Umskiptingur
Ævintýralegt leikrit um tröll og menn, ofurhetjur, smákríli og dreka!
Bráðskemmtilegt leikrit eftir einn af okkar ástsælustu höfundum, sem gerði mikla lukku á liðnu leikári!
Sigrún Eldjárn leikur sér hér á frumlegan og sniðugan hátt með minnið um umskiptinga úr gömlu þjóðsögunum okkar og Ragnhildur Gísladóttir semur grípandi ný sönglög fyrir sýninguna.
Tilnefnd sem barnasýning ársins
Sýningin var tilnefnd til Grímunnar sem barnasýning ársins og tilnefnd sem leiksýning ársins á Sögum – verðlaunahátíð barnanna.
Hvað ef systir þín væri tröll?
Systkinin Sævar og Bella eru í berjamó, og einu sinni sem oftar þarf Sævar að gæta litlu systur sinnar, sem satt að segja getur verið alveg ferleg frekjudolla! En Bella er alveg einstaklega krúttleg og þegar tröllskessa með óslökkvandi fegurðarþrá sér hana ákveður hún að skipta á henni og hinum stórgerða, uppátækjasama og hjartahlýja syni sínum, tröllastráknum Steina.
Nú eru góð ráð dýr, en í ljós kemur að hjálpar má vænta úr ólíklegustu áttum!
Aldursviðmið: 4-12 ára.