Ævintýri Orra óstöðvandi og Möggu Messi sýning ársins á Sögum
Frábæra sýningin okkar um Orra og Möggu var valin sýning ársins á Sögum barnamenningarhátíð sem haldin var í beinni útsendingu á RÚV á laugardag. Jafnframt fengu leikararnir okkar ungu, Dagur og Sóllilja, úr Blómunum á þakinu verðlaunin fyrir leikara ársins. Sögur er hátíð þar sem börn um allt land velja það sem þeim þykir standa upp úr í barnamenningu á árinu. Það er okkur mikill heiður að fá þessi verðlaun enda elskar starfsfólk Þjóðleikhússins að gleðja börn.
Orri óstöðvandi byggir á sögu Bjarna Fritz en Vala Fannell gerði leikgerðina og leikstýrði. Sýningin var sýnd um allt land fyrir yfir 12.000 börn í 5., 6. og 7. bekk. Sýningum á Orra og Möggu er lokið í bili – en örvæntið ekki því þau munu snúa aftur!