Góðan daginn faggi á leikferð um landið
Leikhópurinn Stertabenda og Þjóðleikhúsið ferðast þessa dagana milli framhaldsskóla landsins með sýninguna Góðan daginn faggi. Sýnt verður í öllum framhaldsskólum á landsbyggðinni auk þess sem framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu er boðið á sýningu í Þjóðleikhúsinu. Verkefnið er styrkt af forsætisráðuneytinu, félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og samgöngu og sveitarstjórnaráðuneytinu.
Góðan daginn faggi hefur svo sannarlega slegið í gegn í Þjóðleikhúsinu og er að ljúka sínu öðru sýningaári í Þjóðleikhúskjallaranum. Góðan daginn faggi er sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur byggður á dagbókarfærslum leikarans Bjarna Snæbjörnssonar frá yngri árum. Í verkinu leitar fertugur hommi skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag. Eftir vandasamann leiðangur um innra líf sitt, fortíð sína og samtíma rekst hann á rætinn hommahatara á óvæntum stað. Verkið hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og áhorfenda síðan það var frumsýnt síðla sumars 2021.
Höfundar verksins eru öll alin upp á landsbyggðinni. Bjarni Snæbjörnsson, leikari frá Tálknafirði, Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri frá Hrísey og Axel Ingi Árnason, tónskáld frá Eyjafjarðasveit. Það er þeim því sérstaklega mikilvægt að ferðast með sýninguna um landið. Það er einlæg von þeirra að með sýningum á verkinu megi vinna gegn því bakslagi í hinsegin réttindabaráttu sem mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum.
Sýningin var einnig sýnd víða um land síðasta haust fyrir elstu bekki grunnskóla. Viðbrögð við sýningum hafa verið gríðarlega jákvæð jafnt frá nemendum sem og kennurum og aðstandendum.