05. Okt. 2022

Þjóðleikhúsið frumsýnir Nokkur augnablik um nótt

Þjóðleikhúsið frumsýnir nýtt íslenskt leikrit, Nokkur augnablik um nótt, laugardaginn 8. október. Verkið, sem er eftir Adolf Smára Unnarsson, beinir sjónum að samtalinu á milli kynslóða, þjóðfélagshópa, fólks með ólíkar skoðanir og lífsgildi og þeirri óbilgirni sem oft einkennir það samtal. Grátbroslegt og spennandi leikrit um fagfjárfesta og fótboltamenn, stuðningsfulltrúa, stjórnmálakonur og fleira gott fólk. Leikstjórn er í höndum Ólafs Egils Egilssonar. Leikarar eru Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Björn Thors, Ebba Katrín Finnsdóttir og Hilmar Guðjónsson.


Kaupa miða

Á dásamlegu sumarkvöldi uppi í bústað, yfir glóðheitu grillinu, kynnir Björk nýja kærastann fyrir Ragnhildi stóru systur og manninum hennar. Þær systurnar ólust upp á brotnu heimili en hafa farið ólíkar leiðir í lífinu. Ragnhildur stefnir óðfluga inn á þing og er gift fyrrverandi fótboltakappanum Magnúsi sem nú gerir það gott í fjárfestingum. Björk er alveg við það að meika það í músíkinni og er nýbúin að kynnast Óskari, sem er bara lowkey fínn gaur. Þetta verður örugglega alveg yndisleg og afslöppuð bústaðarferð.

Ungt íslenskt leikskáld sendir frá sér magnað verk, beint úr íslenskum raunveruleika. Grátbroslegt og spennandi leikrit um fagfjárfesta og fótboltamenn, stuðningsfulltrúa, stjórnmálakonur og fleira gott fólk sem við þekkjum öll – eða ekki. Þetta glænýja, kraftmikla verk er í senn vægðarlaus samtímaspegill og bráðfyndin en ógnvekjandi svipmynd af þeim sem eiga og þeim sem vilja, þeim sem sýnast og þeim sem eru. Þetta erum við – og þau.

Adolf Smári Unnarsson hefur á undanförnum árum getið sér gott orð sem rithöfundur, leikskáld og leikstjóri, en hann hlaut meðal annars þrjár Grímutilnefningar árið 2021 fyrir Ekkert er sorglegra en manneskjan. Ólafur Egill Egilsson er í fremstu röð íslenskra leikhúslistamanna og er nú fastráðinn leikstjóri við Þjóðleikhúsið. Meðal fjölda sýninga sem hann hefur komið að eru Ásta, Karitas, Ör, Níu líf og Ellý.

Nýuppgerður forsalur Kassans

Nú er verið að ljúka við viðamiklar umbætur á gestarými Kassans og leikhúsgestir geta nú notið veitinga þar líkt og í forsal aðalbyggingar. Hönnuðirnir, Þórður Orri Pétursson og Hálfdán Pedersen, hafa leitað til upprunans í hönnun og andi Jóns Þorsteinssonar íþróttakennara sem lét reisa húsið svífur yfir vötnum. Sjón er sögu ríkari.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími