Jón Sigurbjörnsson leikari látinn
Jón Sigurbjörnsson leikari, leikstjóri og óperusöngvari andaðist á dvalarheimilinu Hrafnistu í gær, 99 ára að aldri.
Jón lék lengst af með Leikfélagi Reykjavíkur en var fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið á árunum 1960-67, að undanskildum árunum 1964 og 1965, er hann var ráðinn til konunglegu sænsku óperunnar í Stokkhólmi. Þar söng hann m.a. í óperunum Il trovatore, Rigoletto og Aidu. Jón söng einnig hér heima, meðal annars hlutverk nautabanans í Carmen, sem hann leikstýrði sjálfur hjá Þjóðleikhúsinu. Hann söng í íslensku óperunum Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson og Silkitrommunni eftir Atla Heimi Sveinsson, sem báðar voru færðar upp af Þjóðleikhúsinu. Meðal sýninga sem hann lék í hér eru Kardemommubærinn, Landið gleymda, Kysstu mig Kata og Óvænt heimsókn, en myndirnar af Jóni hér meðfylgjandi eru úr þessum sýningum.
Jón stundaði leiklistarnám hjá Lárusi Pálssyni 1944-45 og lauk prófi frá The American Academy of Dramatic Arts í New York árið 1948. Hann stundaði söngnám hjá Sigurði Demetz árum saman, en einnig í New York, Mílanó og Róm.
Jón hóf leiklistarferil sinn sem Hóras í Hamlet hjá Leikfélagi Reykjavíkur vorið 1949. Hann var fastráðinn leikari við Leikfélag Reykjavíkur á árunum 1967-92 og leikstýrði þar jafnframt fjölda sýninga. Hann lék einnig með leikhópnum Sex í bíl, sem fór um landið um miðja síðustu öld.
Jón lék um 120 hlutverk á sviði, þar af í fjölda ópera og söngleikja. Þá lék hann í útvarpsleikritum, sjónvarpsleikritum og meðal annars í kvikmyndunum Landi og sonum, Útlaganum, Gullsandi, Magnúsi, Bíódögum og Myrkrahöfðingjanum. Síðasta kvikmyndahlutverkið var í stuttmyndinni Síðasta bænum.
Jón var formaður Leikfélags Reykjavíkur 1956-59, formaður Félags íslenskra leikara 1961-63, var gerður heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur og var sæmdur heiðursverðlaunum Grímunnar árið 2005. Hann var einn af sex listamönnum í framvarðarsveit Leikfélags Reykjavíkur sem var heiðraður, árið 2009, með opnun margmiðlunarþáttar um hann í forsal Borgarleikhússins. Ævisaga Jóns, Sú dimma raust, skráð af Jóni Hjartarsyni leikara kom út árið 2001.
Þjóðleikhúsið þakkar Jóni framlag sitt til íslenskrar leiklistar og vottar aðstandendum hans innilega samúð.