23. Des. 2021

Leiksýningum og tónleikum aflýst um jólin í helstu sviðslistahúsum landsins


Allt frá því að heimsfaraldur Covid-19 skall á, snemma árs 2020, hafa leikhús, tónlistarhús og aðrar menningarstofnanir lagt sig fram um að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á fjölbreytta og vandaða listviðburði innan þeirra takmarkana sem gilt hafa hverju sinni. Stofnanir og menningarhús sem vinna saman undir merkjum SAVÍST hafa unnið náið með stjórnvöldum, gætt þess að fara að fyrirmælum til hins ítrasta og kappkostað að bjóða upp á öruggt og ábyrgt viðburðahald. Takmarkanir hafa verið af ýmsum toga síðustu tuttugu mánuði, allt frá algeru samkomubanni til tiltölulega lítið íþyngjandi takmarkana á stundum. Frá því faraldurinn skall á eru engin dæmi þess að smit hafi orðið á milli gesta á sitjandi menningarviðburði á Íslandi.

Í nóvember síðastliðnum voru settar á nýjar og íþyngjandi reglur sem fólu í sér að allir gestir fæddir 2016 og eldri skyldu framvísa neikvæðu hraðprófi við komu á viðburð. Eftir þessu var farið í einu og öllu og útfærðu menningarhús skönnun hraðprófa á mettíma, sem og móttöku gesta með neikvætt PCR eða vottorð um fyrri sýkingu.

Nú í vikunni voru aðgerðir enn hertar verulega og í gær kom í ljós að menningarhúsin fá ekki undanþágu frá eins metra fjarlægðarreglu þrátt fyrir að allir gestir muni framvísa neikvæðu hraðprófi, sitji með grímur á viðburðum í númeruðum sætum sem skráð eru á kennitölur, fjöldatakmörk miðist við 200 manns í hólfi, áfengissala óheimil og mælst til að gestir haldi kyrru fyrir í sætum í hléi.

Í ljósi þessa sjá menningarhúsin sér ekki annað fært en að aflýsa öllum leiksýningum og tónleikum sem stóðu fyrir dyrum – að minnsta kosti fram að áramótum. Undantekningin frá þessu eru tónleikar í Hörpu í dag Þorláksmessu og ferðamannaviðburðir yfir hátíðirnar enda húsið opið almenningi.

Það hryggir starfsfólk þessara menningarhúsa mjög að geta ekki mætt gestum sínum á fyrirhuguðum viðburðum enda er bæði hátíðlegt og gefandi að njóta leiksýninga og tónleika yfir hátíðarnar. Uppselt er á nær alla viðburði og stofnanirnar sáu engan veginn fram á hvernig hefði átt að velja þann hluta gesta sem fengi að mæta og hverjum þyrfti að vísa frá, auk þess sem of skammur tími er til stefnu til að endurraða gestum í salina og hafa samband við alla væntanlega gesti. Miðasölur leikhúsanna og tónleikahúsanna munu hafa samband við miðahafa og bjóða þeim nýjar dagsetningar um leið og færi gefst. Athugið að ofangreind ákvörðun snýr að sýningum fram aðáramótum en enn er óljóst hvort leiksýningum og tónleikum verður fram haldið á fyrstu dögum nýs árs.

Savíst harmar að þurfa að taka þessa ákvörðun en hún er því miður óhjákvæmileg í ljósi erfiðra aðstæðna. Það er okkar einlæg von að við sem samfélag náum að snúa við þróun mála í yfirstandandi heimsfaraldri á sem skemmstum tíma með því að fylgja vel þeim reglum sem felast í núverandi reglugerð.

Við óskum landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Við hlökkum til að hittast aftur saman í salnum, örugg og frísk!

Brynhildur Guðjónsdóttir, Borgarleikhúsið
Erna Ómarsdóttir, Íslenski dansflokkurinn
Friðrik Friðriksson, Tjarnarbíó Lára Sóley Jóhannsdóttir, Sinfóníuhljómsveit Íslands
Magnús Geir Þórðarson, Þjóðleikhúsið
Steinunn Birna Ragnarsdóttir, Íslenska Óperan
Stefán Eiríksson, RÚV Svanhildur Konráðsdóttir, Harpa
Þuríður Helga Kristjánsdóttir, MAK

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími