


Aðventusýning Þjóðleikhússins Leitin að jólunum hefur notið mikilla vinsælda síðastliðin fimmtán ár, en ekki gat orðið af hefðbundnu sýningarhaldi á þessari skemmtilegu sýningu árið 2020 vegna kórónuveirufaraldursins. Í stað þess að fella alfarið niður sýningar ákvað Þjóðleikhúsið að sníða sýninguna sérstaklega að grunnskólahópum, fjölga fyrirhuguðum sýningum umtalsvert og bjóða börnum í 2. bekk grunnskóla á sýninguna.
Tveir skrýtnir og skemmtilegir náungar taka á móti litlum leikhúsgestum í anddyri Þjóðleikhússins. Með þeim í för eru tveir hljóðfæraleikarar og þessi fjörugi hópur leiðir börnin með leik og söng um leikhúsið. Börnin ferðast inn í ævintýraveröld jólanna og sjá leikþætti um jólin í gamla daga og á okkar tímum. Sönglög Árna Egilssonar við Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum fléttast inn í ævintýrið.













