![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/11/gullas_arid_2024.png)
Annáll ársins 2024
Árið sem leikhúsgestir fjölmenntu svo um munaði í Þjóðleikhúsið
Árið 2024 var einstaklega fjölbreytt og skemmtilegt leikhúsár í Þjóðleikhúsinu og fjöldi áhorfenda hefur ekki verið meiri í mörg ár. Frost sló gegn, Saknaðarilmur sópaði til sín verðlaunum, Eltum veðrið var loksins frumsýnt og Vertu úlfur skrapp í leikferð til Póllands svo fátt eitt sé nefnt.
Um leið og við þökkum ykkur kærlega fyrir samfylgdina á árinu sem nú kveður, vonumst við svo sannarlega til þess að sjá ykkur á næsta ári, sem verður einnig magnað leikhúsár: 2025!
![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/tröppur-20x13.png)
Einleikir voru áberandi á árinu
Orð gegn orði fór með himimskautum og beint á Stóra sviðið
Sýningin Orð gegn orði var frumsýnd í nóvember 2023. Snemma á þessu ári, í ljósi mikillar eftirspurnar, var sú ákvörðun verið tekin að færa sýninguna á Stóra sviðið. Sýning Þóru Karítasar Árnadóttur hreyfði rækilega við leikhúsgestum og Ebba Katrín Finnsódttir fékk einróma lof fyrir magnaða frammistöðu.
Réttu ári eftir frumsýningu, um miðjan nóvember síðastliðinn, kvaddi Orð gegn orði fyrir fullu húsi. Alls sá hana um tólf þúsund leikhúsgestir og sýningarnar urðu alls 63. Það er ekki sjálfgefið að einleikur nái slíku flugi og að þess háttar verk tali jafn sterkt til áhorfenda og raun ber vitni.
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/annall_grunnur_2Ord-20x13.png)
Goðsögurnar tala til okkar
Edda braut blað í sögu leikhússins
Leiksýningin Edda var frumsýnd á annan dag jóla á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Sýningin fékk lofsamlega dóma hjá gagnrýnendum og eitt af því sem nefnt var sérstaklega var lýsing Ástu Jónínu Arnardóttur sem átti heiðurinn af henni. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem kona hannaði lýsingu fyrir sýningu á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Tími til kominn myndi einhver segja. Ásta hefur fengist við fjölbreytileg verkefni í leikhúsinu en hún segir það hafa verið hálfgerðan misskilning sem hafi orðið til þess að hún fór að fást við lýsingahönnun.
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Edda-20x13.png)
Sýning ársins snerti okkur öll
Saknaðarilmur frumsýndur í Kassanum. Einstakar viðtökur við stórkostlegri sýningu
Sýningin Saknaðarilmur var frumsýnd í febrúar og hefur verið sýnd fyrir fullu húsi síðan. Alls hafa um sjö þúsund gestir séð sýninguna sem Unnur hefur leikið tæplega 60 sinnum þegar þetta er rita. Vrkið skrifaði hún upp úr bókum Elísabetar Jökulsdóttur, Aprílsólarkulda og Saknaðarilmi. Leikstjóri er Björn Thors, en skemmst er að minnast einstakra viðtaka á verkinu Vertu úllfur, þar sem hlutverk hjónanna var á hinn veginn, þeas. Björn lék og Unnur leikstýrði.
Saknaðarilmur fékk fjórar Grímur, var valin sýning ársins og leikrit ársins, Unnur Ösp var leikkona ársins, og Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson fengu verðlaun fyrir tónlistina.
Nánar
![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/annall_grunnur_2sakn-20x13.png)
Úti er ævintýri!
Áhorfendur á öllum aldri elskuðu Frost
Það hlaut að koma að því. Eftir 100 uppseldar sýningar og meira en 50 þúsund gesti, styttist í að stórsöngleikurinn Frost kveðji Stóra sviðið. Það er auðvitað engin leið að hætta og aukasýningum hefur verið bætt við í janúar til þess að mæta eftirspurn.
En áhöfnin á frystitogaranum sem hefur staðið saman frá því í febrúar, rær nú á önnur mið. Enda nóg framundan í Þjóðleikhúsinu.
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Frost-20x13.png)
Tilkynnt um glænýjan og spennandi söngleik
Unnur Ösp og Una Torfa sneru bökum saman
Í febrúar bárust fréttur af því að nýr íslenskur söngleikur væri að fæðast. Unnur Ösp Stefándsóttir og Una Torfadóttir voru söngleikinn en öll tónlist er eftir Unu. Unnur Ösp leikstýrir og Una mun fara með eitt aðalhlutverka í sýningunni sem hefur fengið nafnið Stormur. Söngleikurinn fjallar um ungt fólk á tímamótum menntaskólaáranna, óttann við framtíðina, þrána eftir ástinni og leitina að okkur sjálfum.
Nú styttist í að söngleikurinn verði frumsýndur og forsala hefst innan skamms.
Nánar
![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/stormur-20x13.png)
![/](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Stormur_2000x1000_An-titils-20x10.jpg)
Sýningar Þjóðleikhússins atkvæðamiklar á Grímunni
Saknaðarilmur valin sýning ársins
Á uppskeruhátíð Sviðlistasambands Íslands, Grímunni, hlutu sýningar Þjóðleikhússins alls níu Grímuverðlaun. Saknaðarilmur fékk fjórar Grímur, var valin sýning ársins og leikrit ársins, Unnur Ösp var leikkona ársins, og Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson fengu verðlaun fyrir tónlistina.
Ást Fedru fékk einnig fjórar Grímur. Þröstur Leó fyrir leik í aukahlutverki, Ásta Jónína Arnardóttir fyrir lýsingu, Kristján Sigmundur Einarsson fyrir hljóðmynd og Filippía I. Elísdóttir fyrir búninga. Þá fékk Vigdís Hrefna Pálsdóttir Grimu fyrir leik sinn í sýningunni Mútta Courage. Sýningar Þjóðleikhússins fengu alls 29 tilnefningar til Grímuverðlauna.
Nánar
![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/griman-20x13.png)
![/](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/I9A7093-20x13.jpg)
Ef ég væri ríkur …
Áhugaleiksýning ársins 2024 kom frá Ísafirði
Sýning Litla leikklúbbsins á Ísafirði á Fiðlaranum á þakinu var valin áhugaverðasta áhugaleiksýning ársins.Þetta var jafnframt í þrítugasta og annað sinn sem Þjóðleikhúsið stóð fyrir vali á áhugaleiksýningu ársins. Að þessu sinni sóttu alls tíu leikfélög um að koma til greina við valið með ellefu sýningar. Formaður dómnefndar var Vala Fannell, en með henni í dómnefnd sátu leikararnir Örn Árnason og Björn Thors.
Litla leikklúbbnum var vel að valinu kominn og fullt var út úr dyrum þegar sýningin var sett upp á Stóra sviði Þjóðleikhússins í júní.
![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Fidlarinn-1-20x13.png)
Glæný og ögrandi ópera um stúlku með verkstol og drottningu sem leiðist
Óperan hundrað þúsund vakti verðskuldaða athygli
Leikhópurinn Svartur jakki setti upp kammeróperuna Óperuna hundrað þúsund í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Óperan fjallar um molana sem hrynja af svignandi borðum, detta í gólfið og eru fljótlega ryksugaðir. Höfundar Óperunnar hundrað þúsund eru Þórunn Gréta Sigurðardóttir sem samdi tónlistina og Kristín Eiríksdóttir sem skrifaði librettóið eða óperutextann.
Óperan hundrað þúsund fékk glimrandi dóma og vakti mikla athygli fyrir ferska og spennandi nálgun.
Nánar
![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/hundrad_thusund-1-20x13.png)
Ár spennandi nýjunga og nýrra tækifæra
Nýr leikhússkóli hóf göngu sína
Nýi leikhússkólinn okkar hefur gengið afar vel á fyrsta starfsárinu. Kennsla hófst í byrjun september og nemendur eru 19 talsins. Vala Fannell stýrir skólanum og er aðalkennari en meðal annarra sem hafa kennt nemendum eru Matthías Tryggvi Haraldsson, Filippía I. Elísdóttir, Björn Bergsteinn, Brett Smith og Ilmur Stefánsdóttir.
Nemendurnir hafa að auki heimsótt allar deildir hússins og verið hluti af starfseminni, sótt æfingar, samlestra, leikmynda- og búningakynningar og sýningar, og tekið þátt í vinnustofu. Fram undan er áframhaldandi nám og í febrúar hefst undirbúningur nemenda við lokasýningu hópsins í júní. Hún mun samanstanda af fjórum 30 mín. verkum sem nemendur semja sjálfir, leikstýra og sinna allri hönnun, undir handleiðslu og listrænu eftirliti Völu.
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/leikhússkóli-e1734359728786-20x13.png)
Gestasýning frá vinum okkar í Kielce
Pólverjar fylltu leikhúsið
Samstarfsleikhús Þjóðleikhússins í Póllandi, Stefan Żeromski leikhúsið, sýndi gestasýningu á Stóra sviðinu þann 5. september. Leikverkið, Sjóndeildarhringurinn byggir á semnefndri pólskri skáldsögu sem allir Pólverjar þekkja og er þeim kær. Meðal leikara í sýningunni voru Tomasz Kot, einn þekktasti leikari Pólverja sem lék meðal annars í kvikmyndinni Cold War sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna. Sýningin var textuð á íslensku og ensku en lang stærsti hluti áhorfenda var af póslsku bergi.
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Sjondeildarhringur-e1734603763602-20x13.png)
Múrarnir falla einn af öðrum
Kolbrún Dögg sveif vængjum þöndum
Þjóðleikhúsið frumsýndi glænýtt íslenskt leikverk eftir Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur í september. Kolbrún hefur um árabil lifað með líkamlegri skerðingu sem hefur ágerst með aldrinum. Í verkinu taktu flugið, beibí! sagði hún sína eigin sögu og leiddi áhorfendur í gegnum sitt eigið lífshlaup. Verkið fjallar um baráttu fyrir framtíð, sjálfstæði og réttindum, og leit að ást og tengslum. Taktu flugið, beibí er einstök saga sem á erindi við okkur öll, saga um framtíðardrauma, ást, fjölskylduna, baráttu og sigra. Kolbrún hefur lokið námi af sviðshöfundabraut LHÍ og meistaranámi í ritlist við HÍ. Taktu flguið var jafnframt fyrsta leikverk hennar sem sett er á svið í atvinnuleikhúsi.
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Taktu-flugid-e1734603810863-20x13.png)
Fimmtudagar eru fyndnustu dagarnir!
Nýtt og spennandi í Kjallaranum
Grínkjallarinn hóf göngu sína í haust. Nýr uppistandshópur tók yfir fimmtudagskvöldin í Kjallaranum en hópinn skipa þau Hugleikur Dagsson, Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, Stefán Ingvar Vigfússon og Þórdís Nadia Semichat. Fjórmenningarnari eru svokallaðir grínstjórar en þau skiptast á að hita upp og kynna á sviðið fleiri eiturfyndna grínista í allan vetur en fjöldi gesta hefur troðið upp með þeim við góðar orðstír og ófáar hláturrokur.
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Grinkjallari-1-20x13.png)
Eftir rigningasumarið mikla brast á með blíðu á Stóra sviðinu
Sprenghlægilegur eltingaleikur sem allir þekkja
Þjóðleikhúsið frumsýndi glænýtt gamanleikrit, Eltum veðrið, í september. Verkið er skrifað af leikhópnum og fjallar um þessa þjóðaríþrótt okkar Íslendinga, að elta sólina. Sýningunni var gríðarlega vel tekið og áhorfendur skemmtu sér hið besta.
Í sýningunni segir frá skrautlegur vinahópi sem heldur í sína árlegu útilegu þar sem allt þarf að vera á sínum stað – rétta stæðið fyrir hjólhýsin, moðsteikta holulambið, sándboxið og allt hitt. En nú er samt ekkert eins og það var, því það vantar eina í hópinn. Hver og einn er með sínar hugmyndir um það hvernig eigi að bregðast við nýrri stöðu og hin árlega samkoma vinahópsins tekur óvænta og stórvarasama stefnu.
![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Sjondeildarhringur-copy-2-e1734603827700-20x13.png)
Við héldum áfram að opna leikhúsið og bjóða fleiri velkomin
Endurbætt aðstaða í Kassa og á Litla sviði
Í haust var settur upp bráðabirgðarampur til að bæta aðgengi að Kassanum. Hann er þó bara fyrsta skrefið í langþráðum framkvæmdum sem nú eru að hefjast. Ný viðbygging mun stórbæta aðgengi allra að húsi Jóns Þorsteinssonar með nýjum inngangi á vesturhlið hússins. Samhliða því verður sett upp lyfta innandyra sem bætir aðgengi að neðri hæð, þar sem Litla sviðið er, og einnig að efri hæð þar sem aðstaða listamanna og annarra starfsmanna er. Jafnframt verður ráðist í umbætur á efri og neðri hæð hússins sem miða að því að gera aðstöðuna fallegri og aðgengilegri. Útlit verður í samræmi við forsal Kassans.
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Adstada-20x13.png)
Eldri starfsmenn heiðra okkur á hverju ári
Gauragangur í fullveldiskaffi Þjóðleikhússins
Á hverju ári bjóðum við fyrrum starfsfólki Þjóðleikhússins í heimsókn og rifjum upp gamla tíma. Að þessu sinni var söngleiksins dásamlega Gaurargangs, eftir Ólaf Hauk Símonarson, minnst sérstaklega. Leikarar, listrænir stjórnendur og 3/5 hljómsveitarinnar Nýdönsk sem sömdu tónlistina ásamt Ólafi Hauki, og tóku þátt í sýningunni sem var frumsýnd árið 1994, rifjuðu upp skemmtilegar sögur tengdar þessu ævintýri. Gauragangur varð gríðarlega vinsæl sýning og rataði aftur á fjalirnar í Borgarleikhúsinu 2010 við síst minni vinsældir.
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Gauragangur-1-e1734603853204-20x13.png)
Framtíðargestirnir fylltu leikhúsið aftur og aftur
Fyrstu skrefin oft þau dýrmætustu
16. árið í röð buðum við elstu deildum leikskóla í heimsókn. Fyrir mörg börn er það þeirra fyrsta reynsla af leikhúsi. Þau kunnu enda vel að meta sýninguna, Ég get, ljóðræna leiksýningu sem hentar yngstu börnunum einstaklega vel. Sýningin fjallar um það sem er mitt og þitt og okkar. Þar kynnumst við tveimur litlum manneskjum sem eru að æfa sig í að vinna saman. Þær leika sér saman, prófa sig áfram og komast að því hvað gerist þegar forsendum í leiknum er breytt. Sýningin er skemmtileg leikhúsupplifun fyrir börn sem eru að læra á heiminn. Ég get var tilnefnd til Grímuverðlaunanna árið 2018.
Leikarar í ár voru Ernesto Camilo Aldazábal Valdés og Viktoría Sigurðardóttir. Leikstjóri Björn Ingi Hilmarsson.
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/leikskolar-20x13.png)
Fyrsta sýning Þjóðleikhússins í vinaleikhúsinu í Kielce gekk frábærlega
Vertu úlfur í Póllandi
Sýningin magnaða Vertu úlfur var sýnd í Zeromski leikhúsinu í Kielce í nóvember. Sýningunni var einstaklega vel tekið og áhorfendur risu úr sætum að henni lokinni. Björn Thors, leikari og Unnur Ösp, leikstjóri og höfundur voru í skýjunum eftir þessar einstöku viðtökur. Auk þeirra var tæknifólk Þjóðleikhússins með í för og stýrði sýningunni.
Fjölmiðlar í Póllandi voru afar spenntir fyrir því að ræða við íslensku gestina og fóru aðstandendur sýningarinnar og leikhússtjórar beggja leikhúsanna í fjölda viðtala í vikunni. Stefan Żeromski leikhúsið í Póllandi er einstaklega glæsilegt. Það er eitt það elsta í landinu og var opnað að nýju í haust eftir miklar endurbætur sem hafa staðið í tvö ár.
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Ulfur-Pólland-20x13.png)
Taktu flugið og Fúsi fengu viðurkenningu
Hvatningarverðlaun ÖBÍ
ÖBÍ réttindasamtök veittu tveimur leikverkum Hvatningarverðlaunin á Grand hóteli á alþjóðadegi fatlaðs fólks fyrr í vikunni. Handhafar verðlaunanna í ár eru Fúsi, aldur og fyrri störf og Taktu flugið, beibí sem Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir skrifaði og lék í, undir leikstjórn Ilmar Stefánsdóttur hér í Þjóðleikhúsinu.
Halla Tómasdóttir forseti afhenti verðlaunin og minnti í ávarpi sínu á mikilvægi kærleikans. Hún sagðist jafnframt vonast til þess að næsta ríkisstjórn haldi málaflokki fatlaðs fólks á lofti. Við óskum Kolbrúnu og Fúsa innilega til hamingju!
![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Hvatningarverdlaun-20x13.png)
Samt held ég heilög jól, þótt harðir geysi vindar
Fallegasta Jólaboðið á hverju ári
Það er orðin hefð hjá mörgum að sjá Jólaboðið í Þjóðleikhúsinu á aðventunni. Sýningin hefur heillað áhorfendur Þjóðleikhússins á aðventunni á fyrri leikárum.
Við fylgjumst með fjölskyldunni koma saman á jólunum, á ólíkum tímum, og upplifum með henni umrót heillar aldar; seinni heimsstyrjöldina, breytingar í sjávarútvegi, hippatímabilið, tæknivæðingu þjóðfélagsins og um leið vandræði fjölskyldunnar við að laga sig að breyttum háttum og innbyrðis venjum. Fjölskyldan reynir að halda í hefðirnar en hin óhjákvæmilega framrás tímans setur hlutina úr skorðum og vekur sífellt nýjar spurningar og ný átök.
Jólaboðið er sprellfjörug og frumleg en um leið hjartnæm sýning þar sem leikararnir leika ólíkar persónur á ýmsum aldursskeiðum – og leikhópurinn breytist ár frá ári. Hverjir verða á sviðinu á næsta ári?
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Jólabodid-20x13.png)
Lára og Ljónsi héldu áfram að gleðja ungviðið
Jólasagan sem setur alla í jólaskap
Það var ekkert lát á vinsældum sýningarinnar fallegu, Lára og Ljónsi – jólasaga, sem hefur fært fjölskyldum jólaskapið undanfarin tvö ár. Að þessu sinni var ævintýrið fært á Stóra sviðið og naut sín vel.
Verkið gerist á aðventunni og jólasveinarnir eru farnir að tínast til byggða og gefa börnum í skóinn. En eina nóttina hverfur Ljónsi, uppáhalds mjúkdýrið hennar Láru sem, eins og flestir vita, er enginn venjulegur bangsi. Hvað getur hafa orðið af Ljónsa? Getur verið að hvarf hans tengist jólasveinunum á einhvern hátt?
Nánar![](https://leikhusid.is/wp-content/uploads/2024/12/Lára-og-Ljónsi-20x13.png)