15. Feb. 2022

Það er skömm að þessum ævintýrum

Kartöfluæturnar, Auglýsing ársins, Bláskjár, Helgi Þór rofnar. Síðastliðinn áratug hefur Tyrfingur Tyrfingsson vakið ómælda athygli með verkum sínum í Borgarleikhúsinu og þau vakið eftirtekt víða um lönd. Þeim hefur verið boðið á þá frægu leiklistarhátíð í Avignon í Frakklandi og á hátíðir í Chicago og á Ítalíu, streymt af Teatr Dramatyczny í Varsjá, þau gefin út í Frakklandi og Hollandi og þýdd á fjöldamörg tungumál. Nú er loks runninn upp sá dagur að Þjóðleikhúsið sýnir í fyrsta sinn verk eftir höfundinn, Sjö ævintýri um skömm, og það á Stóra sviði hússins. Að því tilefni settist Kari Ósk Grétudóttir að skáldinu og þýfgaði það um sirkuslíf, trúða og fögnuðinn, Geir Ólafs og að sjálfsögðu stjörnu dagsins – sjálfa skömmina.

Kari Ósk Grétudóttir ræðir við Tyrfing Tyrfingsson leikskáld

Skömm er dálítið sérstök tilfinning því hún er eina tilfinningin sem er lærð. Hver skyldi vera fyrsta minning Tyrfings um skömm?

Ég var á því skeiði þegar börn spyrja út í eitt, „af hverju er himinninn blár?“, og svo framvegis. Ég var hins vegar heltekinn af því hvað væri bannað með lögum. Við fjölskyldan brunum í gömlum Talbot sem pabbi hafði fengið í einhverjum skiptidíl og erum á leið til Guðmundu frænku, bónda í Lækjartúni. Ég spyr eins og svo oft, er bannað með lögum að keyra of hratt? Pabbi hægir á bílnum og svarar, já. En hvernig er það bannað? Hann getur ekkert svarað því. Er bannað með lögum að stela? Pabbi röflar bara eitthvað. Mér finnst hann ekki hafa hugmynd um hvernig hlutir eru bannaðir með lögum.

Þá keyrir pabbi allt í einu næstum yfir dúfu og ég spyr: Er bannað með lögum að drepa dúfur? Og hann svarar játandi en nú verð ég að vita hvernig og legg til svarið sjálfur: „Kannski einhvern veginn svona?“ og ég byrja að syngja hástöfum (Tyrfingur syngur): „Það er bannað með lögum að drepa dúfur. Það er bannað með lögum að keyra yfir þær og það er bannað með lögum…“ Ég hélt að það væri bannað með sönglögum, þú veist. Að landslögin væru til að syngja þau.

Pabbi hló svo ógeðslega mikið að hann varð að leggja Talbotinum og ég byrjaði að skammast mín. Hann gargaði af hlátri, hann var að hlæja að mér, og skömmin helltist yfir mig í fyrsta sinn. En um leið varð líka til þessi leikur. Ég fann að ég skammaðist mín og það var óþægilegt. En guð hvað það er hollt gaman þegar einhver hlær að manni! Og hvað það er mikill kraftur í skömm, hún er eins og reiðin og hatrið og allar þessar erfiðu tilfinningar, þær eru fullar af lífi, svo ríkar af orku.

Í sirkus fyrir jólin

Er það ef til vill þess vegna sem þú velur að skrifa fyrir leikhús, til að nálgast þessa orku?

Kannski, en leikhúsið er líka listform þar sem sjálfur líkaminn liggur til grundvallar. Því það sem heillar mig einna mest við leikhúsið er líkamlegur háski. Leikritið lýtur nefnilega alveg sömu lögmálum og sirkus. Það þarf fílinn sem þrammar inn á hringsviðið – hið stórfenglega dýr sem búið er að temja. Svo þarf arabísku stóðhestana af því að þarna verður líka að vera fegurð, þokki. Síðan trúðinn til að halda uppi fjörinu. En loks þurfum við, og það er mikilvægast af öllu, sjálfan línudansarann. Það er í rauninni hægt að sleppa öllu hinu en það er aldrei hægt að sleppa línudansaranum. Það verður einhver að færa fórn. Án háska er leiksýningin dauðadæmd. Hrapar hann eða ekki? Það skapar þessa frumstæðu spennu – þess vegna kom gesturinn í leikhúsið. Það verður eitthvað raunverulegt að vera í húfi.

Ferðu reglulega í sirkus?

Já. Ég sá sirkus fyrir jól í Amsterdam. En núna er auðvitað búið að banna villidýr í sirkusum heimsins. Það segir ýmislegt um þá tíma sem við lifum, við viljum bannfæra háskann, úthýsa villidýrinu. Ég spurði dömuna sem stýrir sirkusnum hvort tígrisdýrinu og fílnum hefði verið komið fyrir þar sem er sandur og sær og svalar unnir, eins og lýst er í Völuspá. Nei, nei, einhver pípari hafði verið fenginn til að lóga þeim.

Og nú býrðu í Amsterdam, af hverju?

Ég vil vera útlendingur, á skjön, tala með hreim, tilheyra ekki. Svo hefur í Amsterdam ekki safnast upp eins mikil skömm og víða annars staðar. Hér leyfist fólki það sem annars staðar er bannað. Fólk dregur gluggatjöldin ekki fyrir á kvöldin, það skýlir sér ekki eins og Íslendingar gera, hér ríkir minni dómharka en til dæmis í Þýskalandi. Ég hef haft mjög gott af því.

Óður til flækjunnar

Skömmin tengist kannski líka höfnun, óttinn við skömm er tengdur óttanum við að tilheyra ekki lengur hjörðinni, því ekkert okkar kemst af án samfélagsins á einn eða annan hátt. Óttinn við útskúfun ristir mjög djúpt og þá erum við komin alla leið aftur að erfðasyndinni. Og fyrst við erum að tala um skömm í trúarlegu tilliti mætti ef til vill segja að úrkynjun trúarbragða eigi sér stað þegar ekkert er eftir í þeim nema syndin og skömmin. Eða eru trúarbrögðin eins og geymsla eða leið til að tækla skömmina? Og þá auðvitað listaverkið líka?

Helgi Þór rofnar (2020)

Það sem gerðist eftir að við yfirgáfum kirkjuna, til góðs og ills, er að við höfum í auknum mæli sundrast í kvíslir. Fólk er einmana og ef ég er einn með skömminni þá tekur hún af mér völdin. Við höfum gleymt fagnaðarerindinu, við höfum gleymt kraftaverkum, galdri og sjálfum fögnuðinum og ég held að fólk sakni hans oft.

Finnst þér skipta máli að í verkum þínum sé einhverskonar fögnuður?

Já. Það verður að vera. Leitið og þér munuð finna. Fögnuðurinn virðist stundum vera falinn í leikritum mínum en trúðarnir vísa leiðina.

Hvernig gerir trúðurinn það?

Hann leiðir okkur í gegnum tragedíuna. Hann bendir á að ég og mín sorgarsaga um hvað þetta er erfitt allt saman er bara ævintýri. Hlutverk trúðsins er að umbreyta drama í gleði en góðar leiksýningar leyfa hlutunum að vera hvort tveggja í senn. Allt gott leikhús er einhverskonar óður til flækjunnar. En þegar leikhús er frábært þá renna kvíslirnar saman hver við aðra, við verðum aftur eitt.


Ég er ekkert merkilegur en ég er það eina sem ég hugsa um

 En hvað með ævintýri og sögur, getur verið að ævintýrin hafi þann tilgang að mæta okkur í krísum og auka skilning og yfirsýn og búa til samhengi? Eða geta ævintýrin og sögurnar tekið yfir og við þá farið að stjórnast af sögum?

Síðasta fjórðung liðinnar aldar eyddi leikhúsið miklu púðri í að afbyggja sögurnar og ævintýrin, taka þær í sundur, efast um þær, brjóta þær upp og hæðast að þeim. Það tímabil í leikhúsinu sem tekur ævintýrin í sundur hefur fólk kallað póstdramatískt eða póstmódernískt leikhús, en það er að renna sitt skeið. Nú lifum við tíma í leikhúsinu þar sem við erum ekki að rífa í sundur sjálfa söguna heldur að skoða og spyrja: Sögu hverra segjum við í leikhúsi? Flest leikrit heimsins fjalla um vel stæða herramenn í agalegri klemmu en núna er sjónum beint í ríkari mæli að því fólki sem stendur á jaðrinum í einum eða öðrum skilningi. Það að skyggnast inn í sögur og ævintýri þeirra sem eru mér ólíkir loftar um staðin ævintýri innra með mér. Ég fæ kærkomið frí frá sjálfum mér og spegilmynd minni en það getur líka verið sárt því eins og sumir segja: „Ég er ekkert merkilegur en ég er það eina sem ég hugsa um.“

Í fagurfræði póstmódernismans er fólk aldrei dregið til ábyrgðar og það eygir litla von um breytingu. Sú leiklist festir valdakerfi heimsins í sessi á meðan hún þykist gagnrýna þau. Sú leiklist er framar öllu upp á punt. En það eru auðvitað örlög allra tískubylgja í leikhúsinu að þær hefjast með uppreisn, þær bylta öllu en fjara síðar út og loks dagar þær uppi, saklaust punt í sögu leiklistarinnar.


Agatha Christie og ævintýri um skömm

Hvernig byggirðu leikrit þín upp? Til dæmis Sjö ævintýri um skömm?

Verkið er byggt upp með sama hætti og sjálf skömmin. Þegar skömmin vaknar byrjar hún að kalla á fleiri minningar um skömm. Fólk verður eins og spæjarinn Hercule Poirot í bókum Agöthu Christie. Maður safnar sönnunargögnum um hversu mikið maður á að skammast sín þangað til maður harðnar eins og tröll í ævintýri og verður að steini. Og eina leiðin út úr skömminni verður þá að skamma einhvern annan, dæma einhvern annan. Það verkar eins og stökkpallur upp úr þessari líðan í stað þess að taka eitt skref aftur á bak og segja við sjálfan sig: „Heyrðu, nú ég er staddur í mínu ævintýri um eigin skömm.“

En þess vegna þarf ég stundum að spyrja mig, af hverju viðheld ég þessu ævintýri? Og skoða jafnvel, hvaða kikk fæ ég út úr því að láta mér líða svona?

Áttu við að það fylgi því einhver öfugsnúin sæla að upplifa skömm?

Já, og það er hægt að leika sér að þessari sælu, í leiknum er forvitni og blíða og það er kannski þar sem fögnuðurinn kemst að.

Stórfenglegir leikhúslúðar

Nú ertu að vinna í Þjóðleikhúsinu í fyrsta sinn en síðasta leikrit þitt, Helgi Þór rofnar, var sett upp í Borgarleikhúsinu, í leikstjórn Stefáns Jónssonar, sem leikstýrir líka að þessu sinni.

Jú, en samt er eins og ég sé kominn í hring. Ég lagði af stað hjá Magnúsi Geir fyrir um tíu árum þegar hann var leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu og nú er ég aftur kominn í leikhúsið til hans. Það er voða gaman.

Verk höfundar eru kannski alltaf í einhverskonar samræðu sín á milli. Finnst þér það vera kostur að vinna aftur með sama leikstjóra?

Já, hvort það er.

Af hverju?

Í öllu góðu samstarfi þarf maður að segja sífellt minna til að gera sig skiljanlegan. Stefán Jónsson hefur leikstýrt mörgum frábærum íslenskum verkum, ég nefni til dæmis Leg eftir Hugleik Dagsson og Belgíska Kongó og Hænuungana eftir Braga Ólafsson, og síðan hafa ýmis erlend samtímaverk orðið brilljant í hans höndum. Stefán er bara svo reynslumikill. Það trompar ekkert reynslu í leikhúsi. Fagurfræði Stefáns er þroskuð, hún höfðar til mín.

Hvernig þroskar leikhúsfólk fagurfræði sína?

Ég var þrettán ára í Kópavogi þegar ég ákvað að verða leikhúsmaður og spurði einu frægu manneskjuna sem ég þekkti fyrir utan Geir Ólafs frænda minn, Margréti Eir, hvernig maður yrði góður leikhúsmaður. Margrét Eir, sem er ákaflega flinkur leiklistarkennari, svaraði: „Vertu nörd í leikhúsi, sjáðu allt, lestu allt, vittu allt.“  Ég hlýddi henni og gerðist leikhúsnörd en ég hef varla roð við Stefáni. Hafi ég séð einhverja fáránlega sýningu í úthverfi í Litháen, þá eru miklar líkur á að Stefán hafi séð hana tvisvar. Hann er algjört leikhúsdýr. Allt hans líf hefur snúist um sviðslistir. Og þar sem við höfum aðeins minnst á trú þá mætti örugglega segja um bæði Stefán og þennan stórfenglega leikhóp, að hér er saman komið fólk sem hefur helgað sig leikhúsi. Þau þjóna leikhúsinu. Í því felst frelsi leikarans, það gerir allt svo léttleikandi jafnvel þegar hlutir eru erfiðir. Þegar við þjónum leikhúsinu, þá erum við ekki að reyna að skipa því í þjónustu okkar rétt á meðan – við erum ekki að reyna að stjórna því. Við erum frjáls.

Kaupa miða
Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími