13. Sep. 2022

Sem á himni frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 16. september

Föstudaginn 16. september frumsýnir Þjóðleikhúsið söngleikinn Sem á himni á Stóra sviðinu. Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstýrir og hefur með sér sama listræna teymið og skapaði stórsýninguna Mamma Mia, en nýjasta sýning hennar, Vertu úlfur, hlaut sjö Grímuverðlaun, m.a. sem sýning ársins. Með aðalhlutverk fara Salka Sól og Elmar Gilbertsson, sem hefur um árabil verið eftirsóttur í óperuhúsum víða um heim en stígur nú í fyrsta sinn á svið í Þjóðleikhúsinu. Auk Elmars og Sölku Sólar eru Vala Guðnadóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Katrín Halldóra og Hinrik Ólafs hluti af hópi 25 leikara í sýningunni. Stór hljómsveit leikur undir.

Kaupa miða

Splunkunýr söngleikur sem leikur á allan tilfinningaskalann
Sem á himni prýðir ægifögur tónlist, litríkar og skemmtilegar persónur og hrífandi saga. Söngleikurinn hefur nú þegar heillað fjölda áhorfenda erlendis, og nýjar uppsetningar eru væntanlegar víða. Verkið gerist í litlu samfélagi á landsbyggðinni þar sem allir þekkja alla, og hver hefur innsýn í annars gleði og sorgir. Þegar heimsfrægur hljómsveitarstjóri, á hátindi ferils síns, sest óvænt að í þorpinu til að draga sig út úr skarkala heimsins þykir ýmsum tilvalið að fá hann til að stýra kirkjukórnum. Þessi maður á sér sársaukaþrungin leyndarmál, en þegar tónlistin fer að óma af nýjum og áður óþekktum krafti í litla samfélaginu byrjar að losna um margt og lífið tekur óvænta stefnu. Hrífandi saga um hin sönnu verðmæti í lífinu, gildi vináttunnar og ástina.

Kvikmyndin sem sló í gegn og var tilnefnd til Óskarsverðlauna
Söngleikurinn er byggður á samnefndri sænskri kvikmynd með Michael Nyqvist í aðalhlutverki. Myndin sló aðsóknarmet í Svíþjóð, varð geysivinsæl víða um heim og var m.a. tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Listrænt teymi sem hefur náð glæsilegum árangri
Listrænt teymi sýningarinnar er sérdeilis glæsilegt. Eins og áður sagði er það Unnur Ösp Stefánsdóttir sem leikstýrir söngleiknum, en í áhöfn hennar eru Jón Ólafsson tónlistarstjóri, Ilmur Stefánsdóttir leikmyndahöfundur, Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsingahönnuður, Filippía I. Elísdóttir búningahöfundur, danshöfundurinn Lee Proud og um hljóðhönnun sjá Kristinn Gauti Einarsson og Kristján Sigmundur Einarsson. Þýðandi er Þórarinn Eldjárn.

Sérstakur matseðill í boði í tengslum við sýninguna
Leikhúsgestir geta nú notið ljúffengra veitinga í endurnýjuðum forsal Þjóðleikhússins. Í tengslum við sýninguna Sem á himni hefur Ólafur Ágústsson, yfirkokkur Þjóðleikhússins, sett saman girnilegan smáréttaseðil í norrænum stíl. Eftir breytingar á forsal leikhússins varð í fyrra gífurlega vinsælt að panta mat til að njóta fyrir sýningu og í hléi – og þannig gerðu leikhúsgestir enn meira úr kvöldinu.

Skoða matseðil
Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími