
Til hamingju með að vera mannleg
Ástarjátning til lífsins – ljóð, leikur, söngur, grín og dans!
Sýningin Til hamingju með að vera mannleg vakti mikla athygli þegar hún var frumsýnd á liðnu vori, hlaut afar lofsamlega umfjöllun og þrjár tilnefningar til Grímuverðlaunanna. Sýndar verða nokkrar aukasýningar á verkinu, fyrst í október í tengslum við Bleiku slaufuna, árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins, og svo í nóvember, í tengslum við Reykjavík Dance Festival.
Sýningin er byggð á ljóðabók Siggu Soffíu sem hún samdi þegar hún gekk í gegnum krabbameinsmeðferð í heimsfaraldri. Verkið fjallar um þrautseigju, um andlegan styrk og um samfélag kvenna sem standa hver með annarri.
****
„Leikkonurnar og dansararnir voru hver annarri betri…“
SGM, Mbl.
Ég bjó í 5fm rými í huga mínum,
með hverri hugleiðslu stækkaði rýmið,
með hverri stund í lyfjamóki flúði ég inn í
mjúkan hugann og byggði þar hús og hallir.
Síðar gat ég brotið heiminn niður og
endurraðað púslunum.
Hugur minn er ekki lengur skilgreint rými,
hann er ósnortin náttúra, engi,
syngjandi hrossagaukur,
dramatísk fjöll og fljót,
brimandi sjór og lygnar lindir.
„Loks nefni ég lokaatriðið sem alls ekki má lýsa því að sjón er sögu miklu ríkari, en verður gersamlega ógleymanlegt!“
SA, TMM
Flytjendur
Myndbönd
Listrænir stjórnendur
Níelsdætur í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg og Menningarráðuneytinu úr Sviðslistasjóði og Launasjóði sviðslistafólks.
Öll tónlistin í sýningunni er eftir Jónas Sen, fyrir utan Misty eftir Errol Garner og White Christmas eftir Irving Berlin, sem eru leikin á píanó í lifandi flutningi og brot úr Monalisa (Lojay, Sarz, Chris Brown), Pepas (Farruko), Bitch Better Have My Money (Rihanna), Rude Boy (Rihanna) og Pulkka (Vesala). Síðasta verkið fyrir hlé er píanókonsert sem Jónas samdi sérstaklega fyrir sýninguna. Píanóleikur: Jónas Sen.


















