08. Des. 2021

Stórsýningunni Framúrskarandi vinkonu frestað til nýja ársins 

Framúrskarandi vinkona – sannkölluð leikhúsveisla með tveimur hléum

Frumsýningar á stórsýningunni Framúrskarandi vinkonu er beðið með mikilli eftirvæntingu, enda sannkölluð leikhúsveisla í vændum. Verkið er byggt á geysivinsælum bókum Elenu Ferrante og leikstjóri er hin margverðlaunaða Yael Farber. Hér er á ferð sannkölluð stórsýning með 25 leikurum, auk barna, en tvö hlé verða á sýningunni. Í ljósi þess að ríkjandi sóttvarnarreglur hafa verið framlengdar er ljóst að fresta þarf frumsýningu á þessari mögnuðu sýningu sem fyrirhugað var að frumsýna á annan í jólum. Frumsýnt verður um miðjan janúar.  

„Framúrskarandi vinkona er einstaklega viðamikil og glæsileg sýning, sem við verðum að geta sýnt við betri aðstæður en núverandi reglugerð býður upp á,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri. „Gerð verða tvö hlé á sýningunni og við höfum orðið vör við mikinn áhuga leikhúsgesta á að gera enn meira úr leikhúsheimsókninni, með því að njóta ljúffengra, ítalskra veitinga í hléum, en slíkt er ekki heimilt nú. Við viljum gera gestum okkar kleift að njóta þessarar einstöku leikhúsveislu til fulls, og höfum því ákveðið að fresta frumsýningu í þeirri von og trú að sóttvarnarreglur verði ekki jafn íþyngjandi í upphafi nýs árs.“ 

Samkvæmt ríkjandi sóttvarnarreglum er leikhúsgestum skylt að framvísa hraðprófi sem gert hefur verið innan 48 klst., sem getur orðið sérstaklega örðugt í framkvæmd yfir hátíðarnar.  

„Leikhúsið hefur allt frá því að faraldurinn hófst þurft að laga sig að síbreytilegum aðstæðum,“ segir Magnús Geir, „og í raun makalaust þegar litið er til baka hvernig Þjóðleikhúsið hefur þrátt fyrir allt verið á blússandi siglingu á þessum erfiðu tímum. Við höfum fundið mikinn meðbyr með sýningum okkar og áhorfendur hafa verið tilbúnir til að takast á við aðstæðurnar með okkur. Sem dæmi má nefna að þegar gluggi opnaðist í haust sýndu áhorfendur að þeir voru sannarlega leikhúsþyrstir og tryggðu sér miða í Þjóðleikhúsið sem aldrei fyrr.  Sýningar eru í fullum gangi á fjölmörgum verkum en eins og fyrr segir þá er Framúrskarandi vinkona slík stórsýning að við teljum óheppilegt að sýna hana við ríkjandi reglur, og okkur finnst miklu varða að geta boðið gestum okkar að upplifa hana við kjöraðstæður. Við ákváðum því að bíða aðeins með frumsýninguna og láta okkur hlakka til stórsýningarinnar í janúar.“  Nýir sýningartímar og nákvæm frumsýningardagsetning verður staðfest fyrir vikulok. 

Nánari upplýsingar um Framúrskarandi vinkonu er að finna hér.

 

 

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími