10. Des. 2020

Yngstu leikhúsgestirnir streyma aftur í Þjóðleikhúsið

Þau ánægjulegu tíðindi hafa nú orðið að leikhúsið hefur loks fengið leyfi til þess að taka á móti takmörkuðumfjölda gesta. Þjóðleikhúsið hefur verið tilbúið með boðssýningar fyrir börn um nokkra hríð, og því ekki eftir neinu að bíða að hefja sýningar! Leikskólabörnum er boðið á sýninguna Ég get og að auki var ákveðið að bjóða skólabörnum á aðventusýninguna Leitina að jólunum sem notið hefur fádæma vinsælda undanfarin fimmtán ár.

Ég get fyrir elstu deildir leikskóla

Þjóðleikhúsið hefur beðið þess frá í haust að geta boðið elstu deildum leikskóla í heimsókn, líkt og gert hefur verið nú í rúman áratug, en ekki hefur getað orðið af sýningum fyrir leikskólahópana fyrr en nú. Heimsóknir barnanna ylja ávallt hjörtum okkar sérstaklega og við hlökkum mikið til að sjá börnin streyma í leikhúsið. Boðið verður upp á sannkallaða leikhúsperlu, Ég get.

Ég get er ljóðræn leiksýning, sem fjallar um það sem er mitt, þitt og okkar. Hér kynnumst við tveimur litlum manneskjum sem eru að æfa sig í því að vinna saman. Þær leika sér saman, prófa sig áfram og komast að því hvað gerist þegar forsendum í leiknum er breytt. Stórskemmtileg leikhúsupplifun fyrir börn sem eru að læra á heiminn en sýningin var tilnefnd til Grímuverðlauna árið 2018. Höfundur er Peter Engkvist, leikstjóri er Björn Ingi Hilmarsson og leikarar eru Ernesto Camilo Aldazábal Valdés og Þórey Birgisdóttir. 

Leitin að jólunum fyrir börn í 2. bekk

Aðventusýning Þjóðleikhússins Leitin að jólunum hefur notið mikilla vinsælda síðastliðin fimmtán ár, en ekki gat orðið af hefðbundnu sýningarhaldi á þessari skemmtilegu sýningu vegna kórónuveirufaraldursins. Í stað þess að fella alfarið niður sýningar ákvað Þjóðleikhúsið að sníða sýninguna sérstaklega að grunnskólahópum, fjölga fyrirhuguðum sýningum umtalsvert og bjóða börnum í 2. bekk grunnskóla á sýninguna.   

Leitin að jólunum eftir Þorvald Þorsteinsson var frumsýnd á aðventunni 2005 og hlaut Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins. Sýningin hefur unnið sér sess sem ómissandi undirbúningur jólanna í hugum margra, og hefur nú verið sýnd fyrir fullu húsi í 15 ár. Sýningar eru orðnar yfir 370 talsins. Nú verður sýningin sýnd á virkum dögum fyrir grunnskólahópa.   

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími