Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag
Ef þú gætir ferðast hvert sem er, fram eða aftur í tíma, – hvert myndirðu fara? Myndir þú reyna að hafa áhrif á fortíðina eða viltu kannski skoða framtíðina? Viltu eignast gæludýr sem er grameðla, reyna að bjarga einhverjum úr fortíðinni eða skjótast út í geim eftir hundrað ár? Valið er þitt!
Þitt eigið leikrit er alveg ný tegund af leikhúsi. Við höldum af stað í æsispennandi ferð um rúm og tíma og áhorfendur stjórna atburðarásinni með sérhönnuðum fjarstýringum. Enginn veit hvert við förum, því engar tvær sýningar eru eins. Sýningin var frumsýnd á síðasta leikári, hlaut frábærar viðtökur og var tilnefnd til Grímunnar.