/
Guli dregillinn

Fagnið með okkur á nýrri leikritahátíð Þjóðleikhússins í vor!

Þrjú glæný og spennandi leikrit verða frumflutt af stjörnuteymi leikara við hátíðlegt tilefni, vorhátíð sem nefnist Guli dregillinn og fagnar íslensku leikhúsi og skáldunum sem skrifa fyrir sviðið! Í heilan dag verður Jónshús undirlagt undir þrjú glæný íslensk leikrit eftir höfunda sem segja hrífandi sögur og eiga mikilvægt erindi við leiksviðið. Handritin lifna við með æfðum leiklestri fyrir áhorfendur, við ræðum við höfundana um lífið og listina og höldum partí í lok hátíðar. Nælið ykkur í hátíðarpassa og verið með okkur þegar við drögum fram Gula dregilinn!

Við opnum fyrir bókanir þegar nær dregur.

Hildur Selma Sigbertsdóttir

Hildur Selma sér nútímann í sinni ýktustu mynd, hvort sem það er persónunum til góðs eða ekki. Þarna fara saman núvitund og brask, einlægni og hryllingur, leit að tilgangi í yfirborðskenndum heimi. Bæði stóru leikhúsin hafa valið stutt leikverk eftir Hildi til sviðsetningar en á Gula dreglinum sjáum við hana glíma við formið í fullri lengd. Hildur býr í Hlíðunum ásamt sambýlismanni og tveimur dætrum þar sem hana sundlar reglulega af ást, á milli þess sem hún þvær ógrynni af þvotti og stelst ein í sund til að hlera samtöl í pottinum.

Kolfinna Nikulásdóttir

Kolfinna hefur sannað sig í leikstjórastólnum hér í Þjóðleikhúsinu en hún er líka sannkallaður tuddi við lyklaborðið, lesendum og áhorfendum til mikillar hrifningar. Verk hennar The Last Kvöldmáltíð var í senn tryllingsleg heimsendaspá og fjölskyldusaga þar sem samfélag, siðferði og meira að segja okkar ylhýra móðurmál voru að hruni komin. Hún er líka stundum kölluð „Kylfan“ og þá sérstaklega þegar hún tekur upp hljóðnema, en hvort sem hún er að rappa, leikstýra eða skrifa handrit ólgar óvæginn kraftur í verkum Kolfinnu.

Friðgeir Einarsson

Sýn Friðgeirs á hversdagsleikann er í senn næm, nöpur og hlægileg. Þetta sjáum við í skáldsögum hans og fjöldanum öllum af sviðslistaverkum sem hann hefur skapað, bæði með leikhópnum Kriðpleiri og upp á eigin spýtur. Hann hefur fyrir löngu sannað sig sem einn fremsti sviðslistamaður sinnar kynslóðar með sýningum á borð við Club Romantica, þótt aðferðirnar séu ekki alltaf eins og leikhúsgestir eiga að venjast, enda mörkin milli persónu og leikanda ekki alltaf skýr. Á Gula dreglinum skrifar hann fyrir leikhóp Þjóðleikhússins í fyrsta sinn.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími