Annáll ársins 2023

Ár heimsfrumsýningar á Mayenburg-þríleiknum og fjölda listrænna sigra

Árið 2023 var gott leikhúsár. Leikhúsgestir fjölmenntu í musterið og kunnu vel að meta það sem fyrir augu bar. Ýmsum þótti það djörf ákvörðun að bjóða upp á heimsfrumsýningu á þríleik á glænýjum verkum, eftir  sama leikskáldið, með einungis tveimur eða þremur leikurum á Stóra sviðinu. Nú þegar öll verkin þrjú hafa verið sýnd verður ekki um villst að sýningar á Ellen B., Ex og Ekki málið, eru tímamótaviðburður í íslensku leikhúslífi og einn af hápunktum ársins

En það gerðist fjölmargt fleira. Draumaþjófurinn heillaði gesti unga sem aldna og hlaut titililinn barnasýning ársins. Starfsfólk leikhússins fór í endurmenntunarferð til Barcelona, tilkynnt var um samstarf við Disney, Vesturport og stór norræn leikhús á sýningum á stórsöngleiknum Frosti. Einleikurinn Orð gegn orði sló í gegn og margt margt fleira.

Ellen B
Sýning ársins á Grímuverðlaunum. Leikarar voru Benedikt Erlingsson, Ebba Katrín Finnsdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir. Leikstjóri Benedict Andrews.
EX
Nína Dögg Filipusdóttir fék Grímuverðlaun fyrir leik í aðalhlutverki. Aðrir leikarar: Gísli Örn Garðarsson og Kristín Þóra Haraldsdóttir. Leikstjóri: Benedict Andrews
Ekki málið
Síðasta hluti þríleiksins þar sem Björn Thors og Kirstín Þóra Haraldsdóttir léku undir stjórn höfundarins sjálfs, Mariusar von Mayenburg
Frábærar móttökur
Nafnarnir Benedict Andrews og Benedikt Erlingsson hlutu grímuverðlaun sem leikstjóri og leikari ársins í aukahlutverki, fyrir Ellen B. Nína Dögg Filipusdóttir hlaut grímuna fyrir leik í aðalhlutverki í Ex

Frumsýnt í Kassanum 12. janúar

Hvað sem þið viljið

Leikhópurinn sem tókst á við gamanverk  William Shakespeare, í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, skemmti sér fram úr hófi – og það gerðu áhorfendur einnig. Þetta voru þau Almar Blær Sigurjónsson, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Hilmar Guðjónsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sigurður Sigurjónsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Þórey Birgisdóttir og Kristjana Stefánsdóttir, sem einnig samdi tónlist verksins, . Karl Ágúst Úlfsson þýddi og skrifaði leikgerðina.

Nánar

Úti er ævintýri

Draumaþjófurinn heillaði

Draumaþjófurinn heillaði leikhúsgesti á árinu. Sýningin var valin Barnasýning ársins á Grímunni og leiksýning ársins á Sögum, verðlaunahátíð barna. Þrátt fyrir að sýningum sé nú lokið þá er ekki öll von úti fyrir þau sem vilja sjá. Það er von á henni í Sjónvarpi Símans, en hún cvar tekin upp í samstarfi við Sjónvarp Símans þann 5. nóvember. Stefnt er að því að sýningin verði aðgengileg í sjónvarpsveitu Símans á næstunni.

 

Nánar
/

Frostaveturinn mikli skall á!

Í apríl var tilkynnt um að stórsöngleikurinn Frost yrði sýndur í Þjóðleikhúsinu í samstarfi við Disney,  Vesturport og nokkur stóru leikhúsanna á norðurlöndum. Það var svo opinberað í september að þær Vala Kristín Eiríksdóttir og Hildur Vala Baldursdóttir myndu fara með hlutverk systranna Elsu og Önnu.
Í október var leitað að stúlkum á aldrinum 8-11 ára til þess að fara með hlutverk systranna ungra og fjórar bráðefnilegar leikkonur valdar úr glæsilegum hópi.

Það verður langþráð stund þegar salurinn rökkvast og ævintýrið lifnar við á Stóra sviði Þjóðleikhússins þegar Frost verður frumsýnt í apríl.

Nánar

Faggi fór í ferðalag

Sýning Bjarna Snæbjörnssonar, Grétu Kristínar Ómarsdóttur og Axels Inga, Góðan daginn, faggi, hélt áfram á heilla á árinu. Sýningin hefur nú verið sýnd víða um land, fyrir almenna leikhúsgesti og skólabörn, en nú hélt hópurinn í víking og tók þátt í Fringe festival í Edinburg og sýndi verkið á ensku við góðan orðstír.

 

Nánar

Við skruppum til Barcelona

Starfsfólk Þjóðleikhússins  skellti sér í vinnuferð til Barcelona síðastliðið vor. Þar heimsóttum við kollega okkar og fengum höfðinglegar móttökur. Við skoðuðum meðal annars Þjóðleikhús Katalóníu, höfundaleikhúsið Sala Beckett og Teatre Lliure.
Ferðin var nærandi og lærdómrík og ekki spillti eftirminnileg eiksýning á Carmina Burana hjá leikhópnum La Fura dels Baus í leikhúsinu Teatre Tívoli.
Að sjálfsögðu var ákveðið að nýta tækifærið og halda árshátíð þar syðra sem var einstaklega skemmtileg.

Íslandsklukkan sló með nýjum hljóm

Ein ástsælusta skáldsaga þjóðarinnar, Íslandsklukka Halldórs Laxness, birtist í nýrri útgáfu sem leikarar í leikhópnum Elefant og listamenn Þjóðleikhússins sköpuðu. Sýningin sópaði að sér tilnefningum til Grímuverðlauna Í sýningunni birtust samskipti og átök aðalpersónanna Snæfríðar Íslandssólar, Arnasar Arnæus, Jóns Hreggviðssonar og Magnúsar í Bræðratungu okkur á nýjan og óvæntan hátt.

Leikhópurinn Elefant samanstendur af ungum íslenskum leikurum af blönduðum uppruna. Í gegnum skapandi vinnu með Íslandsklukkuna rannsökuðu þau stöðu sína í samfélaginu út frá Íslandssögunni, þjóðararfinum og menningarlegum uppruna sínum, í samvinnu við Þorleif Örn Arnarsson, einn af helstu leikstjórum Þjóðleikhússins. Hallgrímur Ólafsson hlaut Grímuverðlaun sem leikari í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Jóni Hreggviðssyni.

Nánar
/

Margét Vilhjálmsdóttir snéri aftur í Þjóðleikhúsið

Margrét Vilhjálmsdóttir, leikkona, snéri aftur í Þjóðleikhúsið síðastliðið haust en hún fór með hlutverk Fedru í sýningunni Ást Fedru í leikstjórn Kolfinnu Nikulásdóttur. Verkið sem er eftir Söru Kane, eitt áhrifamesta leikskáld síðari tíma og var frumsýnt í september.

Sýningin fékk lofsamlegar viðtökur en auk Margrétar Sigurbjartur léku í sýningunni þau Sturla Atlason. sem fór með hlutverk Hippolítosar,  Þuríður Blær Jóhannsdóttir sem lék Strófu, Þröstur Leó Gunnarsson sem lék Þeseif og Hallgrímur Ólafsson sem var í hlutverki læknis og prests.

Nánar

Leiksýning í Krónunni á Granda vakti athygli

Gestir Krónunnar á Granda ráku upp stór augu þegar þeim mætti fjöldi manns með heyrnartól að fylgjast með Eggerti Þorleifssyni og Snorra Engilbertssyni að þvælast um verlsunina. Um var að ræða sýningu á verkinu Aspas eftir rúmenska leikskáldið Gianina Cărbunariu, en það var sett upp í samstarfi Þjóðleikhússins, Umheims og Krónunnar. Áhorfendur fylgdust með hljóðheimi verksins í gegnum heyrnartól sem þeir fengu á staðnum, gegn framvísun aðgöngumiða.

Sýningin var fyrsta leikstjórnarverkefni leikkonunnar Guðrúnar S. Gísladóttur. Mörkin milli flytjenda og áhorfenda, leikhúsgesta og neytenda urðu óljós og útkoman var leikhús þar sem allt getur gerst!

Nánar

Við gróðursettum enn fleiri tré

Starfsfólk Þjóðleikhússins  hefur nú undanfarin tvö ár gróðursett tré í Heiðmörk í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Þetta er átaksverkefni starfsfólks og hluti af grænum skrefum leikhússins og viðleitni til að kolefnisjafna starfsemi leikhússins.

Á þessum tveimur árum hefur okkur tekist að setja niður hátt í 10.000 plöntur. ♥️

Verkefnið er okkur bæði ljúft og skylt!

Fullveldiskaffi með eldra starfsfólki festir sig í sessi sem ómissandi hefð

Annað árið í röð buðum við eldri starfsmönnum Þjóðleikhússins í heimsókn í á fullveldisdaginn. Það urðu miklir fagnaðarfundir hjá núverandi starfsmönnum og gömlum vinnufélögum sem mörg hver hafa ekki sést um árabil.

Uppsetning Þjóðleikhússins á Vesalingunum frá árinu 1985 var sérstaklega rifjuð upp og nokkrir leikarar og listrænir stjórnendur sem tóku þátt í sýningunni, skiptust á sögum. Óhætt er að segja að margt skemmtilegt við þessa stórgóðu sýningu hafi verið rifjað upp og stutt var í hláturinn. Ógleymanleg stund.

Lára og Ljónsi tóku Stóra sviðið með trompi

Það var ekkert lát á vinsældum sýningarinnar fallegu, Lára og Ljónsi – jólasaga, sem hefur fært fjölskyldum jólaskapið undanfarin tvö ár. Að þessu sinni var ævintýrið fært á Stóra sviðið og naut sín vel.

Verkið gerist á aðventunni og jólasveinarnir eru farnir að tínast til byggða og gefa börnum í skóinn. En eina nóttina hverfur Ljónsi, uppáhalds mjúkdýrið hennar Láru sem, eins og flestir vita, er enginn venjulegur bangsi. Hvað getur hafa orðið af Ljónsa? Getur verið að hvarf hans tengist jólasveinunum á einhvern hátt?

Nánar

Vertu úlfur fer af sviðinu í sjónvarp allra landsmanna

Sýningin magnaða Vertu úlfur lauk stórfenglegu ferðalagi sínu sem hófst á látlausan hátt í Kassanum en endaði með 114 sýningum á Stóra sviðinu. Áður en yfir lauk var sýningin tekin upp og verður sýnd í jóladagskrá Ríkisútvarpsins.

Nú geta þau sem misstu af þessari mögnuðu leikhúsveislu notið hennar yfir hátíðarnar.

Nánar

Við heimsóttum leikskólabörn víða um land

Á hverju ári býður Þjóðleikhúsið elstu deildum leikskóla í heimsókn. Í ár sáu um 2000 börn leiksýninguna Ég get. Þetta er 15 árið i röð sem Þjóðleikhúsið býður elsta árgangi leikskólabarna á sýningu. Auk þess að sýna í Þjóðleikhúsinu verður farið með sýninguna víðs vegar um landið og leikskólar heimsóttir á landsbyggðinni og vel var tekið á móti listamönnunum.

Nánar

Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins, Rocky Horror frá Leikfélagi Vestmannaeyja

Hefðinni samkvæmt valdi dómnefnd á vegum Þjóðleikhússins áhugaverðustu áhugaleiksýningu ársins. Það var samdóma álit dómnefndar að sýning Leikfélags Vestmannaeyja á Rocky Horror í leikstjórn Árna Grétars Jóhannssonar yrði fyrir valinu í þetta sinn. Sýningin þótti unnin af gríðarlegum metnaði og hvergi slegið af kröfum við uppfærsluna.

Umgjörð sýningarinnar var einföld en áhrifarík og vel tókst að fanga hið hráa andrúmsloft sem verkið er þekkt fyrir. Í umsögninni kom jafnframt fram að sköpunargleði hvers og eins sem að sýningunni kom hefði skinið í gegn. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem sýning Leikfélags Vestmannaeyja er valin áhugasýning ársins.

Nánar

Nokkur augnablik um nótt í sjónvarpið

Þjóðleikhúsið frumsýndi nokkur augnablik um nótt haustið 2022, glænýtt, kraftmikið verk eftir Adolf Smára Unnarsson. Ólafur Egill Egilsson leikstýrði en leikarar voru Björn Thors, Ebba Katrín Finnsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir.

Í kjölfar sýninga var ákveðið að ráðast í sjónvarpsútgáfu verksins. Fljótlega verða Nokkur augnablik um nótt aðgengileg sem sjónvarpsefni.

Nánar

Við kynntum nýja og byltingarkennda áskriftarleið fyrir ungt fólk

Þjóðleikhúsið kynnti glænýja áskriftarleið fyrir ungt fólk á aldrinum 15 – 25 ára sem veitir þeim aðgang að öllum sýningum leikhússins á leikárinu, eins oft og hver vill á mun lægra verði en áður hefur þekkst í leikhúsum hérlendis. Um er að ræða áskriftarform í ætt við þá sem þekkist hjá Spotify, Netflix, Storytel og sambærilegum veitum þar sem greitt er mánaðargjald gegn ótakmarkaðri notkun. Verðinu er mjög stillt í hóf, en fyrir aðeins 1.450 kr. á mánuði býðst ungu fólki að sjá allar sýningar leikhússins eins og oft og það kýs.

 

Nánar

Mútta Courage birtist okkur ljóslifandi á Stóra sviðinu

Þetta magnþrungna leikrit Bertolts Brechts og Margarete Steffin um eyðingarmátt stríðsins, kapítalismann og sjálfsbjargarviðleitni einstaklinganna talar nú til okkar af endurnýjuðum krafti. Leikritið fjallar um ólíkindatólið Múttu Courage sem ferðast um í stríðshrjáðri Evrópu með söluvagn sinn. Hún hefur lifibrauð sitt af því að selja hernum varning og einsetur sér að komast af ásamt stálpuðum börnum sínum þremur. Mútta Courage er hörkutól, kjaftfor og fyndin, sölumaður af guðs náð, en sú spurning verður sífellt ágengari hver sé í rauninni að græða.

Í sýningunni hljómar ný tónlist eftir Valgeir Sigurðsson og Helga Hrafn Jónsson.

Orð gegn orði sló í gegn í Kassanum

Sýningi Orð gegn orði hefur heldur betur vakið athygli. Frá frumsýningu hennar 17. nóvember síðastliðinn hafa gestir og gagnrýnendur keppst við að hlaða hana lofi. Það er ekki síst fyrir frammistöðu leikkonunnar Ebbu Katrínar Finnsdóttur sem gestir hrifist með.

En stundum gengur bara allt upp og virkar saman. Listrænir stjórnendur hafa skapað magnaða sýningu undir stjórn Þóru Karítasar; sýningu sem hreyfir við áhorfendum og hvetur til umræðna. Verkið er einleikur, skrifað af leikskáldinu Suzie Miller, fyrrum lögmanni, sem einsetti sér að nýta sína eigin reynslu til þess að rannsaka veikleika réttarkerfisins í kynferðisbrotamálum.

 

Nánar

EDDA – síðasta frumsýning ársins

Þorleifur Örn og samstarfsfólk hans sló lokatóninn á árinu. Hér nálgast þau hugmyndaheim goðafræðinnar í Eddu á nýstárlegan, frjóan og ögrandi hátt, og fjalla um knýjandi spurningar samtímans. Átök guða, manna og annarra afla sem stjórna heiminum, sköpun heimsins og endalok hans, birtast okkur hér í stórsýningu þar sem í brennidepli er samband okkar við náttúruna.

Hugmyndaauðgi, sprengikraftur og sterk, myndræn sýn einkenna sýningar Þorleifs Arnar, líkt og stórsýningarnar Rómeó og Júlíu, Njálu og Engla alheimsins, og hér heldur hann áfram að víkka út möguleika leikhússins með stórum hópi leikara og annarra leikhúslistamanna.

Nánar

Hádegisleikhúsið endurvakið

Hádegisleikhúsið hélt áfram göngu sinni. Verkið, bráðfyndið nýtt verk eftir Jón Gnarr var sýnt í septmber og október.  Þar fóru Gói og Pálmi Gests á kostum í hlutverki tveggja manna sem hafa verk að vinna. Þeir hafa unnið svo lengi saman að þeir gerþekkja hvor annan. Eða hvað? Einstaklega skemmtilegur gamanleikur sem kemur á óvart.

 

Nánar

Við héldum pólska menningarhátíð

Dagana 7. – 11. júní var haldin pólsk menningarhátíð í samstarfi  Þjóðleikhússins og Teatr im Stefan Żeromski leikhússins í Kielce í Póllandi. Sýnd var ein af mögnuðustu leiksýningum Stefan Żeromski leikhússins á Stóra sviði Þjóðleikhússins, haldin var opin vinnustofa um þær aðferðir sviðslistanna sem byggðar eru á þjóðlegum pólskum arfi og menningu og Paweł Sablik dramatúrg hélt fyrirlestur um pólskan þjóðararf og birtingarmyndir hans í pólsku leikhúsi.

Samstarfsleikhús Þjóðleikhússins í Póllandi, Stefan Żeromski leikhúsið, færðiokkur eina af sínum mögnuðustu leiksýningum, Gróskan í grasinu (Wiosenna bujność traw).

Nánar

Stressið með Stínu sló í gegn

Kristín Þóra Haraldsdóttir tók stökkið í uppistandslaugina og lenti glæsilega og hefur ekki slakaða á sundtökunum síðan. Sýningin hennar, Á rauðu ljósi, sló rækilega í gegn og starfsfólk leikhússins hafði varla undan að bæta við sýningum. Það sem upphaflega átti að vera 1-2 kvöldstundir er nú orðið að einni vinsælustu sýningunni í Kjallaranum.

Nánar

Kabarettinn kætti hressti og bætti

Margrét Erla Mack hefur leitt Kabarettinn á föstudagskvöldum við góðan orðstír. Fjöldi listafólks hefur komið fram á þessum skemmtunum þar sem einkunnarorðin eru „heitt og sveitt.“

Um leið og sýningu á Stóra sviðinu lýkur spretta næturlífsnautnaseggirnir fram í Leikhúskjallaranum. Burlesque, kabarett, sirkus, drag og „alls konar fullorðins“ fyrir fólk sem hlær hátt! Allar eru sýningarnar ólíkar og yfir fjörutíu listamenn víðsvegar að koma fram yfir veturinn. Vinsamlega athugið að sýningin er stranglega bönnuð börnum og hentar ekki þeim sem óttast undur mannslíkamans.

Nánar

Byltingarsinnar hertóku Kjallarann

Listamanna- og aktavistahópurinn R.E.C. Arts Reykjavík hertók Kjallarinn tvö kvöld á þessu hausti og bauð upp á „gjörningaveislur“ sem sýndu gnægð fjölbreyttra atvinnulistamanna sem búa á Íslandi. „House of Revolution“ var sannkallaður menningakokteill sem endurspeglaði hina ótal mörgu, fögru óseðu króka og kima íslensks samfélags.

Eftir áramótin verður boðið upp á tvö kvöld í viðbót. Þar geta áhorfendur upplifað enstakan og fjölbreyttan listaflutning, þar á meðal má nefna: lifandi tónlist, uppistand, dragsýningar, söngleik, slam-ljóð, danshópa, burlesque, spuna, söguflutningakeppni; allt er þetta flutt af listamönnum af minnihlutahópum og samfélögum (fólk af lit, LGBTQIA+, fatlað fólk, innflytjendur, flóttamenn osfrv.)

Nánar

Þráðurinn var spunninn áfram af listfengi

Improv Ísland hefur fyrir margt löngu bitið sig fast á miðvikudagskvöld í Kjallaranum og það er vel. Fyrir mörgum er vikan hvorki fugl né fiskur ef þau ná ekki að sjá a.m.k. eina sýningu í mánuði. Enda er engin sýning eins og alltaf eitthvað spennandi sem kemur upp á.

Improv Ísland hefur kitlað hláturtaugar áhorfenda í Kjallaranum frá árinu 2016 Um 20 spunaleikarar skiptast á að sýna ólík spunaform í hverri viku, ásamt þjóðþekktum gestum.

Nánar
Jólakveðja Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Það er kannski við hæfi að ljúka þessu ári á sama hátt og við lukum árinu 2020, með fallegri kveðju okkar og Sinfó. Við hlökkum mikið til að fá að hitta ykkur í leikhúsinu.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími