24. Okt. 2025

Áfram stelpur! í Þjóðleikhúsinu

Í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá því að íslenskar konur breyttu sögunni með því að taka sér frí frá störfum 24. október 1975, verður platan Áfram stelpur! flutt í heild sinni í Þjóðleikhúskjallaranum og sagan rifjuð upp.

Platan var gefin út í kjölfar þess að nokkrar leikkonur í sýningunni Ertu nú ánægð, kerling, sem frumsýnd var í Þjóðleikhúskjallaranum árið 1974 ákváðu að gefa út plötu í tilefni af Kvennaári Sameinuðu þjóðanna 1975. Þátttakendur í dagskránni eru að hluta til leikkonur sem sungu inn á plötuna á sínum tíma. Yngri leikkonur taka svo upp merkið og flytja með þeim eldri lögin af plötunni og segja okkur þessa merkilegu sögu sem ekki má gleymast. Tvær sýningar voru settar á dagskrá og seldust strax upp, s.l. þriðjudag og sérstök hátíðarsýning í kvöld, á 50 ára afmæli kvennafrídagsins.

Þjóðleikhúsið óskar öllum konum og kvárum hjartanlega til hamingju með daginn!

Áfram stelpur!

Mynd úr sýningunni Ertu nú ánægð kerling í Þjóðleikhúskjallaranum árið 1974.

 

Í tilefni dagsins má nefna að Þjóðleikhúsið hefur á undanförnum árum lagt sérstaka áherslu á að veita listakonum ný tækifæri sem höfundar, listrænir stjórnendur og leikarar, og gefið sögum kvenna sérstakan gaum.

Af nýlegum verkum eftir konur með kvenpersónur í forgrunni má nefna Þetta er gjöf eftir Kolbrúnu Björt Sigfúsdóttur, söngleikinn Storm eftir Unu Torfadóttur og Unni Ösp Stefánsdóttur, Á rauðu ljósi eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur, Heim eftir Hrafnhildi Hagalín, Taktu flugið beibí eftir Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur, Saknaðarilm eftir Unni Ösp Stefánsdóttur og Elísabetu Jökulsdóttur og Orð gegn orði eftir Suzie Miller. Lína Langsokkur eftir Astrid Lindgren er barnasýning leikársins á Stóra sviðinu, en hin sjálfstæða, ofursterka og óhrædda Lína ögrar sannarlega fyrirfram gefnum hugmyndum um staðalímyndir kynjanna og er í huga margra táknmynd fyrir valdeflingu stúlkna. Salka – ástin og dauðinn er ný leikgerð eftir Unni Ösp Stefánsdóttur sem frumsýnd verður í Landnámssetrinu á leikárinu í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Jafnframt setur Raddbandið upp leikhústónleikasýninguna Jólin á suðupunkti um líf þriggja nútímamæðra.

Kvennaár 2025

 

 

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum. Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið virka daga frá kl. 9 og frá kl. 12 um helgar og fram að sýningu.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími