarpsþættir af ýmsu tagi, um leikhúsið, sögu þess og störf leikhúslistafólks.

Jafnframt er unnið að ýmsum verkefnum sem snúa að innra starfi leikhússins og námskeiðahaldi. Nýrri leikhúsbókabúð í endurnýjuðu anddyri hefur verið tekið afar vel og nú er leikhúsáhugafólk í óða önn að festa kaup á gjafakortum til að gleðja vini og vandamenn með á jólum.

Við í Þjóðleikhúsinu hlökkum sannarlega til að sjá ykkur aftur í leikhúsinu og sendum ykkur bestu óskir um gleðilega hátíð!

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími