04. Okt. 2022

Endurbætur á forsal Kassans

Gestir á sýningu Þjóðleikhússins Nokkur augnablik um nótt eftir Adolf Smára Unnarsson, í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar, munu sjá forsal Kassans í nýrri mynd, en gagngerar endurbætur hafa verið gerðar á honum í sumar.

Kassinn og Litla svið Þjóðleikhússins í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar

Húsið við Lindargötu 7 sem hýsir minni svið Þjóðleikhússins, Kassann og Litla sviðið, var upphaflega reist af Jóni Þorsteinssyni íþróttakennara árið 1934 og hefur verið nefnt eftir honum hús Jóns Þorsteinssonar. Hér starfrækti Jón íþróttahús á árunum 1935 til 1976. Litla svið Þjóðleikhússins var opnað árið 1986 og nýtt leiksvið, Kassinn, árið 2006. Í þessu húsi hafa fjölmargar áhrifamiklar leiksýningar verið sýndar, meðal annars ný íslensk verk, erlend samtímaverk og barnaleikrit. Árið 2022 var ráðist í gagngerar umbætur á forsal Kassans, og var þá haft að leiðarljósi að minnast sögu hússins sem íþróttahúss.

Íþróttahúsið sem Jón Þorsteinsson (1898-1985) íþróttakennari byggði fyrir íþróttaskóla sinn á árinu 1934 var á sínum tíma glæsilegasta íþróttahús landsins og þótti mörgum það vera eitt fegursta íþróttahús á Norðurlöndum. Arkitektar hússins voru Einar Sveinsson arkitekt og Sigmundur Halldórsson húsameistari. Ytra ytra byrði hússins var friðað árið 2011, enda húsið eitt af fyrstu verkum fúnksjónalismans hér á landi. Í húsinu voru iðkaðir fimleikar og aðrar íþróttir, og þar var um árabil aðalæfingaaðstaða íþróttafélagsins Ármanns. Í húsinu voru tveir fimleikasalir, áhaldageymslur, fullkomin búningsaðstaða, snyrtistofa, steypibaðsklefar og gufubaðstofa. Þar var fyrsta baðstofan til almenningsnota í Reykjavík. Jón og Eyrún Guðmundsdóttir, eiginkona hans, bjuggu á efstu hæð hússins. Jóhannes Kjarval hafði um tíma stóra fimleikasalinn til afnota á sumrin, málaði þar og hélt myndlistarsýningar. Hann bjó einnig um tíma í húsinu.

Árið 1986 fékk Þjóðleikhúsið húsið til afnota. Leikhúsið opnaði nýtt leiksvið á jarðhæðinni, Litla sviðið, og nýtti stóra íþróttasalinn sem æfingasal. Árið 2006 var æfingasalnum breytt í leiksvið, Kassann, en Litla sviðið nýtt áfram til sýninga, m.a. á leikritum fyrir börn, og var það um tíma nefnt Kúlan.

Árið 2022 voru gerðar gagngerar endurbætur á aðstöðu gesta í húsinu. Fordyrið var opnað og stækkað, og allt útlit endurnýjað. Hönnunin vísar í sögu hússins, því megnið af innanstokksmunum og efniviði kemur úr íþróttahúsum, meðal annars úr húsinu sjálfu. Veggskreytingar í salnum eftir Mathilde Morant vísa í Müllersæfingar, sem kenndar voru í húsinu.


Umsjón með breytingunum höfðu Rúnar Hauksson arkitekt, Hálfdán Pedersen innanhússhönnuður og Þórður Orri Pétursson ljósahönnuður. Endurbæturnar voru unnar í samstarfi Framkvæmdasýslu ríkisins og Þjóðleikhússins.

 
Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími