02. Sep. 2022

Þjóðleikhúsblaðið er komið út

Kynningarrit Þjóðleikhússins fyrir leikárið 2022-2023 er nú aðgengilegt hér á vefnum.

Þú getur einnig pantað prentútgáfu blaðsins hér.

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri býður leikhúsgesti hjartanlega velkomna:

Verið hjartanlega velkomin!

Nýtt leikár! Nýtt upphaf! Þjóðleikhús okkar allra er opið upp á gátt og bíður ykkar, kæru leikhúsgestir, fullt af töfrum og ógleymanlegum upplifunum.

Á síðustu tveimur árum höfum við verið rækilega minnt á að maður er manns gaman og hversu fábreytt tilveran getur orðið ef við missum tengslin við annað fólk. Leikhúsið sameinar og býður upp á einstaka samveru. Í leikhúsinu upplifum við saman það sem er að gerast á sviðinu, við hlæjum, grátum, stöndum á öndinni – saman. Þannig verður hvert kvöld í leikhúsinu einstakt.

Segja má að sameining sé meginstef leikársins. Um leið fögnum við mennskunni í allri sinni dýrð og rétti okkar til þess að vera þau sem við erum, hindranalaust. Við tökum á knýjandi og eldfimum málum, og við skoðum hið einstaka sem endurspeglar svo oft hinn stóra og algilda sannleika um manneskjurnar.

Íslenskt leikhús hefur aldrei verið í jafn virku og frjóu samstarfi við erlend leikhús og listamenn í fremstu röð, eins og sjá má hér í blaðinu. Við opnum leikhúsið fyrir nýjum gestum á öllum aldri og af ólíkum uppruna, og stöndum fyrir fjölbreyttu fræðslustarfi.

Áhorfendur á sýningum á Stóra sviðinu hafa tekið nýjum endurbótum á áhorfenda- og veitingaaðstöðu fagnandi, og nú er verið að ljúka gagngerum endurbótum á forsal í Kassanum. Í vetur munu gestir þar geta notið ljúffengra veitinga fyrir sýningu og í hléi í notalegu og skemmtilegu umhverfi, og þannig gert góða kvöldstund í leikhúsinu enn hátíðlegri.

Starfsfólk Þjóðleikhússins er tilbúið. Við hlökkum til að taka á móti ykkur og fagna mennskunni í allri sinni dýrð.

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími