Jólagjöf Skruggu
Leikhúsálfarnir eru komnir í jólaskap!
Leikhúsálfarnir Bergrós og Bergsteinn hafa verið að skottast um Þjóðleikhúsbygginguna allt frá því að leikhúsið var opnað um miðja síðustu öld. Þau hafa fylgst með æfingum, horft á leiksýningar, leikið sér með búninga og leikmuni og heillast af töfrum leikhússins. Nú loksins eru þau tilbúin til að sýna sína eigin leiksýningu!
Skynvænt sýningarhald
Laugardaginn 6. desember kl. 15:00 verður skynvæn sýning á Jólagjöf Skruggu.
Til frekari upplýsinga:
Skynvænt sýningarhald Sjónrænn söguþráður
Jólagjöf Skruggu er tilbrigði við mörg heimskunn jólaævintýri um leið og það er algerlega okkar eigið og ég spái því gifturíkri framtíð.
TMM, SA
Myndbönd
“Hlýtt í hjartað … mikið augnayndi … umtalsverðir töfrar … hugljúf lítil sýning fyrir yngstu leikhúsunnendurna og fylgdarfólk þeirra. … Sniðug og snörp, fallega unnin og útlítandi.”
Mbl., ÞT.
Jólagleði fyrir alla fjölskylduna
Jólaævintýri leikhúsálfanna er fyndið og fjörugt, en ekki síður spennandi. Það gerist á aðventunni í eldgamla daga. Villuráfandi barn hyggst leita skjóls á sveitabæ einum en heppnin er sannarlega ekki með barninu, því að á bænum ræður hún Skrugga ríkjum, og hún er skelfilega nísk, geðvond og illskeytt. Úti geisar stórhríð og jólakötturinn sveimar soltinn um. Eitthvað verður að gera til að bjarga barninu, færa því ljós og yl, gleði og kærleika, og hleypa hinum sanna jólaanda inn í híbýli Skruggu – og hjarta!
Skemmtileg og fjörug sýning fyrir alla fjölskylduna um kærleiksboðskap jólanna og barnið innra með okkur öllum.
Saga leikhúsálfanna:
Bergrós og Bergsteinn setjast að í Þjóðleikhúsinu
Einu sinni fyrir langa löngu voru tveir álfar. Þau hétu BERGRÓS og BERGSTEINN og voru afskaplega góðir vinir. Álfakletturinn þeirra var í STUÐLABERGI. Í kringum álfaklettinn voru margir litríkir STEINAR og þar uxu falleg BLÓM.
Einn bjartan vordag árið 1950 ákváðu Bergrós og Bergsteinn að gægjast út fyrir álfabyggðina sína. Þau fóru út að leika sér og sulla í læknum sem rann skammt hjá. Við lækinn stóð bóndabær og þar bjó bóndakona sem var fræg um allt Ísland fyrir kökurnar sem hún bakaði. Þetta voru risastórar kökur, skrautlegar og gómsætar.
Bergrós og Bergsteinn fylgdust með konunni hlaða fjölmörgum kökuboxum inn í jeppann sinn. „Hvað ætlar hún að gera við allar þessar kökur?“ hvíslaði Bergsteinn að Bergrós. Þau fengu fljótt svar við spurningu sinni. Konan hrópaði til ömmustelpunnar sinnar að hún þyrfti að fara með kökurnar til Reykjavíkur. „Forsetinn sjálfur bað mig að koma með þessar kökur í nýju ÁLFAHÖLLINA fyrir sunnan. Þar á að halda glæsilega veislu.“
Nú urðu Bergrós og Bergsteinn forvitin. „Komum“, sagði Bergrós, „við verðum að sjá þessa nýju álfahöll!“ Hún greip í vin sinn og togaði hann með sér. Bergrós var ákveðin í að laumast inn í jeppann og koma sér fyrir aftan í honum.
Hún vissi að þar sem þau Bergsteinn væru álfar væru þau mjög líklega ÓSÝNILEG bóndakonunni. En þá mundi hún eftir ömmustelpunni og því að BÖRN geta oft séð álfa. „Felum okkur!“ hrópaði hún til Bergsteins. Bergsteinn og Bergrós rúlluðu sér eftir túninu til að fela sig fyrir barninu, og þau gátu rétt svo skotist inn í jeppann áður en hann keyrði af stað.
Bergrós, Bergsteinn og allar kökurnar hossuðust lengi í jeppanum. En loksins bremsaði jeppinn harkalega og bóndakonan sagði stundarhátt við sjálfa sig: „Jæja, svo þetta er þá Þjóðleikhúsið.“
Bergrós sperrti eyrun og hvíslaði: „Leikhús? Hvað er nú það?“
Bóndakonan opnaði afturdyrnar á jeppanum og byrjaði að bera út kökuboxin og álfarnir stukku út. Þau voru hissa að sjá bíla, ljósastaura og stórar byggingar.
En það sem vakti mesta undrun þeirra var að sjá fullt af spariklæddu fólki, karlmenn í kjólfötum með hatt, og konur í kjól með pels á öxlum. Fólkið virtist vera bæði spennt og glatt og streymdi inn í risastórt hús. Húsið var dökkt á litinn og þakið örlitlum smásteinum. Bergsteini fannst það vera eins og klettur.
„Er þetta kannski nýja álfahöllin?“ sagði hann við Bergrós.
„Komum og skoðum betur!“ svaraði hún spennt.
Þau smeygðu sér inn um dyrnar með öllu prúðbúna og glaða fólkinu.
Álfarnir fylgdu fólkinu inn í risastóran sal með mörgum stólum. Á stólunum voru myndir af tveimur grímum, einni sem var að gráta og annarri sem hló.
Við enda salarins var LEIKSVIÐ og fyrir því stór rauð tjöld.
Bergrós leit upp í loftið í salnum og varð starsýnt á skrautið í loftinu: „Bergsteinn! Sjáðu! Þetta er eins og stuðlabergið heima í álfaklettinum okkar!“
Bergrós og Bergsteinn vissu það ekki þá, en þetta var hárrétt hjá þeim.
Maðurinn sem hannaði Þjóðleikhúsið vildi að það liti út eins og álfahöll, það væri eins og stór álfaklettur að utan, en inni væri ævintýraheimur.
Fyrst var leikin tónlist og svo voru haldnar ræður. En skyndilega slökkti einhver ljósin. Það fannst Bergsteini skrýtið. Stóru rauðu tjöldin voru dregin frá og á sviðinu birtist fólk í glæsilegum búningum. Þetta voru LEIKARAR að leika sögu um fólk á bóndabæ í gamla daga og ÁLFA.
Álfarnir á sviðinu voru ólíkir öllu sem Bergsteinn og Bergrós höfðu áður séð. Sumir voru í ljósum og léttum silkikjólum og með slæður. Sumir álfarnir voru jafnvel með kórónu.
Bergrós og Bergsteinn lifðu sig inn í söguna í leikritinu og fóru meira að segja að HLÆJA og GRÁTA alveg eins og grímurnar á stólunum.
Þegar leiksýningunni var lokið byrjaði allt fólkið að KLAPPA og leikararnir hneigðu sig. Bergrós og Bergsteinn skildu nú allt saman. Þau höfðu séð leiksýningu í fyrsta sinn.
„Bergsteinn, mig langar að búa hér,“ sagði Bergrós.
Bergsteinn var svolítið hissa en fann í hjartanu að hugmyndin var spennandi. „Já við skulum flytja hingað strax í dag,“ sagði hann. „Við skulum kynna okkur hvernig leikhúsfólk býr til svona sýningu.“
„LEIKHÚSFÓLK? Þú segir nokkuð. Eigum við þá kannski að verða LEIKHÚSÁLFAR?“ spurði Bergrós með stjörnur í augunum.
Allt frá þessum örlagaríka degi hafa Bergsteinn og Bergrós búið í Þjóðleikhúsinu, horft á allar leiksýningar sem hér hafa verið sviðsettar og fylgst með fólkinu sem býr þær til.
Þau verða alltaf rosalega glöð þegar kátir krakkar koma í heimsókn í leikhúsið þeirra, og þeim finnst sérstaklega gaman á BARNASÝNINGUM.
Eftir að hafa búið í Þjóðleikhúsinu í 75 ár finnst Bergrós og Bergsteini þau hafa lært ýmislegt um leikhúsið. Þau eru tilbúin til að setja á svið sína eigin leiksýningu. Og nú fáið þið að sjá hana!
Verið þið hjartanlega velkomin. Góða skemmtun!
Söngur leikhúsálfanna
Þjóðleikhúsið er ótrúleg álfahöll
Allt getur gerst þegar leikarar bregða á leik.
Þá lifna á sviðinu margskonar ævintýr.
Drottningar, prinsessur, konungar fara á kreik,
og kaupmenn og ræningjar, nornir og alls kyns dýr.
Á sviðinu leikarar standa – til stuðnings þeim,
er stór hópur fólks bak við tjöldin sem skapar saman
með búningum, leikmynd og lýsingu töfraheim,
leikstýrir, skrifar – og málar leikara í framan.
Þjóðleikhúsið er ótrúleg álfahöll.
Ævintýr gerast hérna, því megið þið trúa.
Verið ávallt velkomin hingað öll.
Við erum leikhúsálfar sem hérna búa.
Já, Þjóðleikhúsið er ótrúleg álfahöll.
Ævintýr gerast hérna, því megið þið trúa.
Verið ávallt velkomin hingað öll.
Við erum leikhúsálfar sem hérna búa.
Leikarar
Höfundar
Listrænir stjórnendur
Aðrir aðstandendur
Starfsfólk á sýningum
Annað starfsfólk við sýninguna
Gamlar myndir
Myndir af leikhúsálfunum eru settar inn á gamlar myndir. Annars vegar eru myndir eftir Sigurhans Vigni úr safni Þjóðleikhússins, teknar við vígslu Þjóðleikhússins þann 20. apríl árið 1950 og við undirbúning hennar (Sigfús Halldórsson), auk mynda úr vígslusýningunni Nýársnóttinni (1950) og Kardemommubænum (Ævar Kvaran, Bessi Bjarnason og Baldvin Halldórsson, 1960). Hins vegar eru stillur úr heimildamynd Óskars Gíslasonar, Vígsla Þjóðleikhússins, frá árinu 1950.
Ljósmyndir eftir Sigurhans Vigni eru í vörslu Ljósmyndasafns Reykjavíkur, Ljósmyndasafns Íslands og Þjóðleikhússins.
Heimildamyndin Vígsla Þjóðleikhússins er í varðveislu Kvikmyndasafns Íslands, og hana er hægt að sjá hér.
Sérstakar þakkir
Borgarsögusafn Reykjavíkur, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Kvikmyndasafn Íslands, Augastaður.
Tónlist
Tónlistin í sýningunni er eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson en einnig eru flutt brot úr ýmsum jólalögum.