fbpx
/
Starfsfólk Þjóðleikhússins

Ragnheiður K. Steindórsdóttir

/

Ragnheiður leikur í Shakespeare verður ástfanginn í Þjóðleikhúsinu leikárið 2019-2020.

Ragnheiður Steindórsdóttir hefur leikið fjölda hlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, LR, LA, ýmsum leikhópum sem og í sjónvarpi og útvarpi. Hún hefur verið fastráðin við Þjóðleikhúsið frá árinu 1983.

Ragnheiður lauk prófi frá The Bristol Old Vic Theatre School árið 1975.

Meðal nýlegra verkefna Ragnheiðar í Þjóðleikhúsinu eru Loddarinn, Fjarskaland, Karitas, Fjalla-Eyvindur, Kuggur, Þingkonurnar, Eldraunin, Átta konur, Bakkynjur, Sumarljós, Þrettándakvöld, söngleikurinn Oliver, Hænuungarnir, Vesalingarnir, Dýrin í Hálsaskógi og Leitin að jólunum. Ennfremur lék hún í Segðu mér satt sem var sýnt í samstarfi við Leikfélagið Geirfugl í Þjóðleikhúsinu. Hér hefur hún farið með mörg aðalhlutverk í söngleikjum, til að mynda lék hún Söru Brown í Gæjum og píum, Fantine í Vesalingunum 1987, Nancy í Oliver 1989 og einnig tók hún við hlutverki Goldu í Fiðlaranum á þakinu 1997. Meðal annarra eftirminnilegra hlutverka hennar má nefna Önnu prinsessu í Ríkharði þriðja, Magdalenu í Heimili Vernhörðu Alba, markgreifafrú Merteuil í Háskalegum kynnum, móður Ísbjargar í Ég heiti Ísbjörg Ég er ljón, Maggie í Dansað á haustvöku, þjónustustúlkuna í Blóðbrullaupi, Ratched yfirhjúkrunarkonu í Gaukshreiðrinu og Siddý í Taktu lagið, Lóa! Hún lék Brynju í Í hvítu myrkri, Pútönu í Leitt hún skyldi vera skækja, Farrah í Poppkorni, Fjólu móttökustjóra í Tveimur tvöföldum og ýmis hlutverk í Krítarhringnum í Kákasus. Hún lék Marie-Therese í Ástkonum Picassos, ýmis hlutverk í Antígónu, Sonju í Laufunum í Toscana, Betsý greifafrú og Mösju heitkonu Nikolajs í Önnu Kareninu, saungprófessorynjuna í Strompleiknum, mömmu Jóa í Jóni Oddi og Jóni Bjarna, Gunnhildi Borkmann í Jóni Gabríel Borkmann, ömmu skógarmús í Dýrunum í Hálsaskógi, Louise og Andreu í Edith Piaf og ýmis hlutverk í Halldóri í Hollywood og Túskildingsóperunni.

Ragnheiður lék ýmis hlutverk hjá Leikfélagi Reykjavíkur að loknu námi, meðal annars Lillu í Saumastofunni, Skáld-Rósu í samnefndu verki og Abbie í Undir álminum. Hún lék hlutverk Elísu Doolittle hjá Leikfélagi Akureyrar í My Fair Lady, í Glæsipíum með Alþýðuleikhúsinu, í Fyrirgefðu ehf. með Málamyndahópnum í Tjarnarbíói og í Það sem við gerum í einrúmi á vegum Smartílab í Tjarnarbíói.

Ragnheiður hefur farið með fjölmörg hlutverk í útvarpi og sjónvarpi og lék m.a. aðalkvenhlutverkið í framhaldsmyndaflokknum Út í óvissuna hjá BBC Scotland sjónvarpsstöðinni. Hún fór með hlutverk Auðar í kvikmyndinni Útlaganum. Hún lék í sjónvarpsþáttunum Borgarstjórinn.

/

Sýningar

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er lokuð vegna sumarleyfa til 4. ágúst.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími