01. Feb. 2022

Loksins hefjast sýningar að nýju

Þjóðleikhúsið hefur sýningar af fullum krafti um helgina og óhætt að segja að það ríki mikil eftirvænting á meðal leikara, starfsfólks og ekki síður leikhúsgesta. Ásta er fyrsta sýningin sem ratar á fjalirnar eftir sex vikna langt hlé sem orðið hefur á sýningarhaldi vegna samkomutakmarkana. Þúsundir leikhúsgesta munu fá nýja miða senda á næstu dögum.

Sýningin Ásta, eftir Ólaf Egil Egilsson, hefur vakið mikil viðbrögð og eftirspurn eftir miðum hefur verið gríðarleg. Sýningin hefur því verið færð á Stóra sviðið og fær að njóta sín þar. Kardemommubærinn hefur göngu sína 19. febrúar og fjöldi barna á öllum aldri getur nú farið að hlakka til að heimsækja þann dásamlega bæ. Það styttist í 100. sýninguna á Vertu úlfur sem hefur hreyft við leikhúsgestum allt frá frumsýningun fyrir um ári síðan en sýningin vann öll helstu leikhúsverðlaunin á síðasta ári og var meðal annars valin sýning ársins á Grímuhátíðinni.

Auk þess að hefja aftur sýningar á vinsælum verkum styttist í  að Þjóðleikhúsið frumsýni þrjár spennandi sýningar. Framúrskarandi vinkona er sannkölluð ítölsk leikhúsveisla. Höfundurinn, Elena Ferrante, á fjölda aðdáenda á Íslandi. Napólíþríleikur hennar um vinkonurnar Lilu og Lenú sló í gegn og leikverk og sjónvarpsseríur sem gerðar hafa verið upp úr bókunum hafa notið mikilla vinsælda um allan heim. Loksins hyllir undir það að íslenskir leikhúsgestir fái að sjá þessar stórsýningu.

Sjö ævintýri um skömm er fyrst verk Tyrfings Tyrfingssonar sem sýnt er á stóru leiksviði en verk hans hafa vakið verðskuldaða athygli á undanförnum árum. Stefán Jónsson stýrir frábærumhópi leikara í óforskammaðri sýningu eins og Tyrfingi  er einum lagið. Annað nýtt íslenskt verk, Umskiptingur, eftir Sigrúnu Eldjárn í leikstjórn Söru Marti, verður frumsýnd á Litla sviðinu eftir nokkrar vikur. Þar er á ferð nútímalega útfærlsa á þjóðsögunni um umskiptinga. Spennandi barnasýning sem beðið er með mikilli óþreyju. Fyrir páska verður nýlegt verk eftir Caryl Churchill, Ást og upplýsingar frumsýnt í Kassanum í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur og um svipað leyti frumsýnum við glænýtt íslenskt verk, Prinsinn í leikstjórn Maríu Reyndal sem hún samdi ásamt Kára Viðarssyni.

Allir leikhúsgestir erum um þessar mundir að fá nýja miða senda í pósti. Eldri miðiar gilda ekki lengur. Veitingasala er opin fyrir sýningar og í hléi en áfengissala er ekki leyfð. Grímuskylda er ennþá á alla viðburði.

 

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími