Leikari, leikstjóri og höfundur
Unnur Ösp Stefánsdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2002 og hefur starfað við leikhús og kvikmyndir sem framleiðandi, leikari og leikstjóri. Hún semur ásamt Unu Torfa söngleikinn Storm og leikstýrir hér í Þjóðleikhúsinu í vetur. Hún samdi handrit og leikur í Grímuverðlaunasýningunni Saknaðarilmi í Þjóðleikhúsinu. Hún hefur m.a. starfað í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, hjá LA, Vesturporti, Lyric Hammersmith og Young Vic. Meðal fyrri hlutverka hennar eru Astrid í Ellen B., Lenù í Framúrskarandi vinkonu, Nóra í Dúkkuheimilinu, Hallgerður langbrók í Njálu, Maríanna í Brot úr hjónabandi, Gréta í Hamskiptunum og Donna McAuliff í Elsku barni. Hún stóð að sjónvarpsseríunni Föngum og lék m.a. í Verbúðinni og Ófærð. Hún leikstýrði m.a. og skrifaði Vertu úlfur og leikstýrði Sem á himni, Mamma Mia! og Kæru Jelenu. Hún hefur hlotið fjölda leiklistarverðlauna, m.a. Grímuna fyrir leik, leikstjórn og handrit, Edduverðlaun og Menningarverðlaun DV. Nýjasta sýning hennar Saknaðarilmur hlaut Grímuverðlaunin sem sýning ársins, auk þess sem Unnur Ösp hlaut verðlaunin fyrir leikrit ársins og leik í aðalhlutverki.
Meira um feril:
Leiktjórn/leikverk í Þjóðleikhúsinu:
- Stormur (handrit, leikstjórn)
- Saknaðarilmur (handrit, leikur)
- Sem á himni (leikstjórn)
- Vertu úlfur (handrit, leikstjórn)
Meðal hlutverka í Borgarleikhúsinu:
- Nóra í Dúkkuheimilinu
- Hallgerður Langbrók í Njálu
- Maríanna í Brot úr hjónabandiNawal í Eldhafi
- Greta í Faust
- Donna McAuliff í Elsku barni.
Vesturport:
- Unnur lék Grétu í Hamskiptum Vesturports í London og á leikferð um England, Ástralíu og Kananda.
- Hún lék Gretu í uppsetningu Vesturports á Faust í Englandi, Þýskalandi og Kóreu.
Leikur í sjónvarpsseríum:
- Rétti
- Föngum
- Ófærð 2
- Ráðherranum
- Verbúðinni
Leikstjórnarverkefni í Borgarleikhúsinu:
- Mamma Mia!
- Kæra Jelena
- Fólkið í Blokkinni
Unnur hlaut Stefaníustjakann árið 2012 og var valin besta leikkona í aðalhlutverki á kvikmyndahátíðinni Busho film festival fyrir leik sinn í stuttmyndinni Frelsun 2018. Hún var tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna Forseta Íslands fyrir heimildaleikhús verk sitt Venjuleg kona 2002. Unnur fékk tilnefningu til Eddunnar sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir Ófærð 2 og Fanga. Hún var tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir hlutverk sitt sem Nóra 2015. Unnur framleiddi, skrifaði og lék í sjónvarpsþáttaröðinni Fangar sem hlaut tíu Edduverðlaun 2018. Fangar fékk einning Menningarverðlaun DV 2018.
Unnur fékk Grímuna sem besta leikkona í aðalhlutverki árið 2011 fyrir hlutverk sitt í Elsku barn og aftur árið 2015 fyrir hlutverk sitt í Dúkkuheimili, auk þess sem hún var tilnefnd til Grímunnar sem besta aðalleikkonan fyrir hlutverk sín í Killer Joe, Eldhafi, Brot úr hjónabandi og Dúkkuheimili-annar hluti. Unnur var tilnefnd til Grímunnar sem leikstjóri ársins fyrir leikstjórn í MAMMA MIA! Hún skrifaði leikgerð að og leikstýrði Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu 2021 og hlaut sýningin sjö Grímuverðlaun 2021 þar sem Unnur var valin leikstjóri og höfundur ársins. Saknaðarilmur hlaut fern Grímuverðlaun 2024, m.a. sem sýning ársins, auk þess sem Unnur hlaut verðlaunin fyrir handrit og leik.
Unnur var verndari UN Women um nokkurra ára skeið og var valin bæjarlistamaður Garðabæjar ásamt eiginmanni sínum 2021.