25. Mar. 2022

Þjóðleikhúsið frumsýnir Ást og upplýsingar eftir Caryl Churchill

Föstudaginn 25. mars frumsýnir Þjóðleikhúsið Ást og upplýsingar eftir breska leikskáldið Caryl Churchill. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem Þjóðleikhúsið sýnir leikrit eftir þetta virta leikskáld. Átta leikarar taka þátt í sýningunni sem Una Þorleifsdóttir leikstýrir. Verkið hlaut mikið lof þegar það var frumsýnt árið 2012.

Í fyrsta sinn setur Þjóðleikhúsið upp leikrit eftir Caryl Churchill, eitt virtasta leikskáld Bretlands. Churchill (f. 1938) er í hópi framsæknustu leikskálda samtímans, og er hún ekki síst þekkt fyrir afar áhugaverðar tilraunir með form og innihald. Churchill hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín, sem gjarnan fjalla um áleitin viðfangsefni úr samtímanum, femínísk málefni, kynjapólitík, vald og misbeitingu þess. Verk hennar hafa verið sett upp í helstu leikhúsum Bretlands og víða um heim.

Ást og upplýsingar er skemmtilegt og afhjúpandi samtímaverk sem varpar nýju ljósi á kunnuglegar aðstæður, samskipti fólks og fáránleika mannlegrar tilveru.

Átta leikarar bregða hér af list upp skörpum skyndimyndum af mannlífinu, þau Ebba Katrín Finnsdóttir, Almar Blær Sigurjónsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Hilmar Guðjónsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Björn Thors, Ragnheiður K. Steindórsdóttir og Baldur Trausti Hreinsson.

Una Þorleifsdóttir leikstjóri hefur tvívegis hlotið Grímuverðlaunin sem leikstjóri ársins. Auður Ava Ólafsdóttir þýðir og hinn virti austurríski leikmyndahönnuður Daniel Angermayr vinnur í fyrsta sinn hérlendis. Eva Signý Berger er búningahöfundur, Jóhann Bjarni Pálmason er ljósahönnuður, og hljóðhönnun er í höndum Kristins Gauta Einarssonar. Eins og áður er getið er það óskarsverðlaunahafinn Markéta Irglová og Sturla Míó Þórisson sem semja tónlistina við sýninguna.

Kaupa miða / Lesa nánar
Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími