
Ást og upplýsingar

Skemmtilegt og afhjúpandi samtímaverk sem varpar nýju ljósi á kunnuglegar aðstæður, samskipti fólks og fáránleika mannlegrar tilveru.
Í fyrsta sinn setur Þjóðleikhúsið upp leikrit eftir Caryl Churchill, eitt virtasta leikskáld Bretlands. Churchill (f. 1938) er í hópi framsæknustu leikskálda samtímans, og er hún ekki síst þekkt fyrir afar áhugaverðar tilraunir með form og innihald. Churchill hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín, sem gjarnan fjalla um áleitin viðfangsefni úr samtímanum, femínísk málefni, kynjapólitík, vald og misbeitingu þess. Verk hennar hafa verið sett upp í helstu leikhúsum Bretlands og víða um heim.
Í verkinu Ást og upplýsingar, sem hlaut mikið lof þegar það var frumflutt í Royal Court leikhúsinu í London árið 2012, kryfur Caryl Churchill samtíma okkar af óvægni. Hún skoðar með skemmtilegum og frumlegum hætti hina djúpstæðu löngun okkar til að upplifa nánd og vera elskuð, í heimi sem oft og tíðum virðist einmitt koma í veg fyrir einingu. Brugðið er upp skörpum skyndimyndum af mannlífinu, í hjartnæmu, tragísku og fyndnu verki.
Leikritið Ást og upplýsingar hefur þegar verið sett á svið í fjölda uppsetninga, í 22 löndum.
Una Þorleifsdóttir hefur tvívegis hlotið Grímuverðlaunin sem leikstjóri ársins. Auður Ava Ólafsdóttir þýðir og hinn virti austurríski leikmyndahönnuður Daniel Angermayr vinnur í fyrsta sinn hérlendis.
Leikarar
Listrænir stjórnendur





















Aðrir aðstandendur sýningar
Sýningarréttur: Nordiska ApS
Leikritið heitir Love and Information á frummálinu.
Sérlega ánægjuleg kvöldstund í leikhúsi að gera það sem það gerir best
MBL, Þ.T.
Ég var svo ótrúlega ánægð með þessa uppsetningu og finnst mér þetta hafa verið hárréttur hópur með hárrétt verk og á hárréttum tíma!
Allir leikararnir eru svo frábærir gamanleikarar og gefa húmorískum textanum einstakt líf með snilldarlegum tímasetningum sínum.
Þessi hópur leikara er svo gífurlega sterkur og er magnað hvað þau flakka á milli senanna áreynslulaust og holdgervast í skýra en jafnframt marglaga karaktera án nokkurs fyrirvara.
RÚV, E.H.G
Eftir langa bið duttu íslenskir áhorfendur í leikhúslukkupottinn.
Eftirminnileg sýning sem gefur áhorfendum ofgnótt af upplýsingum til að melta og njóta.
Það er dásamlegt að íslenskt leikhús skuli færa okkur verk snillingsins Caryl Churchill núna, betra er seint en aldrei
Ég mætti hafa mörg fleiri orð um þessa sýningu en ég læt þessi nægja – af sannfæringarkrafti: Sjáið þetta!!!
HUGRÁS, D.K.