Ormstunga er glænýr íslenskur söngleikur sem verður frumsýndur á Stóra sviðinu á næsta leikári
Ormstunga er glænýr íslenskur söngleikur sem verður sýndur á Stóra sviði Þjóðleikhússins á næsta leikári. Söngleikurinn byggir á Gunnlaugs sögu Ormstungu og er eftir þá Hafstein Níelsson og Ólíver Þorsteinsson. Gísli Örn Garðarsson leikstýrir verkinu þar sem unnið er með glæsilegum hætti úr menningararfi okkar í nútímalegu og heillandi formi. Orka og ferskleiki söngleikjaformsins mætir átakaþrungnum heimi Íslendingasagnanna. Boðið verður upp á sannkallaða leikhústöfra og sjónarspil eins og Gísla Erni er einum lagið og frábær hljómsveit mun flytja brakandi ferska tónlist.

Vertu fremst í röðinni þegar miðasala hefst:
Höfundarnir upplifa drauminn
Þeir Hafsteinn Níelsson og Ólíver Þorsteinsson eru höfundar söngleiksins Ormstungu en uppsetning verksins var jafnframt lokaverkefni Hafsteins á 2. ári sviðslistabrautar Listaháskólans. Nemendasýningin sló í gegn, var sýnd þrisvar sinnum fyrir troðfullum sal og öllum sem sáu var ljóst að þarna var eitthvað alveg einstakt á ferðinni. Síðastliðið ár hafa þeir í samstarfi við Gísla Örn Garðarsson unnið að áframhaldandi þróun verksins og fengu Jóhann Damian R. Patreksson (JóaPé) í hlutverk tónlistarstjóra og meðhöfundar tónlistar.

Ólíver Þorsteinsson og Hafstein Níelsson, höfundar verksins
Stórkostlegur leikhópur
Það verður vígalegur hópur leikara sem mun prýða sýninguna, en í hlutverkum Helgu, Gunnlaugs og Hrafns verða þrír ungir leikarar sem hafa heillað á síðustu misserum, þau Jakob von Oosterhout, Rán Ragnarsdóttir og Kristinn Óli Haraldsson (Króli). Þau eru umvafinn öðrum frábærum leikurum, reynsluboltum og nýjum kröftum en meðal þeirra eru Almar Blær Sigurjónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Birta Sólveig Söring Þórisdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Kjartan Darri Kristjánsson, Oddur Júlíusson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Selma Rán Lima, Sigurbjartur Sturla Atlason, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Örn Árnason ofl..
Frægasti ástarþríhyrningur Íslandssögunnar
Sagan um Gunnlaug Illugason, Hrafn Önundarsson og Helgu hina fögru Þorsteinsdóttur er líklega einn frægasti ástarþríhyrningur fornbókmenntanna og jafnvel Íslandssögunnar allrar; saga um ung skáld sem takast á. Of lengi hafa örlögin hrjáð þau en nú fyrir framan áhorfendur fá þau loksins að gera upp sín mál! Ormstunga er saga um drauma, ástir og ill örlög og spyr spurninga. Hvað gerir mann að hetju?
Magnað leikár framundan
Ormstunga verður hluti af gríðarlega spennandi leikári Þjóðleikhússins en segja má að hver stórfréttin um verkefnin framundan hafi rekið aðra á umliðnum vikum. Þegar hafa selst um 15.000 miðar á Línu Langsokk en þar mun Agnes Wild leikstýra. Stutt er síðan tilkynnt var um nýtt verk Ólafs Jóhanns, Íbúð 10B sem Baltasar Kormákur mun leikstýra. Jólafrumsýningin Óresteia verður í leikstjórn verðlaunaleikstjórans Benedicts Andrews og í síðustu viku var tilkynnt að Kristín Þóra væri á leið á Stóra sviðið með Á rauðu ljósi. Grímusýning ársins, Saknaðarilmur, verður aftur á fjölunum í haust, auk gleðisprengjunnar Eltum veðrið. Þá verður einnig framhald á sýningum á sýningunni fallegu, Blómin á þakinu.
Gísli Örn Garðarsson
Gísli Örn Garðarsson hefur sett upp fjölda leiksýninga á Íslandi og erlendis, sem höfundur og leikstjóri, og hefur leikið á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpi. Hann hefur starfað við fjölda virtra leikhúsa á Íslandi, í Noregi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og víðar. Meðal leikstjórnarverkefna hans eru Frost, Jólaboðið, Ellý, Fólk, staðir og hlutir, Ofviðrið, Óþelló, Í hjarta Hróa hattar, Hamskiptin, Faust, Woyzeck og Rómeó og Júlía. Gísli lék hér síðast í Ex. Hann er einn af stofnendum Vesturports. Hann hefur tvívegis hlotið Edduverðlaunin sem leikari og hefur unnið til alþjóðlegra leiklistarverðlauna fyrir leikstjórn.
Hafsteinn Níelsson
Það má finna mikinn húmor í sköpunarverkum Hafsteins Níelssonar leikara og sviðslistamanns. Fyrir nám sitt í Listaháskóla Íslands á sviðshöfundabraut nærði hann sitt listræna hjarta á samfélagsmiðlinum TikTok undir nafninu Haddi Paddi (@haddilitli). Árum saman hefur Hafsteinn sviðsett sjálfan sig á samfélagsmiðlun (bæði á Snapchat og TikTok) og öðlast mikið fylgi þá einkum meðal ungmenna. Hafsteinn var á leiklistabraut við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og hefur stigið á svið í ýmis áhuga uppfærslum þá sérstaklega söngleikjum. Þar má nefna hlutverk hans sem Hedwig í Hedwig and the angry inch í uppsetningu leikhópsins Gnosis og uppfærslu Söngskóla Sigurðar Demetz á Legally Blonde (Ljóska í Gegn). Hafsteinn starfar einnig sem raddleikari hjá Stúdíó Sýrlandi.
Ólíver Þorsteinsson
Ólíver Þorsteinsson hefur starfað sem útgefandi hjá LEÓ Bókaútgáfu í fimm ár og gefið út allar fjölbreyttar tegundir bóka eftir fjölda rithöfunda. Sjálfur hefur hann skrifað bækur og barnaefni fyrir hlaðvarpið Inga og Draugsi. Fyrsta bókin hans, Í hjarta mínu og barnabókin Þegar leikskólakennararnir hurfu hafa verið þýddar á erlend tungumál og hlotið góðar viðtökur víða. Einnig voru bækurnar hans Langafi minn Supermann og Langafi minn Supermann – jólastund tilnefndar til Storytel awards í flokki barna og ungmenna.
Nánar um sýninguna
Ormstunga eftir Hafstein Níelsson og Ólíver Þorsteinsson
frumsýning í janúar 2026 á Stóra sviðinu
Handrit og söngtextar: Hafsteinn Níelsson og Ólíver Þorsteinsson
Tónlist: Hafsteinn Níelsson
Meðhöfundur tónlistar og tónlistarstjórn: Jóhannes Damian R. Patreksson
Leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Búningar: María Th. Ólafsdóttir
Lýsing: Garðar Borgþórsson
Hljóðmynd: Þóroddur Ingvarsson og Brett Smith
Í tenglsum við sýninguna verður boðið upp á námskeið á vegum Endurmenntunar. Nánar auglýst síðar.