Heim
Spennuþrungið og launfyndið nýtt verk eftir eitt af okkar fremstu leikskáldum
Móðirin er nýkomin heim eftir dvöl á heilsuhæli erlendis. Glæsileg veisla er haldin til að fagna heimkomunni. Faðirinn hefur alla þræði fjölskyldunnar í hendi sér – eftir því sem hann best veit – og dóttirin og sonurinn stíga dans á hárfínni línu sem þeim er ætlað að feta sig eftir. En eitthvað er ekki eins og það á að vera. Og ástandið er eldfimt. Voveiflegur atburður varpar skugga yfir fjölskylduna og teygir anga sína langt aftur. Þegar nágrannahjónin Elsa og Ellert banka upp á með öll sín vandamál kárnar gamanið og framundan er löng nótt.
Velkomin á jarðsprengjusvæði fjölskyldunnar!
Gráglettið fjölskyldudrama beint úr íslenskum samtíma um það sem kraumar undir niðri, það sem ekki er sagt, en einnig það sem hefði betur verið látið ósagt. Hrafnhildur Hagalín er eitt okkar virtasta leikskáld, en meðal fyrri verka hennar eru Ég er meistarinn, Hægan Elektra og Sek.
Er einhver nótt nógu löng til að útkljá málin?