27. Mar. 2022

Alþjóðlegi leiklistardagurinn

Í dag fögnum við alþjóðlega leiklistardeginum. Samkvæmt hefðinni flytur valinn sviðlistsamanneskja ávarp og að þessu sinni er það sviðslistakonan, danshöfundurinn og dansarinn Sveinbjörg Þórhallsdóttir.
Við birtum einnnig ávarp Peter Sellars sem Hafliði Arngrímsson, leikhúsfræðingur og leikstjóri íslenskaði.

Ávarp Sveinbjargar

Lífið er núna, opnaðu fyrir skilningarvitin og finndu sannleikann.

Að skynja eftirvæntinguna í biðinni. Að skynja andann sem svífur yfir rýmið þegar tjaldið er dregið frá. Að skynja líkamana á sviðinu og orkuna sem frá þeim kemur við hverja hreyfingu. Máttinn í kyrrðinni. Styrkinn í þögninni. Að skynja tilfinningu sem er svo sterk án þess að geta útskýrt hana. Að skynja fegurðina og ljótleikann í gjörðunum sem endurspegla lífið og það sammannlega í okkur öllum. Að skynja töfrana. Að skynja óvissuna og hættuna og þann drifkraft sem henni fylgir. Að skynja tímann í rýminu og upplifa hversu afstæður hann getur verið. Að skynja kraftinn í núinu og frelsinu sem fylgir því að vera staddur á þessum stað, á þessari stundu, tengdur við sinn innri mann með athyglina á sviðinu. Að skynja tenginguna við flytjendur þegar fjórði veggurinn fellur. Að skynja nýjan skilning eða uppgötvun, nýja sýn á lífið eða nýja upplifun þegar tjaldið er dregið fyrir og þú gengur aftur út í hversdagsleikann, kannski örlítið breytt manneskja.

Uppspretta dansins og leiklistarinnar er lífið sjálft. Sviðslistamaðurinn segir sögur í gegnum líkama sinn. Afhjúpar sig á sviðinu með því að segja frá því sem líkaminn geymir. Líkami dansarans býr yfir mikilli, óorðaðri þekkingu sem hefur tekið hann fjölda ára að þjálfa. Að líkamna reynslu í gegnum hreyfingar og dans segir oft meira en nokkur orð. Sama má segja um leikarann sem þarf að bregða sér í mismunandi hlutverk og ljá þeim líf og fylla af orku. Þannig þarf sviðslistamaðurinn að geta tengst kjarna sínum svo hann geti miðlað áfram sannri sögu sem fangar athygli áhorfendans. Í því liggur galdurinn að líkamna gjörðirnar.

Leikhúsið verður til þegar það mætir áhorfendum sínum. Tengist þeim ákveðnum böndum. Í leikhúsinu getur áhorfandinn upplifað töfra, dýpri skilning á lífinu eða fengið hvíld frá daglegu amstri. Leikhúsið getur verið hálfgert hof þar sem fólk getur heilað sig í núvitundinni, grátið eða hlegið og sleppt tökum á hugsuninni. Upplifað frelsi. Fangað augnablikið. Leikhúsið sprettur upp úr skapandi jarðvegi og hugverki frjórrar hugsunar. Leikhúsið spyr spurninga. Leikhúsið endurspeglar okkur sjálf, samfélagið sem við búum í og heiminn sem við lifum í. Öll upplifum við leikhúsið útfrá okkar eigin reynslu og skilningi. Útfrá uppruna okkar, stöðu og gildum. Þar hefst samtalið. Samtalið þar sem skoðanaskipti eiga sér stað. Gagnrýnin hugsun. Og við ræktum þörfina fyrir að tjá upplifun okkar og skoðanir á fagurfræði, tónum og formi. Öll höfum við þörf fyrir að tilheyra hóp, tengjast öðru fólki og spegla okkur í því. Það sama gerum við í gegnum listina, því listin er spegill á lífið og í gegnum listina getum við samsamað okkur mennskunni.

Sjaldan hefur leikhúsið, leiklistin og dansinn sem og aðrar listgreinar átt jafn brýnt erindi til fólks og einmitt á þeim tímamótum sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag. Heimur hraða og áreitis, örra breytinga, byltinga, heimsfaraldurs og stríða, þar sem óréttlætið gagnvart saklausum manneskjum dynur yfir, frelsinu er ógnað og hugmyndafræðileg valdabarátta ræður ríkjum. Við lifum á tímum firringar sem endurspeglast í gegnum samfélagsmiðla þar sem sviðsetning á sjálfinu er einhverskonar flótti eða frelsi frá raunveruleikanum. Mismunandi birtingarmyndir af sjálfinu sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, heldur eru þær byggðar á lygum eða ímynduðum heimi. Sá heimur og sviðsmynd sem birtist okkur þar hefur mikil áhrif á sjálfsmynd fylgjenda sinna.Trúverðugleiki fréttamiðla er að sama skapi dreginn í efa þar sem erfitt reynist að skilja hvar sannleikurinn liggur, hvað er rétt og hvað er rangt, hverjum er hægt að treysta. Upp kemur löngun til að hægja á og leita að tilganginum, staldra við og hugsa. Skoða nýjar leiðir og aðferðir þar sem samkennd og dýpt ræður för. Leita inná við og reyna að finna jafnvægið. Fylgja innsæinu. Einfalda en leggja áherslu á gæði og fagmennsku. Spyrja sig hver er sannleikurinn í þessari hreyfingu? Eða á bakvið þetta orð eða hljóð? Veita handverkinu og ástríðunni sem liggur þar að baki meiri eftirtekt. Fara inn í kjarna okkar. Leita upprunans, í stað þess að dvelja um of í umgjörð og formi hluta. Því hvað er form eða umgjörð ef ásetningurinn er ekki sannur? Hver nennir að hlusta á innantóm orð eða horfa á hreyfingu og dans sem snerta ekki við manni? Heimurinn þarfnast jafnvægis í víðasta skilningi þess orðs og jafnvægið byrjar í okkar eigin líkömum. Máttur listarinnar er miklll. Með listinni afhjúpum við sannleikann. Með listinni færum við fjöll og dönsum yfir landamæri.

Lífið er dansverk. Lífið er leikverk sett í búning skapandi hugsunar. Lífið er núna.

Að lokum vil ég óska FÍLD, Félagi íslenskra dansara innilega til hamingju með 75 ára afmælið. Takk fyrir þrautseygjuna. Húrra fyrir dansinum!

Sveinbjörg Þórhallsdóttir, danshöfundur.

————————-

Ávarp Peter Sellars,

Kæru vinir,

Nú þegar heimsbyggðin fylgist látlaust með daglegu sístreymi frétta, vil ég hvetja okkur öll – í hlutverkum okkar sem skapandi listafólk – til að rannsaka sýn okkar á þessum tímum epískra vídda og breytinga, epískrar vitundar og íhugunar og reyna að átta okkur á framtíð okkar. Við lifum á tímamótum mannkynssögunnar þegar djúpstæðar umbyltandi breytingar eiga sér stað sem við getum séð í samskiptum mannsins við sjálfan sig, við aðra og við ómanneskjulega heima. Allt þetta er okkur næstum ofviða að skilja, orða og tjá.

Í raun lifum við ekki í fréttaflæðinu allan sólarhringinn, við lifum á mörkum tímans. Dagblöð og fjölmiðlar eru fullkomlega vanbúin og ófær um að takast á við það sem við erum að upplifa.

Hvar er tungumálið, hreyfingarnar og myndirnar sem gætu gert okkur kleift að skilja þær hyldýpisbreytingar og sundrun sem eiga sér stað allt í kring um okkur? Og hvernig getum við miðlað lífsinnihaldi okkar einmitt núna, – ekki sem fréttaskýringum heldur sem reynslu?

Leikhús er listform mannlegrar upplifunar.

Heimurinn er að drukkna í umfangsmiklum fjölmiðlaherferðum, eins konar hermireynslu og skelfilegum „sviðsmyndum“. Hvernig getum við yfirstigið endalausa endurtekningu talnaupplýsinga til að geta upplifað friðhelgina og óendanleikann í hverju einstöku lífi, hverju einstöku vistkerfi, í vináttu eða í birtu á framandi himni? Tvö COVID19-ár hafa gruggað tilfinningar okkar, þrengt að lífi okkar og rofið tengsl og þau hafa vísað okkur á undarlegan núllpunkt mannvistar.

Hvaða fræjum þarf að sá eða endursá á þessum tímum? Hverjar eru þær ofvöxnu, ágengu tegundir sem þarf að fjarlægja fyrir fullt og allt? Svo mörg mannslíf eru í veði, svo mikið ofbeldi blossar upp, heimskulegt og tilgangslaust. Svo mörg rótgróin kerfi sem valda vægðarlausri grimmd hafa verið afhjúpuð.

Hvar eru viðhafnarhátíðir endurminninga okkar? Hvað þurfum að muna? Hvaða helgisiðir gætu hjálpað okkur að muna og þjálfað okkur í nýjum sporum sem við höfum aldrei tekið áður?

Leikhús epískrar sýnar, tilgangs, endurnýjunar og umönnunar þarfnast nýrra siða. Við þurfum ekki afþreyingu. Við þurfum samveru. Við þurfum að deila rými, við þurfum að rækta sameiginleg rými. Við verðum að gefa einbeittri hlustun og jafnrétti verðugt rými.

Leikhús er jarðnesk sköpun þar sem jafnræði ríkir milli manna, guða, plantna, dýra, regndropa og endurnýjunar. Svið jafnréttis og einbeittrar hlustunar er lýst upp af dulinni fegurð, og það lifir í öruggu samspili háska, æðruleysis, visku, athafna og þolgæðis.

Í bókinni Avatamsaka Sutra telur Búdda upp tíu tegundir mannlegrar þolinmæði. Öflugasta þolinmæði er sú, að skynja allt sem draumsýnir. Leikhús hefur alltaf sýnt jarðlífið sem draumsýn eða hillingar, sem gera okkur fær um að gegnumlýsa, með frelsandi skarpsýni og krafti, villu mannanna, blekkingu, blindu og afneitun.

Við erum svo fullviss um hvað við sjáum og hvernig við sjáum, að við getum hvorki komið auga á né skynjað annan veruleika, ný tækifæri, aðrar leiðir til nálgunar, ósýnilegt samhengi og tímalaus tengsl.

Nú er tími kominn til að fríska upp á skilningarvit okkar, ímyndunarafl, sögur okkar og framtíð. Það er ekki hægt að gera það með einangruðu fólki sem vinnur eitt og sér hvert í sínu horni. Þetta er verkefni sem við þurfum að vinna í sameiningu. Leikhús býður okkur að útfæra verkefnið saman.

Þakka innilega fyrir störf ykkar.

Peter Sellars

Peter Sellars (1957) er einn framsæknasti leikstjóri samtímans og þekktur fyrir byltingarkenndar sviðsetningar á sígildum verkum hvort sem það eru verk eftir Mozart, Händel, Shakespeare, Sófókles eða eftir kínverska sextándu aldar leikskáldið Tang Xianzu. Hann hefur einkum starfað í heimalandi sínu Bandaríkjunum og í helstu leikhúsum og óperuhúsum Evrópu. Hann hefur einnig sviðsett fjölda samtímaópera m.a. eftir Oliver Messiaen, Paul Hindemith, György Ligeti og verið drifkraftur í þróun fjölda nýrra verka meðal annars eftir John Adams, Nixon in China, The Death of Klinghoffer, Doctor Atomic, El Nino. Hann hefur hlotið fjölda virtra viðurkenninga og starfar sem prófessor við Kaliforníuháskóla í Los Angeles (UCLA)

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími